Vísitala neysluverðs, sem mælir verðbólgu í landinu, hækkaði um eitt prósent milli febrúar og mars og hefur ekki hækkað svo snarpt milli mánaða síðan í febrúar 2013. Greiningardeild Íslandsbanka bendir á að húsaleiga hafi verið sá liður sem hækkaði mest milli mánaða og endurspegli þróun íbúðaverðs. Íbúðaverð hefur hækkað um 4,2 prósent á síðustu þremur mánuðum. Það er nærri jafn mikil hækkun og níu mánuði á undan. „Húsnæðisliðurinn skýrir raunar stærstan hluta verðbólgunnar undanfarna 12 mánuði, enda mælist 0,1% verðhjöðnun á því tímabili ef miðað er við vísitölu neysluverðs án húsnæðis,“ segir í pósti greiningardeildarinnar.
Þessar hækkanir má tengja, að minnsta kosti að hluta, við „leiðréttinguna“ svokölluðu enda komu áhrif hennar á greiðslubyrði og veðrými lántakenda að langmestu leyti fram á þessu tímabili, segir greiningardeildin ennfremur.
„Undanfarna 12 mánuði hefur hækkunin reyndar verið tvöfalt meiri á fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu (tæp 12%), en á sérbýli á höfuðborgarsvæði sem og íbúðaverði á landsbyggð, sem hefur hækkað um tæp 6% á sama tíma,“ segir í markaðspunktum frá greiningardeildinni í dag um hækkun verðbólgunnar.
Verðbólga í landinu mælist nú 1,6 prósent en var 0,8 prósent í síðasta mánuði. Verðbólgan er mæld sem breyting á vísitölu neysluverðs síðustu tólf mánuði. Hagstofan birti í morgun upplýsingar um vísitölu neysluverðs í marsmánuði. Að mati greiningardeildar Íslandsbanka eru horfur á að verðbólgan verði áfram á sama róli næstu mánuði en muni líklega aukast jafnt og þétt á seinni helmingi árs.