Lilja segir Samherja hafa gengið of langt í sínum vörnum

Mennta- og menningarmálaráðherra styður Ríkisútvarpið í þeirri „orrahríð“ sem Samherji hefur háð gegn stofnuninni. Töluvert var rætt um viðbrögð Samherja við fréttaflutningi RÚV í óundirbúnum fyrirspurnatíma í dag.

Lilja Alfreðsdóttir kynnir fjölmiðlafrumvarp 31. jan 2019
Auglýsing

Samherji gekk of langt í viðbrögðum sínum við fréttaflutningi Ríkisútvarpsins að mati Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra. Þetta kom fram í svari Lilju við fyrirspurn Guðmundar Andra Thorssonar, þingmanns Samfylkingarinnar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Lilja sagði það mikilvægt að fjölmiðlar séu frjálsir og geti fjallað um málefni líðandi stundar og að hún styddi Ríkisútvarpið „í þessari umfjöllun og í þessari orrahríð. Ég vil líka segja að mér finnst Samherji ganga of langt í viðbrögðum sínum.“

Að mati Lilju hafi stjórn RÚV tekið rétt á málunum. „Ég tel að stjórn Ríkisútvarpsins hafi brugðist rétt við, hvernig þau hafa tekið á þessu máli. Það er mín skoðun að það skipti öllu máli að fjölmiðlar séu frjálsir og að við styðjum að sjálfsögðu við Ríkisútvarpið okkar, og ég tel að Samherji hafi gengið of langt.“

Auglýsing

Sérstaklega sé vegið að Helga Seljan

Guðmundur Andri sagði í fyrirspurn sinni frjálsa fjölmiðla sem sinna vandaðri og gagnrýnni umfjöllun vera eina af mikilvægustu auðlindum hverju lýðræðissamfélagi. Sem dæmi um slíka umfjöllun nefndi Guðmundur Andri umfjöllun Kveiks um starfshætti Samherja í Namibíu en hann gagnrýndi viðbrögð fyrirtækisins.

Guðmundur Andri spurði Lilju út í afstöðu hennar til viðbragða Samherja við fréttaflutningi Ríkisútvarpsins af málefnum félagsins. Mynd: Bára Huld Beck.

„Varnir fyrirtækisins hafa ekki falist í því að hrekja það efnislega sem kom fram í þessum þáttum heldur í því að sverta heimildarmenn og veitast að fréttamönnum sem efnið unnu með kærumálum til siðanefndar og dreifingu á áróðursmyndböndum þar sem sérstaklega hefur verið vegið að Helga Seljan, fréttamanninum sem bar hitann og þungann af þessari þáttagerð.“

Ekki fari á milli mála að ætlun forsvarsmanna fyrirtækisins sé að hræða fréttamenn frá því að sinna vinnu sinni að sögn Guðmundar Andra.

Í síðari ræðu sinni spurði Guðmundur Lilju að því hvort hún teldi að framganga Samherja gagnvart Ríkisútvarpinu og Seðlabankanum væri eðlileg hagsmunavarsla.

Fjölmiðlar á Íslandi hafi staðið sig vel

Lilja sagði fjölmiðlamenn hafa staðið sig vel. „Ég tel að allt þetta mál sýni í raun og veru að við erum hér í frjálsu og opnu samfélagi, það er að segja þegar málið er tekið til umfjöllunar er það gert á mjög gagnrýninn hátt og fjölmiðlamennirnir fara í málið og hika ekki við það. Þegar við erum að fjalla um fjölmiðla á Íslandi finnst mér þeir standa sig býsna vel, eins og við höfum séð núna.“

Hún ætti hins vegar erfitt með að flokka þessa framgöngu á einhvern tiltekinn hátt. Margt fólk hafi skoðun á málinu og það hafi fengið tækifæri til þess að tjá sig um það sem sé til marks um hversu opið og lýðræðislegt samfélagið sé. „Það gerir það líka hér í þinginu. Ég tel að það sé eftirsóknarvert samfélag þar sem við getum farið yfir málin eins og við erum að gera hér,“ sagði Lilja.

Auðlindarenta notuð í „rógburðarherferð“

Málefni Samherja voru einnig til umræðu í næstu fyrirspurn. Olga Margrét Cilia, þingmaður Pírata, spurði Katrínu Jakobsdóttur hvort hún teldi eðlilegt að auðlindarenta sé notuð til þess í „rógburðarherferð“ gegn Helga Seljan.

Olga Margrét Cilia sagði Samherja standa í „rógburðarherferð“ gegn Helga Seljan. Mynd: Bára Huld Beck.

„Ætlar hæstvirtur forsætisráðherra að láta það óátalið að verið sé að nota auðlindarentu þjóðarinnar í rógburðarherferð og mannorðsmorð á fjölmiðlamanni sem gerði það sem fagstétt hans á einmitt að gera og benti á spillingu Samherja? Telur ráðherra framferði Samherja gagnvart Helga Seljan eðlileg afskipti af fjölmiðlaumfjöllun? Hvaða aðgerða ætlar hæstvirtur ráðherra að grípa til svo að unnt sé að koma í veg fyrir að slíkar árásir á fjölmiðlafólk muni eiga sér stað aftur?“ spurði Olga Cilia

Flókið að setja tjáningarfrelsinu skorður

Katrín sagði þrennt skipta máli í sambandi við spurningu Olgu. Fyrst Olga hafði nefnt auðlindarentu nefndi Katrín í fyrsta lagi nýtt auðlindaákvæði stjórnarskrár. „Það er auðvitað engin tilviljun að hagsmunaverðir stórútgerðarinnar hafi lagst gegn því auðlindaákvæði sem nú er til umfjöllunar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd,“ sagði Katrín og bætti því við að hún teldi það mikilvægt að Alþingi svari kalli þjóðarinnar um þessi mál.

Í öðru lagi nefndi Katrín frumvarp um aukinn stuðning við einkarekna fjölmiðla sem sé mikilvægt að verði að lögum að hennar mati. „Það skiptir mjög miklu máli fyrir fjölmiðlafrelsi á Íslandi að við styðjum betur við einkarekna fjölmiðla samhliða því að við styðjum við öflugt almannaútvarp.“

Í þriðja lagi sagði Katrín það flókið að setja tjáningarfrelsinu skorður og að samfélagið sé fært um að taka afstöðu til ummæla. „Ef stórfyrirtæki sem mikil ítök hafa í samfélaginu misbjóða samfélaginu með málflutningi sínum munu þau missa virðingu þess sama samfélags. Ég held að það sé mjög flókið að setja tjáningarfrelsinu skorður í þeim efnum. Við getum sett skýrar reglur um auðlindanotkunina og stutt betur við fjölmiðla til að sinna hlutverki sínu. En ég held líka að ef menn misbjóða samfélaginu með málflutningi sínum þá muni það hafa áhrif á stöðu þeirra í samfélaginu.“

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Upplýsingar um alla hluthafa og hversu mikið þeir eiga í skráðum félögum hafa legið fyrir á opinberum vettvangi undanfarið. Þetta telur Persónuvernd stríða gegn lögum.
Persónuvernd telur víðtæka birtingu hluthafalista fara gegn lögum
Vegna nýlegra lagabreytinga hefur verið hægt að nálgast heildarhluthafalista skráðra félaga í Kauphöllinni í samstæðureikningum á vef Skattsins. Persónuvernd telur þessa víðtæku birtingu fara gegn lögum.
Kjarninn 18. júní 2021
Flókið að fást við fólk sem lætur sannleikann ekki þvælast fyrir sér
Kerfið brást Helgu Björgu harðlega eftir að hún upplifði stöðugt áreiti borgarfulltrúa Miðflokksins í um tvö ár án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér. Málið hefur haft margvíslegar alvarlegar afleiðingar á andlega og líkamlega heilsu hennar.
Kjarninn 18. júní 2021
Horft frá Nauthólsvík yfir á Kársnes og að Hamraborg, þar sem Kópavogsbær stefnir á uppbyggingu þéttrar byggðar meðfram væntum borgarlínuleiðum.
Telur kjörnum fulltrúum skylt að rýna í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu
Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Kópavogi vill rýna betur í hugmyndir um ódýrari Borgarlínu, sem lagðar hafa verið fram að undanförnu, svo vilji sveitarstjórna sé skýr í málinu. Einnig viðrar hún sérstakar áhyggjur af rekstrarkostnaði.
Kjarninn 18. júní 2021
N1 er vinsælasti viðkomustaður þeirra sem hafa notað nýju ferðagjöf stjórnvalda.
Bensínstöðvar, baðlón og skyndibitastaðir vinsælust hjá notendum nýrrar ferðagjafar
Yfir 10 þúsund manns hafa nýtt nýja ferðagjöf stjórnvalda og um 50 milljónir króna verið greiddar út. Kunnugleg nöfn raða sér í efstu sæti þeirra fyrirtækja sem tekið hafa við mestu en baðlónið Sky Lagoon kemur nýtt inn á lista og tyllir sér í annað sæti.
Kjarninn 17. júní 2021
Guðjón Sigurðsson
Alþjóðlegur MND dagur 20. júní 2021
Kjarninn 17. júní 2021
Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri.
Fyrrverandi seðlabankastjóri fékk fálkaorðuna
Forseti Íslands sæmdi fjórtán manns fálkaorðunni á Bessastöðum í dag.
Kjarninn 17. júní 2021
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokksins.
Vilja endurvekja sjálfstæðisbaráttuna
„Eins og fyrri kynslóðum tókst að umbreyta íslensku samfélagi með sjálfstæðisbaráttu almennings þá mun okkur takast það einnig. Þeim tókst það og okkur mun líka takast það.“ Sósíalistaflokkurinn sendi frá sér tilkynningu í tilefni af 17. júní.
Kjarninn 17. júní 2021
Ólafur Ólafsson
Mannréttindadómstóll Evrópu vísar kæru Ólafs Ólafssonar frá
MDE hafnaði í morgun með afgerandi hætti að Rannsóknarnefnd Alþingis hefði brotið gegn rétti Ólafs Ólafssonar til réttlátar málsmeðferðar.
Kjarninn 17. júní 2021
Meira úr sama flokkiInnlent