Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur lagt fram frumvarp þar sem lagt er til að tollur á innflutning á frönskum kartöflum verði afnumin með öllu.
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að franskar kartöflur beri sem stendur 76 prósent toll, sem er hæsti prósentutollur á matvöru í íslensku tollskránni. „Samkvæmt fríverslunarsamningum við Kanada og Evrópusambandið eru franskar kartöflur þaðan fluttar inn á lægri tolli, eða 46 prósent, og veldur því að neytendur greiða hærra verð fyrir vöruna sem því nemur. Hinn 24. ágúst sl. birtist frétt þess efnis að Þykkvabæjar ehf. hefði hætt framleiðslu á frönskum kartöflum. Þar með hefur framleiðslu á frönskum kartöflum á Íslandi verið hætt og standa því engin rök lengur til slíkrar tollverndar. Er því lagt til að innflutningstollur á franskar kartöflur verði afnuminn neytendum og fyrirtækjum til heilla.“
Köstuðu málinu á milli sín
Félag atvinnurekenda sendi Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra erindi 24. ágúst síðastliðinn og hvatti þau til að beita sér fyrir niðurfellingu tollsins, sem lagður er á innfluttar franskar kartöflur.
Þar sagði enn fremur að svar hafi borist frá ráðuneyti Svandísar tveimur dögum síðar. Í því kom fram að matvælaráðherra hefði ekki aðkomu að ákvörðun tolls fyrir umrædda vöru þar sem hún beri einungis verðtoll. Slíkur innflutningur heyri undir valdsvið fjármálaráðherra.
Í fréttum Stöðvar 2 föstudaginn 9. september sagði Bjarni Benediktsson hins vegar að málið væri ekki á sínu borði, heldur hjá Svandísi.