Líf Magneudóttir, sitjandi oddviti Vinstri grænna í Reykjavík og eini borgarfulltrúi flokksins sem stendur, varð í fyrsta sæti í forvali Vinstri grænna í Reykjavík í dag. Hún fékk alls 441 atkvæði í fyrsta sætið, eða 49 prósent greiddra atkvæða í það.
Tvær aðrar konur sóttust eftir fyrsta sætinu, Elín Björk Jónasdóttir veðurfræðingur og Elín Oddný Sigurðardóttir varaborgarfulltrúi. Elín Björk endaði í þriðja sæti í forvalinu en Elín Oddný varð ekki á meðal þriggja efstu, en kosning þeirra er bindandi.
Í öðru sæti varð Stefán Pálsson sagnfræðingur, sem hefur lengi starfað innan Vinstri grænna og er giftur þingmanni flokksins, Steinunni Þóru Árnadóttur.
Alls greiddu 897 atkvæði og kjörsókn var 30 prósent.
Vinstri græn eiga einn borgarfulltrúa í dag, en flokkurinn fékk 4,6 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum árið 2018 og tapaði þá hátt í fjórum prósentustigum frá sveitarstjórnarkosningunum árið 2014. Fjöldi borgarfulltrúa VG hélst þannig óbreyttur, þrátt fyrir að verið væri að fjölga borgarfulltrúum úr 15 í 23.