Skipulagsnefnd Mosfellsbæjar gerir „alvarlegar athugasemdir við framgöngu og röksemdarfærslu“ fyrirtækisins Iceland Resources ehf. í samskiptum sínum við sveitarfélagið. Fyrirtækið hefur hafið rannsóknarboranir í þeim tilgangi að leita að gulli í Þormóðsdal án þess að framkvæmdaleyfi hafi verið útgefið af sveitarfélaginu. Aðilar hafa deilt allan ágústmánuð um málið. Mosfellsbær hefur ítrekað óskað eftir frekari gögnum til að taka afstöðu til þess hvort að gefið verði út framkvæmdaleyfi en fyrirtækið hefur sagt að slíks leyfis sé ekki þörf yfir höfuð. Fyrir liggi rannsóknarleyfi frá Orkustofnun sem og starfsleyfi frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis.
En þetta er ekki nóg segir bærinn og bendir á að samkvæmt reglugerð um framkvæmdaleyfi sé það hlutverk leyfisveitanda að meta hvort þörf sé á slíku leyfi eða ekki, þ.e. hvort framkvæmd sé meiriháttar eða óveruleg.
Skipulagsnefnd, sem fjallaði um málið á fundi sínum fyrir helgi, þar sem samskipti bæjarins við fyrirtækið voru lögð fram, metur að upplýsingar þær sem fram komu í bréfi Iceland Resources ehf. til Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis í byrjun júní séu ekki þess eðlis að hægt sé að meta áhrif framkvæmda á umhverfið. Því hafi verið óskað eftir frekari gögnum.
„Í samræmi við yfirlitsmynd, sem barst 13.08.2021, er ljóst að um mikinn fjölda borhola er að ræða og ekki hefur því verið lýst hvernig farið verður með tæki á milli staða svo ekki verði sjáanlegt rask á landi þar sem aðgengi er ekki til staðar.“
Skipulagsnefndin áréttar svo að hvorki samkvæmt aðalskipulagi Mosfellsbæjar né öðrum samþykktum áætlunum séu áform um framkvæmdir á svæðinu, „hvort sem um er að ræða byggingar, vegagerð eða námuvinnslu af neinu tagi“.
Gerir nefndin þá kröfu til Iceland Resources ehf. að samantekt á upplýsingum og gögnum sem lýsa verkinu frekar berist henni sem erindi til umfjöllunar.
Samskiptin rakin
„Tilkynning um rannsóknarboranir í Þormóðsdal“ var yfirskrift bréfs sem Þórdís Björk Sigurbjörnsdóttir, framkvæmdastjóri Iceland Resources, sendi heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis 10. júní. Í því er nefndinni tilkynnt um „fyrirhugaðar rannsóknarboranir“ á svæðinu og sagt að þær séu í samræmi við rannsóknarleyfi Orkustofnunar.
Það rannsóknarleyfi var útgefið á fyrirtækið Melmi ehf. árið 2004 því þetta er ekki í fyrsta sinn sem áhugi vaknar á gullleit í Þormóðsdal. Hann má reyndar rekja allt til ársins 1905 er tilraunaboranir í sama tilgangi voru þar gerðar. Leyfið sem Melmi fékk var gefið út til leitar og rannsókna á málmum og síðar framlengt af til ársins 2023. Þetta rannsóknarleyfi hefur fyrirtækið Iceland Resources nú yfirtekið.
Þórdís fór í bréfi sínu stuttlega yfir hina áformuðu framkvæmd og skrifaði að rannsóknirnar myndu „engin áhrif“ hafa á umhverfið eða breyta ásýnd svæðisins sem krefðist aðkomu Skipulagsstofnunar. Þá sagði að framkvæmdirnar myndu hefjast 15. júlí. „Þetta tilkynnist hér með,“ skrifaði Þórdís og sagðist veita nánari upplýsingar, væri þess óskað.
Þann 9. ágúst óskaði Mosfellsbær eftir „fullnægjandi gögnum um fyrirhugaðar rannsóknarboranir“. Þar kom fram að bænum þætti „þónokkrum spurningum“ ósvarað til að hægt væri að skera úr um hvort að framkvæmdin þarfnaðist framkvæmdaleyfis.
Í svarbréfi fyrirtækisins nokkrum dögum síðar fylgdi m.a. fyrrnefnt bréf til heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis, sem einnig hafði degi síðar verið sent Mosfellsbæ. „Að mati félagsins voru umræddar vísindarannsóknir ekki leyfisskyldar,“ stóð þar m.a. og að haft hefði verið samráð við landeigendur um umgengni. Þó hafi þótt rétt að „upplýsa viðkomandi sveitarfélag, Mosfellsbæ“ um hinar fyrirhuguðu rannsóknir.
Þann 4. ágúst gaf Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis út tímabundið starfsleyfi til gullleitar með „léttum beltabor“ í Þormóðsdal. En ekkert framkvæmdaleyfi var þó í höfn og er ekki enn.
Kröfðust þess að framkvæmdir yrðu stöðvaðar
Fulltrúar bæjaryfirvalda áttu fund með fulltrúum fyrirtækisins 19. ágúst og ítrekuðu að vegna þess að formlegt erindi, þar sem áformum fyrirtækisins væri lýst með ítarlegrum hætti, hefði aldrei borist umsókn um framkvæmdaleyfi. Þau gögn sem lögð hefðu verið fram væru ekki fullnægjandi til að sveitarfélagið gæti tekið afstöðu.
Á þessum sama fundi kom jafnframt fram að fyrirtækið hefði þegar hafið framkvæmdir og að bærinn gerði „verulegar athugasemdir við slíkt“, líkt og rakið er í ítarlegu bréfi Jóhönnu B. Hansen, framkvæmdastjóra umhverfissviðs Mosfellsbæjar, til Iceland Resources sama dag og fundurinn var haldinn. Á fundinum var svo gerð sú krafa að allar framkvæmdir yrðu stöðvaðar tafarlaust.
Í bréfi frá lögmanni Iceland Resources ehf. þann 26. ágúst til bæjarstjóra segir að fyrirtækið hafi verið í „góðri trú“ um að rannsóknirnar væru ekki framkvæmdaleyfisskyldar og var í því sambandi m.a. vísað til símtals við skipulagsfulltrúa 24. júní „þar sem tekið var fram, án athugasemda, að félagið liti svo á“ að slíkt leyfi þyrfti ekki fyrir rannsóknunum. Þá var á það bent að rannsóknirnar væru í samræmi við rannsóknarleyfi Orkustofnunar.
Fleira átti svo eftir að gerast áður en ágústmánuður var úti. Þann 30. ágúst sendi Árni Jón Sigfússon, byggingafulltrúi Mosfellsbæjar, Theodóru Ragnarsdóttur, rekstrarstjóra Landbúnaðarháskóla Íslands tölvupóst, en háskólinn er eigandi jarðarinnar Þormóðsdals.
„Sæl Theodóra,
eins og fram kom í símtali okkar fyrr í dag óskar embætti byggingarfulltrúa Mosfellsbæjar eftir upplýsingum um gáma sem komið hefur verið fyrir í Þormóðsdal, landeignarnúmer L123813, á svæði sem merkt er með rauðum hring á loftmynd hér að neðan. Gott væri að fá upplýsingar um á hvers vegum gámarnir eru og hvort þeim hefur verið komið fyrir með vitund og samþykki landeiganda og í hvaða tilgangi.
Bent skal á grein 2.6.1 í byggingarreglugerð nr. 112/2012 sem fjallar um stöðuleyfi. Þar er m.a. kveðið á um að sækja þurfi um stöðuleyfi ef gámar standa lengur en tvo mánuði utan þeirra svæða sem sérstaklega eru skipulögð og ætluð til geymslu slíkra lausafjármuna.
Með kveðju,
Árni Jón Sigfússon
Byggingafulltrúi.“
Theodóra svarar samdægurs:
„Sæll Árni
Við vitum ekki á hvers vegum þessir gámar eru og höfum ekki fengið neinar beiðnir um heimild fyrir þeim.
Bestu kveðjur,
Theodóra“