Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,3 prósent á á milli febrúar á mars. Þrátt fyrir þessa hækkun hefur vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 3,3 prósent á milli ára. Vísitalan er nú svipuð og hún mældist vorið 2019. Þetta kemur fram í nýrri mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar (HMS) um húsnæðismarkaðinn.
Þróunin er öfug í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Þar lækkar vísitalan um 0,5 prósent á milli febrúar og mars en á milli ára hefur vísitalan hækkað um 1,1 prósent. Á landsbyggðinni hækkaði vísitala leiguverðs um 2,5 prósent milli mánaða og hefur hún hækkað um 2,4 prósent frá því í fyrra. Skýrsluhöfundar taka þó sérstaklega fram að vísitalan fyrir landsbyggðina hafi sveiflast mikið á síðustu misserum, enda sé svæðið í heild víðfeðmt og sundurleitt auk þess sem fáir samningar liggi að baki útreikningum hvers mánaðar.
Í skýrslunni kemur fram að hækkun leiguverðs frá byrjun árs 2014 hafi hlutfallslega hækkað nánast jafn mikið á landsbyggðinni líkt og á höfuðborgarsvæðinu. Hækkunin nemi 50,3 prósentum á landsbyggðinni á tímabilinu samanborið við 51,5 prósenta hækkun á höfuðborgarsvæðinu.
Leigufélag lækkar leigu í kjölfar endurfjármögnunar
Í dag tilkynnti Bjarg leigufélag að það hygðist lækka leigu hjá um 190 leigutökum félagsins. Munu meðalleigugreiðslur leigutaka lækka um 14 prósent, úr um 180 þúsund krónum í 155 þúsund. Þetta er gert í kjölfar nýlegrar endurfjármögnunar og endurskoðunar rekstrar fjölbýlishúsa Bjargs við Móaveg og Urðarbrunn í Reykjavík, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.
Þrátt fyrir að fasteignir félagsins á Akranesi og í Þorlákshöfn hafi einnig farið í gegnum endurfjármögnun hefur leiguverð þar ekki breyst vegna breytinga á öðrum rekstrarliðum. Félagið segir leiguverð þar engu að síður vera hófstillt og lægra en á höfuðborgarsvæðinu, rúmlega 120 þúsund krónur á mánuði.
Þrátt fyrir að Seðlabankinn hafi hækkað meginvexti sína í vikunni eru vextir enn lágir í sögulegu samhengi. Fyrir stýrivaxtahækkunina á miðvikudag stóðu meginvextir bankans í 0,75 prósentum og höfðu verið það síðan í nóvember síðastliðnum en þá höfðu þeir aldrei áður verið eins lágir. Stýrivextir standa nú í sléttu einu prósenti. Fyrir rétt um tveimur árum hófst lækkunarhrina stýrivaxta en í síðari hluta maí 2019 lækkuðu vextir úr 4,5 prósentum niður í fjögur prósent.
Í áðurnefndri tilkynningu Bjargs segir að félagið leiti allra leiða til að halda áfram endurfjármögnun eigna félagsins til að tryggja að leigutakar félagsins njóti þeirra vaxtalækkana sem hafa átt sér stað síðastliðin misseri.
Þinglýstum leigusamningum á höfuðborgarsvæðinu fjölgar ört
Í mars síðastliðnum var 629 leigusamningum þinglýst á höfuðborgarsvæðinu, samkvæmt áðurnefndri skýrslu HMS, og hefur þeim fjölgað verulega. Í skýrslunni segir að samningarnir hafi verið mun fleiri en í sama mánuði undanfarin ár. Til samanburðar var fjöldi þinglýstra leigusamninga í mars í fyrra 482 samkvæmt tölum Þjóðskrár. Á síðustu tólf mánuðum hefur fjöldinn hæst farið í 770, í september á síðasta ári.
Sömu sögu er ekki að segja á öðrum svæðum á landinu en þar var fjöldi þinglýstra leigusamninga nær því sem tíðkast hefur. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins var 127 leigusamningum þinglýst og á landsbyggðinni var 100 leigusamningum þinglýst. Leigumarkaðurinn er því mun líflegri um þessari mundir á höfuðborgarsvæðinu en utan þess að mati skýrsluhöfunda.