Bandaríska leyniþjónustan hefur óskað eftir fjáveitingu frá þarlendum stjórnvöldum til að byggja nákvæma eftirlíkingu af þekktasta heimili heims, sjálfu Hvíta húsinu. Áætlaður kostnaður við að byggja eftirmynd af heimili forseta Bandaríkjanna hleypur á átta milljónum Bandaríkjadala, eða rúmum 1,1 milljarði íslenska króna. Vefsíða The New York Times greinir frá málinu.
Fyrirætlanir leyniþjónustunnar má rekja til harðrar gagnrýni sem hún hefur mátt sæta að undanförnu, vegna pínlegra uppátækja þar sem komið hafa í ljós alvarlegir ágallar á öryggisgæslu Hvíta hússins. Leyniþjónustan hefur meira að segja verið sökuð um að geta ekki tryggt öryggi forseta Bandaríkjanna svo gott sé.
Hér að neðan má sjá skemmtilega samantekt The New York Times um vandræðin hjá bandarísku leyniþjónustunni að undanförnu.
Samkvæmt umfjöllun The New York Times er búist við að Joseph P. Clancy, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar, fari fram á fjárveitingu til verkefnisins á fundi þarlendrar þingnefndar í dag. Bandaríska leyniþjónustan heldur því fram að með byggingu nákvæmrar eftirlíkingar af Hvíta húsinu verði hægt að þjálfa starfsmenn hennar enn betur til að vernda Bandaríkjaforseta.
Um 40 kílómetra frá 1600 Pennsylvania Avenue, sem er heimilsfang Hvíta hússins í Washington, er að finna svæði þar sem leyniþjónustumenn sem vakta heimili forseta Bandaríkjanna stunda æfingar. Þar hefur verið reynt að líkja eftir aðstæðum við og í Hvíta húsinu, sem ekki þykir fullnægjandi að sögn forsvarsmanna bandarísku leyniþjónustunnar.
Fyrirhugað líkan af heimili Bandaríkjaforseta muni veita fulltrúum leyniþjónustunnar tækifæri til að æfa sig, og viðbúnað, við raunverulegri aðstæður en nú þekkist og gera þá þar með betur í stakk búna til að gæta öryggis forseta Bandaríkjanna.
Beiðni leyniþjónustunnar kemur sex mánuðum eftir að karlmaður hoppaði yfir girðinguna við Hvíta húsið, hljóp óáreittur yfir grasflötina fyrir framan húsið og fór inn í húsið um ólæsta hurð. Atvikið vakti mikla athygli og hneykslan og hörð gagnrýni á bandarísku leyniþjónustunna fylgdi í kjölfarið.