Leigufélagið Bríet, sem er í eigu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) og sveitarfélaganna Fjarðabyggðar, Fjallabyggðar og Reykhólahrepps, ætlar að gefa leigjendum sínum 30 prósent afslátt af leigu í desembermánuði. Félagið, sem er óhagnaðardrifið og rekur 250 fasteignir í 34 sveitarfélögum allt í kringum landið, ætlar líka að lækka leiguverð til allra leigutaka varanlega um fjögur prósent frá komandi áramótum.
Í tilkynningu segir að leigutökum hafi verið greint frá þessu bréfleiðis í morgun og að þeir ættu að sjá lægri upphæðir en vanalega á greiðsluseðlum í heimabankanum sínum. „Með þessu tekur Bríet á sig um helming af hækkun vísitölu neysluverðs það sem af er árinu en leigusamningar eru almennt vísitölubundnir sem leiðir til aukins húsnæðiskostnaðar leigjenda við hraða hækkun verðlags. Leigufélagið taldi brýnt að bregðast við því erfiða efnahagslega ástandi og þeirri miklu verðbólgu sem nú ríkir og koma til móts við leigutaka sína sem verða fyrir áhrifum.“
Ákvörðun um að stofna Bríet var tekin í desember 2018. Félagið tók þá við flestum þeim fasteignum sem eru á hendi Íbúðalánasjóðs á þeim tíma, en honum var skömmu síðar skipt upp þannig að félagslegur hluti sjóðsins fór til HMS og skuldir hans urðu eftir í því sem kallast nú ÍL-sjóður.
Þegar tilkynnt var um stofnun félagsins var haft eftir Ásmundi Einari Daðasyni, sem þá fór með húsnæðismál í ríkisstjórn Íslands, stofnun þess vera viðbragð við erfiðri stöðu á húsnæðismarkaði sem birtist ekki síst í háu verði og skorti á leiguhúsnæði á landsbyggðinni. Hann taldi að hægt yrði að bæta gæði, auka framboð og draga úr kostnaði með því að sameinast um rekstur slíks húsnæðis í stærra félagi sem starfaði í þeim tilgangi einum og hefði ekki hagnað að leiðarljósi, umfram það sem þarf til að sinna viðhaldi og endurnýjun húsnæðisins.