Stjórn lífeyrissjóðsins Gildi, þriðja stærsti lífeyrissjóður landsins, ákvað á fundi sínum í síðustu viku að hækka breytilega óverðtryggða vexti á íbúðalánum frá og með 5. apríl næstkomandi um 0,45 prósentustig. Eftir það verða vextir á óverðtryggðum grunnlánum hjá Gildi 4,5 prósent og viðbótarlánum 5,25 prósent.
Sjóðurinn tilkynnti á sama tíma um lækkun á verðtryggðum vöxtum. Frá deginum í dag eru þeir 1,6 prósent á grunnlán og 2,35 prósent á viðbótarlán. Í ljósi þess að verðbólga er sem stendur 6,2 prósent eru raunvextir á verðtryggðum lánum þó mun hærri en á óverðtryggðum lánum, en verðbætur leggjast ofan á höfuðstól verðtryggðra lána.
Þar með hafa tveir af stærstu lífeyrissjóðum landsins hækkað íbúðalánavexti sína eftir að Seðlabanki Íslands ákvað að hækka stýrivexti um 0,75 prósentustig í síðasta mánuði upp í 2,75 prósent. Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) gerði það 17. febrúar síðastliðinn þegar fastir vextir óverðtryggðra sjóðsfélagalána voru hækkaðir um 0,4 prósentustig. Sá munur er þó á að LSR, sem er stærsti lífeyrissjóður landsins, býður ekki upp á breytilega vexti á óverðtryggðum lánum heldur einungis fasta til þriggja ára.
Lífeyrissjóður verzlunarmanna er því sá eini af þremur stærstu lífeyrissjóðum landsins sem, enn sem komið er, hefur ekki breytt sínum vöxtum eftir að ákvörðun Seðlabankans var kunngjörð. Saman eiga þessir þrír lífeyrissjóðir yfir helming allra hreinna eigna íslenska lífeyrissjóðakerfisins.
Áður hafði Söfnunarsjóður lífeyrisréttinda hækkað vexti óverðtryggðra lána í 5,19 prósent frá 16. febrúar, sem var hækkun um 0,4 prósentustig.
Allir stóru bankarnir búnir að hækka
Bankarnir hafa líka allir hækkað vexti breytilegra óverðtryggðra íbúðalána frá því að greint var frá stýrivaxtahækkuninni. Landsbankinn reið á vaðið og hækkaði þá um 0,5 prósentustig upp í 4,7 prósent.
Íslandsbanki fylgdi í kjölfarið og hækkaði vexti á breytilegum óverðtyggðum grunnlánum um 0,5 prósentustig upp í 4,65 prósent og Arion banki fylgdi í sömu fótspor skömmu síðar og hækkaði sína grunnvexti upp í 4,79 prósent.
Bankarnir þrír hafa nýtt sér síðustu tvö ár til að stórauka hlutdeild sína á íbúðalánamarkaði. Hlutdeild banka í útistandandi íbúðalánum er nú um 70 prósent en var 55 prósent í byrjun árs 2020.
Þessi þróun, mikill vöxtur á útlánasafni, spilaði stóra rullu í því að þeir högnuðust samtals um 81,2 milljarða króna í fyrra, sem var 170 prósent meiri hagnaður en þeir skiluðu árið 2020.
Vaxtamunur bankanna þriggja var á bilinu 2,3-2,8 prósent á síðasta ári, sem er mjög svipað og hann var á árinu 2020, þegar hann var 2,7 prósent að meðaltali. Mestur var hann hjá Arion banka en minnstur hjá Landsbankanum. Til samanburðar þá var vaxtamunur norræna banka sem eru svipaðir að stærð og þeir íslensku 1,68 prósent á árinu 2020. Hjá stórum norrænum bönkum er hann undir einu prósenti, samkvæmt því sem fram kemur í síðasta birta ársriti Samtaka fjármálafyrirtækja.