Björn Leví Gunnarsson þingmaður Pírata hefur lagt til breytingartillögu við fjárlögin á Alþingi, þar sem lagt er til að Lárus Blöndal og Jón Gunnar Jónsson, stjórnarformaður og forstjóri Bankasýslu ríkisins, bætist við á lista þeirra sem hljóta heiðurslaun listamanna.
Ætla má að Björn Leví vísi þarna til þess sem fram kom í skýrslu Ríkisendurskoðunar um söluna á hlut ríkisins í Íslandsbanka, en þar sagði að í úttektarvinnu stofnunarinnar hefði komið ítrekað fram af hálfu fulltrúa Bankasýslu ríkisins og fjármálaráðgjafa stofnunarinnar að úrvinnsla söluferlis eftir tilboðsfyrirkomulagi væri frekar í ætt við list en vísindi.
Ólíklegt má telja að tillaga Björns Levís hafi verið sett fram af mikilli alvöru, og ef til vill mætti telja hana til gjörningslistar, enda geta samkvæmt lögum þeir einir notið heiðurslauna „sem hafa varið starfsævi sinni eða verulegum hluta hennar til liststarfa eða skarað fram úr við listsköpun sína eða ef störf þeirra að listum hafa skilað miklum árangri á Íslandi eða á alþjóðavettvangi“.
Að auki er lagt til að þeir Lárus og Jón Gunnar bætist við sem 26. og 27. maður á lista, en lög kveða á um að einungis megi veita 25 manns að hámarki heiðurslaun listamanna á hverju ári.
Hildur, Kristín, Manfreð og Þórhildur bætast við
Fjögur ný bætast á listann á næsta ári, samkvæmt tillögu allsherjar- og menntamálanefndar, en á árunum 2021 og 2022 létust fjögur úr hópi þeirra listamanna sem nutu heiðurslauna, þau Jón Sigurbjörnsson og Vilborg Dagbjartsdóttir á árinu 2021 og Guðrún Helgadóttir og Þuríður Pálsdóttir árið 2022.
Allsherjar- og menntamálanefnd gerði tillögu um að þau Hildur Hákonardóttir, Kristín Þorkelsdóttir, Manfreð Vilhjálmsson og Þórhildur Þorleifsdóttir bættust á listann í ár.
Þau sem njóta munu heiðurslauna listamanna yrðu því eftirfarandi:
- Bubbi Morthens
- Erró
- Friðrik Þór Friðriksson
- Guðbergur Bergsson
- Guðrún Ásmundsdóttir
- Gunnar Þórðarson
- Hannes Pétursson
- Hildur Hákonardóttir
- Hreinn Friðfinnsson
- Jón Ásgeirsson
- Jón Nordal
- Jónas Ingimundarson
- Kristbjörg Kjeld
- Kristín Jóhannesdóttir
- Kristín Þorkelsdóttir
- Magnús Pálsson
- Manfreð Vilhjálmsson
- Matthías Johannessen
- Megas
- Steina Vasulka
- Vigdís Grímsdóttir
- Þorbjörg Höskuldsdóttir
- Þorgerður Ingólfsdóttir
- Þórhildur Þorleifsdóttir
- Þráinn Bertelsson