Niðurstaða frumkvæðisathugunar Umboðsmanns Alþingis, um samskipti Hönnu Birnu Kristjánsdóttur þáverandi innanríkisráðherra og Stefáns Eiríkssonar þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, verður ekki birt í dag. Þetta kemur fram í svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans.
Upphaflega hugðist umboðsmaður birta niðurstöðu sina í síðustu viku, en í tilkynningu frá embættinu þann 19. nóvember síðastliðinn, kemur fram að umboðsmanni hafi borist ábending um tiltekið atriði í tengslum við athugunina sem nú sé verið að kanna. Þá er tekið sérstaklega fram í tilkynningunni að þar sé ekki um að ræða samskipti Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, og Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum, sem hafi verið til umfjöllunar í fjölmiðlum.
Í tilkynningunni, frá 19. nóvember, segir ennfremur að af þessum sökum hafi ekki verið unnt að birta niðurstöðurnar á tilsettum tíma, en þess sé vænst að athugun á ábendingum ljúki á næstu dögum. Þá sagðist Umboðsmaður Alþingis vonast til þess að unnt verði að birta niðurstöður frumkvæðisathugunarinnar í þessari viku. Nú er ljóst að frekari dráttur verður á birtingu niðurstöðunnar, að því er fram kemur í áðurgreindu svari embættisins við fyrirspurn Kjarnans.
Framhaldsfyrirspurn Kjarnans til Umboðsmanns Alþingis, um hvenær sé von á niðurstöðu hans í málinu, hafði ekki verið svarað við vinnslu þessarar fréttar.