Lífsgæði á Íslandi myndu frekar batna með umbótum á húsnæðismarkaði, í menntakerfinu og vinnuálagi í stað krafna um frekari launahækkanir, sem hafa verið miklar á síðustu tveimur árum. Þetta skrifar Gylfi Zoega, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands og ytri meðlimur í peningastefnunefnd Seðlabankans, í síðasta tölublaði Vísbendingar.
Miklar launahækkanir og óskynsamlegur hagvaxtarauki
Gylfi fer einnig yfir meðaltal launahækkana félagsmanna ASÍ, BSRB, BHM og Kennarasambands Íslands frá því að síðustu kjarasamningar voru undirritaðir í mars 2019. Þar hafa laun félagsmanna ASÍ hækkað mest, eða um tæp 30 prósent. Hækkanirnar hjá hinum félögunum á sama tímabili voru svo á milli 16 og 27 prósent.
Búist er við því að svokallaður hagvaxtarauki, sem felur í sér hærri laun ef hagvöxtur er mikill og er innbyggður í kjarasamningunum, muni leiða til enn meiri launahækkana á næsta ári. Að mati Gylfa getur þetta ákvæði varla talist skynsamlegt, þar sem hagvöxturinn í ár og á næsta ári sé bein afleiðing af samdrættinum af völdum farsóttarinnar í fyrra. Því leiði farsóttin beint til launahækkana óháð afkomu fyrirtækja og framleiðni vinnuafls.
„Skólabókardæmi“ um hvernig verðbólga getur magnast
Ofan á þetta rifjar Gylfi einnig upp ummæli forystumanna launþega um að vaxandi verðbólga undanfarinna mánaða muni leiða til þess að krafist verði þess að laun þeirra hækki enn frekar svo að kaupmátturinn haldist. Samkvæmt honum eru þessi ummæli skólabókardæmi um hvernig verðbólga getur magnast og orðið viðvarandi, eins og gerðist á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
Slíkar kröfur eru hins vegar ekki til þess fallnar að bæta lífskjör á Íslandi, samkvæmt Gylfa. „Ef framleiðsla verður dýrari í heiminum þá er það staðreynd sem ekki verður umflúin að lífskjör versna. Það er sömuleiðis eins og að pissa í skóinn sinn að hækka laun vegna þess að innlent verðlag hafi hækkað sem síðan leiðir til frekari launa- og verðhækkana,“ bætir hann við.
Betra að bæta lífskjör með öðrum leiðum
Gylfi segir að lífsgæði hér á landi séu góð, og bendir hann á há meðallaun, mikinn jöfnuð og litla fátækt því til stuðnings. Hins vegar segir hann að þau mætti bæta með öðrum leiðum en launahækkunum.
Hann bendir á stöðu Íslands í lífsgæðavísitölu OECD, en samkvæmt henni er húsnæðismarkaði, menntun, og samrýmingu vinnu og frístunda ábótavant hér á landi. Miklar hækkanir á húsnæðisverði hafi gert lágtekjufólki erfiðara um vik að eignast eigið húsnæði, auk þess sem það hafi valdið eignatilfærslu frá ungu fólki til eldri kynslóða.
Sömuleiðis hafi frammistaða grunnskólabarna á PISA-prófum ekki verið góð, sérstaklega ekki hjá drengjum. Hlutfall háskólamenntaðra sé einnig lágt í samanburði við önnur OECD-ríki.Þar að auki sé vinnutíminn langur hérlendis, í samanburði við hin Norðurlöndin. Gylfi segir Íslendinga virðast eiga erfitt með að samræma vinnu, einkalíf og barnauppeldi.
„Hættan er sú á komandi ári að ekki verði tekið á þessum sem öðrum þjóðþrifamálum en tímanum varið í karp þar sem skammtímahagsmunir ráða för og væntingar um frekari launahækkanir eru óraunhæfar,“ bætir Gylfi við í greininni sinni.
Hægt er að lesa grein Gylfa í heild sinni með því að gerast áskrifandi að Vísbendingu.