Mál Ríkissaksóknara á hendur Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, fyrir meinta aðild hans að lekamálinu svokallaða, verður þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Gísli Freyr er ákærður fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi, með því að hafa látið óviðkomandi í té minnisblað er varðaði hælisleitandann Tony Omos.
Í ákæru málsins segir að minnisblaðið hafi verið unnið af starfsmönnum innanríkisráðuneytisins til upplýsingar fyrir innanríkisráðherra, í tilefni af boðuðum mótmælum við innanríkisráðuneytið 20. nóvember síðastliðinn, vegna brottvísunar Tony Omos.
Í minnisblaðinu var að finna viðkvæmar persónuupplýsingar og upplýsingar um einkamálefni þriggja einstaklinga, en þar var því meðal annars haldið fram að Tony Omos hefði stöðu grunaðs manns í tveimur umfangsmiklum sakamálum, að í hælismáli Evelyn Glory Joseph sem ætti von á barni, hugsanlega með Tony Omos, sé því borið við að hún sé mansalsfórnarlamb og að Tony Omos sé í sambandi við íslenska stúlku sem var nafngreind í minnisblaðinu. Þá segir í ákærunni að upplýsingarnar hafi verið til þess fallnar að hafa áhrif á umfjöllun um málefni Tony Omos sem hælisleitenda.
Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra leysti Gísla Frey frá störfum 15. ágúst síðastliðinn þegar ljóst varð að hann yrði ákærður vega lekamálsins, en hann hefur alfarið neitað sök í málinu.