Laun starfsmanna sveitarfélaga hækkuðu um 6,5 prósent í fyrra, laun ríkisstarfsmanna hækkuðu um 6,2 prósent og laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 5,8 prósent, samkvæmt launavísitölu Hagstofunnar. Eftir starfsstétt þá hækkuðu laun stjórnenda minnst, eða um 5,2 prósent. Laun sérfræðinga hækkuðu um 6,4 prósent og laun starfsfólks við þjónustu-, sölu- og afgreiðslu hækkuðu um 7 prósent.
Kaupmáttur hefur vaxið
Með lágri verðbólgu og hækkandi nafnlaunum hefur kaupmáttur farið vaxandi á Íslandi. Kaupmáttur hefur ekki mælst hærri en í febrúar síðastliðnum.
Nýlega var fjallað um málið hér á Kjarnanum, í samstarfi við Stofnun um fjármálalæsi, og var haft eftir Gylfa Magnússyni, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, að þótt kaupmáttur mælist í hæstu hæðum, þá sé það ekki skrýtið að einhverjir upplifi eigin raunveruleika ekki þannig. „Það er út af fyrir sig ekkert skrýtið þótt einhverjir, og jafnvel margir, skynji launaþróun öðruvísi en vísitölu kaupmáttar launa. Hluti skýringarinnar liggur í því að launataxtar og ráðstöfunartekjur eru ekki það sama. Það munar raunar talsverðu vegna þess að fjármagnstekjur voru mun hærri í bólunni, en dreifðust raunar mjög misjafnt. Jafnframt dróst yfirvinna talsvert saman í krísunni,“ sagði Gylfi og vísar í samanburði við árin 2007 og 2008, þegar kaupmáttur var einnig mikill samkvæmt mælingum Hagstofunnar.