„Neytendur hafa mikið vald, oft meira vald en þeir átta sig á. Það er eftirspurn neytenda sem ræður lífi og dauða fyrirtækja. Því betra sem fjármálalæsi neytenda er, því betri neytendur eru þeir,“ sagði Daði Ólafsson, sérfræðingur hjá Neytendastofu, í fyrirlestri á Popup ráðstefnu í HR í tilefni af alþjóðlegri fjármálalæsisviku.
Daði útskýrði hlutverk Neytendastofu sem stjórnvald umhugað um „litla manninn“. Stofnunin vill tryggja að neytendur hafi eins miklar upplýsingar og hægt er, sagði hann.
Eins og kílóverð á láni
Daði útskýrði einnig fyrirbærið árlega hlutfallstölu kostnaðar, en neytendalögum samkvæmt eiga fjármálafyrirtæki að gefa skýrar upplýsingar um vexti, kostnað og skilyrði fyrir lánum. Hluti af þessu gagnsæi er útreikningur á hlutfallstölu kostnaðar lánsins.
Daði sagði það ekki endilega nauðsynlegt að neytandinn skilji hvernig talan er reiknað út, heldur að hann geti notað töluna til þess að bera saman mismunandi lánatilboð. Hlutfallstalan tekur saman allan þann kostnað sem fylgir láni, ekki eingöngu uppgefna vexti, og reiknar í eina prósentutölu. Því lægri sem talan er, því hagstæðara er lánið.
Þetta sé ekki ólíkt kílóverði á vörum í matvöruverslunum. „Við segjum stundum að árleg hlutfallstala kostnaðar sé eins og kílóverð á láni,“ sagði hann.
Dæmi af hlutfallskostnaði
Á vefsíðum margra lánveitenda er að finna reiknivélar þar sem hægt er að reikna hlutfallstölu kostnaðar. Á vefsvæði Landsbankans má finna ágætis dæmi um hvernig hlutfallstalan er reiknuð. Dæmið er eftirfarandi:
„Viðskiptavinur tekur 100.000 króna lán. Kostnaður í upphafi er 4.000 krónur (lántökugjald) svo hann fær 96.000 krónur útborgaðar.
Að einu ári liðnu greiðir hann lánið til baka með 5.000 króna vöxtum, það er 100.000 krónur í afborgun og síðan 5.000 krónur í vexti eða samtals 105.000 krónur.
Þá má segja að hann hafi fengið 96.000 krónur lánaðar og endurgreitt 105.000 að ári liðnu. Níu þúsund krónur í vexti og kostnað við 96.000 króna lán þýða að árleg hlutfallstala kostnaðar er 9,375% þó vextirnir hafi aðeins verið 5%.“
Hér má lesa grein eftir Daða Ólafsson um sama efni á vefsíðu Neytendastofu.