Evrópska markaðsverðið fyrir eitt kíló af laxi nemur nú tæpum 1.600 íslenskum krónum og hefur það ekki verið hærra í að minnsta kosti fimm ár. Fiskurinn, sem kostaði undir þúsund krónur kílóið í byrjun árs, hefur hækkað um rúm 60 prósent í verði frá febrúarlokum. Þetta kemur fram í tölum frá evrópska fiskmarkaðnum Fishpool, sem nálgast má hér.
Hæg og stöðug hækkun fyrri árin
Samkvæmt tölunum hefur markaðsverðið á laxi hækkað nokkuð á síðustu árum, en þó með tiltölulega stöðugum hætti. Árið 2018 var það komið upp í tæpar 700 krónur kílóið, en ári seinna mældist það í rúmum 800 krónum.
Þróunina má sjá á mynd hér að neðan, sem er unnin út frá gögnum Fishpool og gengisskráningum Seðlabankans. Líkt og sést á henni nam kílóverðið um 900 krónum árið 2020, en var svo komið upp í um 940 krónur í byrjun árs 2021. Um síðustu áramót var laxinn svo orðinn átta prósentum dýrari og kostaði kílóið af honum rúmlega þúsund krónur.
Samhliða þessari verðhækkun högnuðust ýmis laxeldisfyrirtæki töluvert. Þeirra á meðal var Icelandic Salmon, móðurfélag Arnarlax á Vestfjörðum, en hagnaður fyrirtækisins jókst um tæpan helming á milli áranna 2020 og 2021, úr 407 milljónum í 563 milljónir íslenskra króna. Í fréttatilkynningu samhliða birtingu ársreiknings fyrr í vikunni sagði félagið aukninguna meðal annars vera tilkomna vegna hagstæðra markaðsaðstæðna fyrir laxaafurðir.
Sprenging eftir innrásina
Í byrjun þessa árs hélst kílóverðið á laxi á Fishpool nær óbreytt í nær tvo mánuði. Á síðustu dögum febrúarmánaðar, skömmu eftir innrásar Rússlands í Úkraínu, tók það svo að hækka hratt. Frá marsbyrjun hefur verðið svo að meðaltalið hækkað um sex prósent á viku og er það nú komið í um 1.600 krónur kílóið.
Björn Hembre, forstjóri Icelandic Seafood, sagðist ekki búast við að yfirstandandi verðhækkanir myndu halda lengi áfram. Líklegt væri að verðið myndi jafna sig og jafnvel lækka eitthvað þegar líður á árið.