Líf Magneudóttir borgarfulltrúi Vinstri grænna segir að hana langi „smá að þjóðnýta kirkjuna og síðan leggja allt niður sem tengist henni“. Þetta skrifaði hún á Twitter í gærkvöldi.
Hún er spurð í framhaldinu hvað hún meini og svarar hún að hún hafi haft þessa skoðun alllengi.
Uppfært kl. 9:55: Líf birti nýja Twitter-færslu eftir að fréttin birtist þar sem hún segir: „Eyddi tísti sem var mjög illa tímasett ... biðst afsökunar á því.“
Stöðuuppfærsla séra Davíðs Þórs Jónssonar um Vinstri græn og fyrirhugaðar brottvísanir tæplega 300 umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur gengið manna á milli í vikunni og ratað í fjölmiðla.
Þar segir hann meðal annars: „Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur.“
Hann kallar ríkisstjórnina „fasistastjórn VG“ í færslunni. Hann segir jafnframt að hún hafi ákveðið að „míga á“ barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og logið að hún hafi „lögfest“ sáttmálann á Íslandi.
„Ég þekki svona ofbeldismenn“
Fjölmiðlar rifjuðu upp í kjölfarið að hann og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna hefðu búið saman fyrir mörgum árum en í samtali við mbl.is í gær sagði hann að „umræðan ætti að snúast um það hvernig við sem samfélag komum fram við okkar minnstu bræður og systur“.
„Ef að einhverjum finnst að sú umræða eigi að snúast um það hvernig tilfinningalífi mínu var háttað fyrir 20 árum ... jah þá vitum við hversu stór sálin í því fólki er,“ sagði Davíð og bætti við: „Þar fyrir utan þá bjó ég aldrei með forsætisráðherra Íslands, það var allt önnur manneskja.“
Líf skrifaði á Facebook í gærkvöldi að hún væri mjög „triggeruð“ af skrifum og orðum Davíðs Þórs. „Ég þekki svona ofbeldismenn, hef elskað þá og búið með þeim og skilið við þá. Megi þeir finna frið í sálinni.“
Hún var spurð hvort Davíð Þór væri ofbeldismaður og hún svaraði: „Veit ekki með hann ... en þetta er óeðlilegt.“ Hún hefur nú eytt stöðuuppfærslunni á Facebook.
„Allt í einu er málið farið að snúast um hana og hennar tilfinningar“
Davíð Þór tjáði sig um skrif Lífar í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Þar var hann spurður hvort hann væri ofbeldismaður. Hann svaraði og sagði að honum þætti mjög leiðinlegt ef hann hefði með gagnrýni sinni sært tilfinningar Lífar Magneudóttur. „Ennþá leiðinlegra finnst mér að hún skuli líta – ef það er það sem hún er að reyna að segja – á mig sem ofbeldismann. Leiðinlegast af öllu finnst mér þó að það fyrsta sem heyrist frá henni sem einum af leiðtogum Vinstri grænna um þá ákvörðun flokkssystkina hennar að senda, eða gera ekkert til að koma í veg fyrir það, sem þó væri þeim í lófa lagið, hátt í 300 manns út í aðstæður sem ekki eru nokkurri manneskju bjóðandi.
Það fyrsta sem heyrist í henni um það mál er það hvað rausið í einhverjum reiðum karli úti í bæ særir hennar persónulegu tilfinningar. Allt í einu er málið farið að snúast um hana og hennar tilfinningar og hún er orðin fórnarlambið í sínum eigin haus en ekki tæplega 300 manneskjur sem flokkssystkini hennar eru með í höndunum hvað varðar líf og limi þeirra – og framtíð og framtíðarhorfur.“
Hann baðst á Rás 2 í morgun afsökunar á orðum sínum sem hann lét falla við blaðamann mbl.is. Hann sagði jafnframt á Facebook í gærkvöldi að hann iðraðist þeirra orða að hann hefði ekki búið með forsætisráðherranum. „Ég iðrast þessara orða og tek þau hér með aftur. Umræðan á ekki að snúast um persónur, en ég lét blaðamanninn slá mig út af laginu og niður á það plan,“ skrifaði hann.
Mig langar að biðjast afsökunar á orðum sem höfð eru eftir mér á mbl.is. Blaðamaður hringdi í mig þar sem ég var önnum...
Posted by Davíð Þór Jónsson on Thursday, May 26, 2022
Prestar megi ekki meiða með orðum
Málið hefur undið hratt upp á sig en Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands veitti Davíð Þór formlegt tiltal vegna ummælanna um VG í vikunni.
Í yfirlýsingu frá Agnesi segir að skrif Davíðs Þórs hafi verið harkaleg og ósmekkleg. Agnes sjálf hefur gagnrýnt áform yfirvalda um fyrirhugaðar fjöldabrottvísanir hælisleitenda sem fest hafa rætur hér á landi en hún segir að prestar verði að haga málflutningi sínum málefnalega og meiða ekki með orðum.
Í yfirlýsingu Agnesar segir að málinu teljist nú lokið af hálfu biskups. „Eftir stendur sem meira máli skiptir ákall biskups Íslands um mannúð og mildi þegar kemur að málefnum hælisleitenda.“
Þingflokksformaður VG segir skrif Davíðs Þórs ala á hatursorðræðu
Líf er ekki sú eina innan Vinstri grænna sem hefur tjáð sig um málið opinberlega. Orri Páll Jóhannsson þingmaður og þingflokksformaður VG fordæmdi skrif prestsins um VG eftir að fjölmiðlar fjölluðu um þau.
„Með þessum ummælum er verið að ala á hatursorðræðu í samfélaginu sem er eitt stærsta mein okkar samtíma. Það er grafalvarlegt að þjóðkirkjan taki þátt í slíku,“ sagði hann í samtali við Fréttablaðið í vikunni.
Anna Lísa Björnsdóttir framkvæmdastjóri þingflokks VG sagði í stöðuuppfærslu á Facebook í fyrradag að „afmennskun í orðræðu“ væri hatursorðræða.
„Það er mjög mikilvægt í opinberri umræðu að við gerum okkur grein fyrir krafti sem fylgir orðum sem skilgreina aðrar manneskjur sem fasista, meindýr, sníkjudýr, sjúkdóma, óþverra, uppvakninga eða djöfla,“ skrifar hún meðal annars og bætir því við að hatursorðræða gagnvart stjórnmálum og einstökum stjórnmálamönnum hafi raunverulegar afleiðingar.
Afmennskun í orðræðu er hatursorðræða. Í upphafi var orðið“ – upphafsorð Jóhannesarguðspjalls segja það sem segja þarf,...
Posted by Anna Lísa Björnsdóttir on Wednesday, May 25, 2022
Varaformaður VG ekki ánægður með dómsmálaráðherrrann
Svo virðist vera sem ekki sé eining innan ríkisstjórnarinnar vegna brottvísana umsækjendanna um alþjóðlega vernd.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson félags- og vinnumarkaðsráðherra og varaformaður VG sagði í viðtali á RÚV í vikunni það rangt að samstaða ríkti innan ríkisstjórnarinnar um það að vísa flóttamönnunum úr landi, líkt og Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur haldið fram. Hann sagðist hafa gert „alvarlegar athugasemdir“ við þá vegferð sem Jón væri á og að hann væri ekki ánægður með það hvernig Jón hefði haldið á málinu. „Nei, ég get ekki sagt að ég sé það. Ég held að það sé alveg ljóst af mínum orðum.“
Landsstjórn Ungra vinstri grænna fordæmdi í kjölfarið þá ákvörðun íslenskra stjórnvalda að hefja á ný endursendingar á fólki til Grikklands.
„Stefna VG í málaflokknum er skýr og nú ríður á að hafa hugrekki til að standa með okkar sannfæringu þó svo samstarfsflokkarnir og þeirra ráðherrar séu ef til vill á öðru máli. Ríkisstjórnarsamstarfið má aldrei verða mikilvægara en mannúð.
Það fólk sem nú á að flytja úr landi hefur verið hér í langan tíma og myndað náin tengsl við land og þjóð og gefið af sér til samfélagsins. Þessi ákvörðun er pólitísk og keyrð áfram af ríkisstjórn Íslands,“ segir í yfirlýsingu frá Ungum vinstri grænum.