Nú stendur yfir umfangsmikil leit að farþegaþotu malasíska flugfélagsins Air Asia sem hvarf af ratsjá flugumferðarstjórnar í nótt. Um borð í vélinni voru 155 farþegar, 138 fullorðnir, 16 börn og eitt ungabarn auk sjö manna áhafnar. Því er óttast um afdrif 162 einstaklinga sem voru í flugvélinni. Flestir stærstu fréttamiðlar heims segja frá málinu.
Flugvélin, með flugnúmerið QZ8501, tók á loft frá alþjóðaflugvellinum Juanda í Surabaya í Indónesíu, klukkan 05:35 á staðartíma, áleiðis til Singapúr. Tæpum tveimur klukkustundum síðar rofnaði samband við flugvélina, sem hafði áður breytt um flugleið sökum slæmra veðurskilyrða. Flugvélin var í 32.000 feta hæð þegar sambandið við hana rofnaði.
Á meðal 162 farþega vélarinnar voru 156 frá Indónesíu, þrír frá Suður-Kóreu, einn Frakki, einn frá Malasíu og einn frá Singapúr. Flugstjóri vélarinnar var með yfir 6.100 flugtíma og flugmaðurinn 2.275. Flugvélin var af gerðinni A320-200 og fór síðast í viðhald 16. nóvember.
Björgunar- og leitaraðgerðum er stjórnað af flugmálayfirvöldum í Indónesíu (CAA). Flugfélagið Air Asia hefur opnað sérstakt neyðarnúmer fyrir ættingja og vini þeirra sem voru í flugvélinni.
Sky fréttastofan segir frá helstu þekktu staðreyndunum varðandi flug QZ8501.
Ef að líkum lætur er þetta þriðja mannskæða flugslysið hjá malasískum flugfélögum á árinu. Eins og kunnugt er fórust tvær farþegaflugvélar Malaysian Airlines með stuttu milli á árinu. Sú fyrri, með 239 farþega innanborðs, hvarf sporlaust á flugi milli Kuala Lumpur og Peking í mars, og sú síðari var skotin niður yfir Úkraínu þann 17. júlí síðastliðinn þar sem 298 farþegar fórust.