Marie Le Pen, leiðtogi hægri flokksins Front National í Frakklandi, hefur sagt Zlatan Ibrahimovich að hann geti farið frá Frakklandi ef honum líki það ekki. Sænski knattspyrnukappinn, sem leikur með franska liðinu Paris Saint-Germain, hefur þurft að biðjast afsökunar á því að kalla Frakkland skítaland samhliða því að úthúða dómara eftir leik um helgina. Ummæli hans hafa ýtt af stað miklum pólitískum deilum í Frakklandi, samkvæmt frétt Guardian um málið.
Ibrahimovich mun mæta fyrir aganefnd á fimmtudag og þá kemur í ljós hversu langt bann hann fær fyrir atvikið.
Þeir sem telja Frakkland skítaland geta farið
Paris Saint-Germain tapaði 3-2 fyrir Bordeaux um helgina og Ibrahimovich missti algjörlega stjórn á skapi sínu fyrir framan myndavélarnar eftir leikinn. Hann helti sér yfir dómara leiksins og sagði að "skítalandið" Frakkland ætti ekki skilið lið eins og Paris Sain-Germain.
Marie Le Pen.
Le Pen var spurð út í atvikið í útvarpsviðtali í dag og sagði: "þeir sem telja að Frakkland sé skítaland geta farið. Það er það einfalt."
Ibrahimovic hefur beðist afsökunar og sagt að ummælin hafi beinst að dómara leiksins. Þau hafi ekki verið ætluð "Frakklandi eða Frökkum."
Leikmaðurinn skoraði tvívegis í leiknum en tapið þýðir að Paris Saint-Germain er tveimur stigum á eftir toppliðinu Lyon í frönsku deildarkeppninni.
Þetta var í annað sinn á skömmum tíma sem Ibrahimovich komst í fréttirnar vegna niðrandi ummæla en eftir meistardeildarleik við Chelsea í síðustu viku kallaði hann leikmenn andstæðinganna "lítil börn". Hann var rekinn út af í leiknum.