Lestur Fréttablaðsins hélt áfram að dala í síðasta mánuði, líkt og hann hefur gert hratt síðustu ár. Frá október 2002 og fram í desember 2015 mældist lestur Fréttablaðsins alltaf yfir 50 prósent. Í apríl 2007 mældist hann til að mynda 65,2 prósent.
Í ágúst 2018 fór lestur blaðsins, sem er frídreift í 80 þúsund eintökum á öll heimili á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri fimm daga vikunnar, niður fyrir 40 prósent í fyrsta sinn síðan árið 2001. Hann mælist nú 30,7 prósent og miðað við þá þróun sem átt hefur sér stað á þessu ári, þar sem lesturinn hefur dregist saman um 3,1 prósentustig, þá er sennilegt að lestur blaðsins fari undir 30 prósent fyrir lok árs 2021. Frá byrjun árs 2018 hefur lestur Fréttablaðsins aukist á milli mánaða í fimm skipti en dalað 39 sinnum.
Í aldurshópnum 18 til 49 ára mælist lesturinn nú 21,5 prósent og hefur dregist saman um tæp 22 prósent frá byrjun árs í fyrra. Lestur Fréttablaðsins hjá aldurshópnum er nú um þriðjungur þess sem hann var fyrir tólf árum.
Þetta mál lesa út úr nýbirtum tölum Gallup um lestur dagblaða á Íslandi.
Vert er að taka fram að útgáfudögum Fréttablaðsins var fækkað úr sex í fimm á viku í fyrra þegar mánudagsútgáfu þess var hætt. Útgáfufélag Fréttablaðsins, Torg ehf., hefur ekki skilað ársreikningi vegna síðasta árs en félagið tapaði 212 milljónum króna árið 2019, eftir að búið var að reikna með 50 milljóna króna styrk út ríkissjóði til einkarekinna fjölmiðla. Þeir styrkir voru aldrei greiddir út, enda frumvarp um þá ekki samþykkt. Hins vegar voru greiddar út sérstakir neyðarstyrkir vegna kórónuveirufaraldursins sem á endanum skiluðu Torgi 64 milljónum króna. Í Fréttablaðinu í gær var greint frá því að tap Torgs á árinu 2020 hafi verið nálægt 600 milljónum króna. Því hefur félagið tapað um 800 milljónum króna á tveimur árum.
Torg, sem rekur líka DV, Hringbraut og tengda miðla, fékk úthlutað rúmlega 81 milljón króna styrk úr ríkissjóði í síðasta mánuði þegar rekstrarstyrkjum til einkarekinna fjölmiðla var úthlutað.
Hrun í lestri og rekstri
Morgunblaðið, stærsta áskriftarblað landsins, mælist nú með 18,6 prósent lestur hjá öllum landsmönnum í Prentmiðlakönnun Gallup og hefur aldrei verið minni. Lesturinn hefur dregist saman um rúmlega fimmtung frá byrjun árs 2020 og um 56 prósent frá því að nýir eigendur tóku við útgáfu blaðsins snemma árs 2009.
Þessi þróun, hríðminnkandi lestur, hefur átt sér stað þrátt fyrir að Morgunblaðið hafi síðastliðin ár verið fríblað á fimmtudögum, en blaðið kemur út sex sinnum í viku. Í því felst að blað er í aldreifingu þá daga og fer inn á heimili tugþúsunda sem eru ekki áskrifendur.
Rekstrartap útgáfufélags Morgunblaðsins og tengdra miðla, Árvakurs, var 210,3 milljónir króna í fyrra, Það var aðeins minna rekstrartap en árið áður þegar útgáfufélagið tapaði 245,3 milljónum króna. Samanlagt endanlegt tap félagsins frá 2009 er yfir 2,5 milljörðum króna.
Rekstrarstyrkurinn sem Árvakur fékk úr ríkissjóði í fyrra nam alls 99,9 milljónum króna. Því má ætla að rekstrartapið hafi verið yfir 300 milljónir króna ef ekki hefði verið fyrir rekstrarstyrkinn.
Árvakur fékk svo úthlutað rúmlega 81 milljón króna styrk úr ríkissjóði í september þegar rekstrarstyrkjum til einkarekinna fjölmiðla var úthlutað á ný.
Stundin komin aftur í mælingar
Stundin kom aftur inn í mælingar Gallup í september síðastliðnum eftir nokkuð langa fjarveru og mældist með alls 8,3 prósent heildarlestur. Síðast þegar lestur á prentútgáfu Stundarinnar var mældur, í desember 2019, reyndist hann 10,4 prósent. Blaðið er eini prentmiðillinn í mælingu sem er útgefinn sjaldnar en vikulega.
Stundin kemur út í prentútgáfu á tveggja til fjögurra vikna fresti. Útgáfutíðnin er breytileg eftir árstíma. Þannig liðu tvær vikur á milli þeirra blaða Stundarinnar sem komið hafa út í september og október en fjórar vikur milli blaðsins sem kom út 23. apríl og þess sem kom út 21. maí. Sömu sögu er að segja á milli þess síðarnefnda og blaðsins sem kom út 18. júní. Það sem af er árinu 2021 hafa komið út 14 eintök af prentútgáfu Stundarinnar.
Lestur Stundarinnar hjá landsmönnum í aldurshópnum 18-49 ára er 7,1 prósent en hann var 9,6 prósent í desember 2019, þegar lesturinn var síðast mældur.
Stundin fékk 17,8 milljónir króna í sérstakan rekstrarstyrk úr ríkissjóði vegna COVID-19 sem greiddur var til einkarekinna fjölmiðla á síðasta ári. Án hans hefði tap félagsins numið 10,6 milljónum króna.
Þegar styrkjum var úthlutað á ný í síðasta mánuði fékk Stundin 25,3 milljónir króna.
Mikið tap Viðskiptablaðsins
Gallup mælir líka lestur Viðskiptablaðsins, sem kemur út alla fimmtudaga og er selt í áskrift. Alls lásu 5,3 prósent aðspurðra það blað í síðasta mánuði og 6,2 prósent allra fullorðinna undir fimmtugu. Heildarlesturinn hefur dregist saman um þriðjung frá byrjun síðasta árs þrátt fyrir að lestur hjá lesendum undir fimmtugu sé nánast sá sami.
Afkoma útgáfufélags Viðskiptablaðsins, Fiskifrétta og tengdra miðla, Myllusetur ehf., í fyrra var neikvæð um 55,2 milljónir króna að tekju tilliti til fjármagnsliða og vaxtagjalda. Árið á undan, 2019, var afkoma Mylluseturs 1,6 milljónir króna. Uppgefið tap var hins vegar 35,6 milljónir króna.
Sennilegast er að munurinn á uppgefnu tapi og afkomu skýrist á því að Myllusetur fékk um 20 milljónir króna í rekstrarstuðning úr ríkissjóði á síðasta ári.
Þegar úthlutunarnefnd um úthlutun rekstrarstuðnings til einkarekinna fjölmiðla tilkynnti um niðurstöðu sína vegna styrja sem greiddir voru út 2021 í síðasta mánuði kom fram að Myllusetur fengi 26,8 milljónir króna í sinn hlut.
Árvakur skuldar Landsprenti tæplega hálfan milljarð
Stundin greindi frá því í lok síðasta mánaðar að 40 prósent verðhækkun eða meiri væri yfirvofandi á dagblaðapappír og vitnaði þar í tilkynningu sem Landsprent, prentsmiðju í eigu Árvakurs, hafði sent viðskiptavinum sínum en Landsprent prentar meðal annars Stundina. Auk þess kom fram að prentun yrði skömmtuð vegna pappírsskorts sem á rætur sínar að rekja til afangaskorts vegna kórónuveirufaraldursins.
Ljóst má vera að þessi viðbótarkostnaður mun leggjast hart á þá prentmiðla sem prenta stór upplög af blöðum í viku hverri, þ.e. útgáfufélög Fréttablaðsins og Morgunblaðsins.
Samkvæmt ársreikningum Landsprents, sem hagnaðist samtals um 305,1 milljónir króna á árunum 2019 og 2020, voru kröfur á tengd félög 497,4 milljónir króna um síðustu áramót. Þorri þeirrar upphæðar var skuld Árvakurs við dótturfélag sitt vegna prentkostnaðar sem ekki hafði verið greiddur, eða 477 milljónir króna. Kröfur Landsprents á tengda aðila hækkuðu um 293,4 milljónir króna frá byrjun árs 2019 og fram að síðustu áramótum eða sem nemur 96 prósent af hagnaði fyrirtækisins.
Kjarninn er á meðal þeirra fjölmiðla sem þiggja rekstrarstyrki úr ríkissjóði og fékk 14,4 milljónir króna við síðustu úthlutun. Þau fyrirtæki sem hér eru til umfjöllunar eru samkeppnisaðilar Kjarnans.