Stjórn Samtakanna ‘78 kynnti á fimmtudag mat sitt á stefnu flokkanna með tilliti til málefna hinsegin fólks, en um var að ræða huglægt mat stjórnarinnar á þeim stefnum sem flokkarnir hafa birt opinberlega, kosningastefnur og aðrar ályktanir.
Flokkarnir komu afar misjafnlega út úr því mati. Samfylkingin, Píratar, Vinstri græn, Viðreisn og Sósíalistaflokkurinn skoruðu á bilinu 77-55 prósent á kvarðanum, sem náði upp í 100, á meðan að Flokkur fólksins, Framsóknarflokkurins og Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn fengu allir 0 prósent, Miðflokkurinn 3 prósent og Sjálfstæðisflokkurinn 18 prósent.
Kjarninn heyrði í Þorbjörgu Þorvaldsdóttur, formanni Samtakanna ‘78 til þess að fá útskýringar á aðferðafræðinni að baki matinu og hvernig ætti að túlka niðurstöðurnar.
Þorbjörg segir að tilgangur matsins hafi fyrst og fremst verið að rýna í það hvort flokkarnir væru með sértækar stefnur í málefnum hinsegin fólks. Hún segir að um huglægt mat stjórnarinnar hafi verið að ræða og farið hafi verið yfir stefnur hvers einasta flokks með 23 áhersluatriði í huga. Flokkarnir fengu síðan 0-5 stig fyrir hvert áhersluatriði.
Almennar mannréttindastefnur fengu 0 stig
Hún segir að stjórnin hafi reynt eftir fremsta megni að gæta samræmis á milli þess hvernig flokkarnir voru metnir eftir framlögðum stefnum sínum. Formaðurinn leggur áherslu á að léleg einkunn, jafnvel 0 prósent, þýði síður en svo að flokkarnir séu einhverjir hómófóbar eða standi gegn réttindum hinsegin fólks. Þvert á móti þýði 0 stig í matinu einfaldlega að ekki sé sérstaklega minnst á hinsegin fólk í stefnu flokks.
Almennt orðaðar stefnur um mannréttindi allra fengu þannig engin stig í mati Samtakanna ‘78, heldur einungis þau áhersluatriði í stefnum flokkanna sem töluðu um málefni hinsegin fólks með sértækum hætti.
Leyfðu flokkunum að gera athugasemdir
Þorbjörg segir að stjórn samtakanna hafi sent öllum flokkunum niðurstöðu matsins um síðustu helgi og leyft þeim að koma með athugasemdir og ábendingar, ef stjórninni hefði yfirsést eitthvað í stefnunum sem taka ætti tillit til.
„Við fengum athugasemdir sem við tókum tillit til og einnig einhverjar sem við tókum ekki til greina,“ segir Þorbjörg og vísar á ný til þess að engin stig hafi verið gefin fyrir að fjalla um mannréttindamál með almennum hætti.
Þverpólitísk sátt um stuðning við réttindabaráttu
Auk þess að greina stefnu flokkanna sendi stjórn samtakanna spurningar á hvern og einn flokk um afstöðu til baráttumála hinsegin fólks. Þorbjörg segist ánægð með þau svör sem þaðan bárust, enda hafi þau sýnt að allir flokkar segist styðja réttindabaráttu hinsegin fólks.
„Mér finnst rosalega mikilvægt að það sé þverpólitísk sátt um þessi málefni á Íslandi,“ segir Þorbjörg.
„Þung mál“ sem brenna á fólki
Samhliða kynningu kosningakvarðans stóðu Samtökin '78 á fimmtudagskvöld fyrir opnum pallborðsumræðum með fulltrúum þeirra flokka sem bjóða fram á landsvísu.
Þorbjörg segir að fundurinn hafi verið gagnlegur og þar hafi verið settar fram „erfiðar spurningar“ um „þung mál sem brenna á hópum innan okkar samfélags, um heilbrigðisþjónustu og hatursglæpi og aðbúnað hinsegin hælisleitenda.“
Hægt er að horfa á streymi frá fundinum í heild sinni hér