Launatekjur íslenskra heimila drógust saman um 1,6 prósent í fyrra, miðað við árið á undan og er það mesti samdráttur í tekjuflokknum í 11 ár. Eignatekjur heimilanna jukust hins vegar um 1,9 prósent milli ára, sem er í samræmi við meðalhækkun síðustu árin. Auk þess jukust lífeyrisgreiðslur og félagslegar bótatekjur þeirra um 27 prósent. Þetta kemur fram í tekjuskiptingauppgjöri Hagstofu, sem birtist í gær.
Ef miðað er við mannfjöldaþróun var samdrátturinn í launatekjum heimila enn meiri, eða um þrjú prósent, milli ára þar sem þær fóru úr 4,5 milljónum á hverju ári á mann árið 2019 niður í 4,3 milljónir á mann í fyrra. Alls námu launatekjurnar tæpum 1.600 milljörðum króna.
Líkt og sjá má á mynd hér að neðan jukust launatekjurnar að meðaltali um 9 prósent á hverju ári á árunum 2011-2018 og var vöxturinn nokkuð stöðugur milli ára. Árið 2019 var árlegur vöxtur launatekna heimila þó nokkuð minni, eða um 4 prósent.
Þróun eignatekna heimilanna, sem inniheldur arðgreiðslur, vaxtatekjur og leigutekjur þeirra, hefur hins vegar verið nokkuð sveiflukenndari og rokkað á milli 10 prósenta vaxtar og 5 prósenta samdráttar á tímabilinu. Í fyrra nam hann þó 1,9 prósentum, sem er svipað og meðalvöxtur eignatekna heimilanna á síðustu tíu árum.
Eignatekjur heimilanna námu alls 170 milljörðum króna í fyrra. Líkt og Kjarninn hefur áður greint frá renna fjármagnstekjur, sem er stór hluti eignateknanna, að mestu leyti til þeirra tekjuhæstu. Árið 2019 aflaði tekjuhæsta prósent landsmanna nær helming allra fjármagnstekna ársins, eða um 58 milljarða króna.
Aukningin í vaxtatekjum heimilanna var þó ekki jafnmikil og aukningin í tekjum þeirra úr lífeyris- eða bótakerfinu, en þær jukust um 27 prósent milli ára í fyrra. Alls námu þær rúmlega 492 milljörðum krónum í fyrra, miðað við 387 milljarða króna bótagreiðslur árið 2019.