Samkvæmt upplýsingum frá bandarískum hermálayfirvöldum hafa 1.417 almennir borgarar látið lífið í loftárásum gegn íslamska ríkinu (ISIS) í Sýrlandi og Írak frá 2014 og frá 2018 hafa 188 almennir borgarar látið lífið í árásum í Afganistan. Rannsókn blaðamanna NY Times sýnir hins vegar fram á að dauðsföllin séu mun fleiri og að stjórnvöld hafi vanmetið tölu látinna í árásum ítrekað. Leynilegu gögnin frá Pentagon, varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, sem blaðamenn NY Times fóru yfir skipta þúsundum og við rannsóknarvinnuna heimsóttu þeir einnig yfir hundrað skotmörk drónaárása.
Dæmi um árás þar sem fjöldi dauðsfalla var vanmetinn var til að mynda í árás á Tokhar í Sýrlandi. Rétt fyrir klukkan 3, aðfaranótt 19 júlí 2016, réðst bandaríski herinn á þrjár bækistöðvar ISIS í útjaðri smáþorpsins Tokhar. 85 liðsmenn samtakanna létust, að sögn bandaríska hersins, en 24 almennir borgarar. Leyniskjölin frá Pentagon sýna hins vegar fram á að yfir 120 almennir borgarar féllu í árásinni. Í skjölunum kemur einnig fram að skotmörk árásarinnar voru hús þar sem fjölskyldur höfðu leitað skjóls.
Fjölskylda talin bílsprengja og „óþekktur þungur hlutur“ reyndist vera barn
Dæmin eru fjölmörg. Snemma árs 2017 skaut bandarísk herflugvél á dökklitaðan bíl í Wadi Hajar-hverfinu í vesturhluta Mósúl í Írak þar sem talið var að um bílsprengju var að ræða. Engin sprengja reyndist hins vegar í bílnum heldur fjölskylda. Majid Mahmoud Ahmed sat við stýrið og með honum í bílnum voru eiginkona hans og tvö börn, en þau voru að flýja átök í nágrenninu. Þau létu öll lífið í árásinni, auk þriggja annarra almennra borgara.
Í nóvember 2015 veitti bandaríski herinn manni eftirtekt sem hafði dröslast með „óþekktar þungan hlut“ inn á svæði sem ISIS hefur nýtt í hernaðaraðgerðum sínum í Ramadi í Írak. Maðurinn var felldur í árás. Í Pentagon-skjölunum kemur fram að hluturinn var í raun „smábyggð manneskja,“ eða öllu heldur: Barn. Barnið lést í árásinni.
Reglur mögulega brotnar í einni árás af 1.317
Allar árásir eru yfirfarnar af bandaríska hernum en í dæmunum sem hér hafa verið nefnd taldi herinn að ekki hafi verið um misgerðir að ræða eða ranga ákvarðanatöku. Aðeins í einu dæmi af 1.311 komst herinn að þeirri niðurstöðu að mögulega hefðu reglur verið brotnar. Þá voru bætur aðeins greiddar vegna tíu árása.
Yfirvöld í Bandaríkjunum hafa heitið gagnsæi þegar kemur að loftárásum. Barack Obama hóf loftárásir í Írak, Sýrlandi og Afganistan í sinni valdatíð og héldu þær áfram í forsetatíð Donalds Trump og voru yfir 50 þúsund talsins frá 2014-2020. Rannsókn NY Times bendir til þess að loftárásir Bandaríkjahers hafi verið byggðar á gölluðum upplýsingum, ónákvæmri ákvarðanatöku og leitt til dauða þúsunda almennra borgara, þar á meðal margra barna.
Niðurstaða rannsóknarinnar stangast á við fullyrðingar Bandaríkjastjórnar þar sem því hefur verið heitið að drónaárásir tryggi gagnsæi og að „stórkostleg tækni“ Bandaríkjanna myndi tryggja að settu markmiði sé ávallt náð, það er að ná skotmarkinu en komast hjá því að drepa börn og almenna borgara.
Hér má nálgast fréttaskýringu New York Times í heild sinni, sem verður í nokkrum hlutum og hér má nálgast öll leyniskjölin frá Pentagon.