Fjárhagsstaða og andleg heilsa launafólks í ASÍ og BSRB versnaði töluvert á síðasta ári. Þetta kemur fram í niðurstöðum skoðanakönnunar frá Vörðu – Rannsóknarstofnun vinnumarkaðarins, sem kynntar voru á veffundi í dag.
Innflytjendur verst úti
Samkvæmt skoðanakönnuninni áttu þrír af hverjum tíu svarendum erfitt með að ná endum saman undir lok síðasta árs. Þetta er nokkuð hærra hlutfall en mældist í annarri skoðanakönnun á vegum Vörðu fyrir ári síðan, þar sem 27 prósent þeirra sagðist vera í fjárhagskröggum.
Mest hefur staðan versnað hjá innflytjendum, en 46 prósent þeirra sögðust eiga erfitt með að ná endum saman við síðustu árslok. Sambærilegt hlutfall nam 35 prósentum í lok ársins 2020.
Skoðanakönnunin mældi einnig efnislegan skort viðmælenda meðal annars með því að spyrja þá hvort þeir ættu efni á ýmsum heimilistækjum, bíl og árlegt frí með fjölskyldu. Í öllum þeim níu þáttum sem efnislegur skortur var mældur var hann meiri á meðal innflytjenda.
Mestur var aðstöðumunurinn í möguleikanum að eiga frí með fjölskyldunni, þar sem tæplega þrír af hverjum tíu innflytjendum töldu sig ekki eiga efni á því. Til samanburðar sögðust um 18 prósent innfæddra ekki eiga efni á árlegu fríi.
Andleg heilsa verri
Til viðbótar við lakari fjárhagslega stöðu bendir könnunin til að andlegri heilsu launþega hérlendis hafi hrakað á síðasta ári. Fleiri viðmælendur finna nú nánast daglega fyrir neikvæðum andlegum einkennum líkt og depurð, sinnuleysi og lágt sjálfsálit.
Sem fyrr er staðan verri á meðal innflytjenda, en í kringum 40 prósent þeirra bjuggu við slæma andlega heilsu samkvæmt svokölluðum PHQ-9 skala undir lok síðasta árs. Um 25 prósent innfæddra voru í sömu stöðu, samkvæmt könnuninni.
Einnig er nokkur munur á andlegri heilsu á milli kynja, en fleiri konur virðast búa við slæma andlega heilsu heldur en karlar. Þó hefur körlum sem hugsa um einhvers konar sjálfsskaða fjölgað töluvert á milli ára.