Lestur tveggja stærstu dagblaða landsins hefur haldið áfram að dala það sem af er ári, sérstaklega hjá yngri hluta landsmanna. Samkvæmt nýbirtum tölum Gallup um lestur á prentmiðlum lásu 22,4 prósent landsmanna í aldurshópnum 18-49 ára Fréttablaðið í júlímánuði og 9,4 prósent Morgunblaðið.
Morgunblaðið fór undir tíu prósent lestur hjá þessum hópi í vor, en árið 2009 las um þriðjungur landsmanna undir fimmtugu það blað.
Lestur Fréttablaðsins hjá þessum aldurshópi var 65 prósent í byrjun árs 2009 en er nú um þriðjungur þess hlutfalls.
Heildarlestur á bæði blöð hefur aldrei verið minni en hann var í júlí. Þá sögðust 31,3 prósent lesa Fréttablaðið en árið 2010 lásu 64 prósent landsmanna fríblaðið. Heildarlestur blaðsins hefur því helmingast á rúmum áratug.
Morgunblaðið fór undir 20 prósenta múrinn í heildarlestri fyrr á þessu ári og nú mælist lestur blaðsins 19,3 prósent. Hann hefur rúmlega helmingast frá 2009, þegar núverandi eigendahópur tók við og Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen voru ráðnir ritstjórar, en þá lásu um 40 prósent landsmanna prentútgáfu Morgunblaðsins.
Mikill taprekstur
Þessi þróun, hríðminnkandi lestur, hefur átt sér stað þrátt fyrir að Morgunblaðið hafi síðastliðin ár verið fríblað á fimmtudögum. Í því felst að blað er í aldreifingu þá daga og fer inn á heimili tugþúsunda sem eru ekki áskrifendur. Almenn áskrift að Morgunblaðinu kostar í dag 7.982 krónur á mánuði, eða 95.784 krónur á ári.
Kjarninn greindi frá því í liðinni viku að tekjur Árvakurs í fyrra hefðu dregist saman um rúm fjögur prósent og starfsfólki hefði verið fækkað um næstum 14 prósent. Laun og þóknanir til stjórnenda hækkuðu hins vegar um næstum fimm prósent.
Rekstrartap Árvakurs í fyrra var 210 milljónir króna. Þá var búið að taka tillit til 99,9 milljón króna rekstrarstyrk sem Árvakur fékk úr ríkissjóði vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Endanlegt tap Árvakurs var hins vegar 75 milljónir króna. Hlutdeild í afkomu dóttur- og hlutdeildarfélaga, sem tengist ekki grunnrekstri Árvakurs, útskýrir þann mun sem er á endanlegri afkomu og rekstrarafkomu, en hún er jákvæð um 160 milljónir króna.
Fækkuðu útgáfudögum í fyrra
Fréttablaðið er enn fríblað sem dreift er í 85 þúsund eintökum án endurgjalds á heimili á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri fimm daga vikunnar. Útgáfudögum þess var þó fækkað úr sex í fimm á síðasta ári.
Heildarlestur Fréttablaðsins fór undir 60 prósent í apríl 2012, undir 50 prósent í nóvember 2015 og undir 40 prósent í ágúst 2018. Hann er nú, líkt og áður sagði, 31,3 prósent.
Fréttablaðið er í eigu Torgs sem rekur einnig miðla á borð við Hringbraut og DV. Helgi Magnússon athafnamaður keypti Torg árið 2019. Opinber gögn gefa til kynna að kostnaður við þau kaup hafi verið um 600 milljónir króna. Félag Helga hefur síðar lagt rekstrinum til 600 milljónir króna í nýtt hlutafé.
Tap Torgs á árinu 2019 var 212 milljónir króna. Torg hefur ekki skilað ársreikningi vegna ársins 2020 til ársreikningaskrár.
Ritstjóraskipti urðu nýverið á Fréttablaðinu þegar Sigmundur Ernir Rúnarsson tók við stjórnartaumunum af Jóni Þórissyni.
Reka vel sótta vefi
Vert er að taka fram að þeir prentmiðlar sem nefndir eru í þessari umfjöllun reka fréttavefsíður. Síða Morgunblaðsins, mbl.is, er nú, og hefur oftast verið, mest lesna vefsíða landsins, þótt helsti samkeppnisaðili hennar, Vísir, hafi oftar verið í fyrsta sæti á þeim lista á þessu ári.
Vefsvæði DV, dv.is og tengdir vefir, er þriðja mest lesna vefsvæði landsins og vefsvæði Fréttablaðsins, sem inniheldur líka vef Hringbrautar, er það fimmta mest lesna samkvæmt lista Gallup en vert er að taka fram að einungis tólf vefsvæði taka þátt í vefmælingum fyrirtækisins. Á meðal fjölmiðla sem gera það ekki eru Kjarninn og Stundin.