Búið er að gera húsleit á heimilum flugmannsins Andreas Lubitz, sem er sagður hafa brotlent Germanwings-þotu viljandi í frönsku ölpunum fyrr í vikunni. Þýska blaðið Der Spiegel greinir frá því að fundist hafi miklar vísbendingar um að hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða.
Lubitz hafði íbúð til umráða í Dusseldorf og hafði einnig aðsetur í húsi foreldra sinna í Montabaur, um 100 kílómetra norður af Frankfurt. Þýskir fjölmiðlar greina frá því að leitað hafi verið á báðum stöðum seint í gærkvöldi og margir hlutir fjarlægðir, til að mynda tölva. Talskona lögreglunnar í Dusseldorf hefur borið til baka fréttir af því að miklar eða mikilvægar vísbendingar hafi fundist. Lögreglan hyggst halda blaðamannafund klukkan 11.
Fréttasíðan Bild vitnar í læknaskýrslur og segir að Lubitz hafi átt við mikið þunglyndi að stríða, og það hafi verið af þeim sökum sem hann tók langt hlé frá námi á meðan á þjálfun hans hjá Lufthansa stóð. Þar segir einnig að hann hafi enn verið í meðferð við þunglyndi. Ekkert af þessu hefur þó verið staðfest opinberlega.
Bild segir einnig að flugstjórinn, sem var læstur úti úr flugstjórnarklefanum eftir að hafa farið fram á klósettið, hafi reynt að brjóta niður dyrnar að klefanum með exi. Það megi ráða af upptökum úr flugrita vélarinnar.
Hinn flugritinn er enn ófundinn, en hylki utan af honum fannst í fyrradag.