Samkvæmt þeim lögum sem gilda í landinu í dag er lífeyrissjóðum ekki heimilt að birta sjóðsfélögum sínum upplýsingar rafrænt nema þeir óski eftir því. Sjóðirnir þurfa því að senda upplýsingar um stöðu lífeyrissparnaðar, sem er lögbundinn, út á pappírsformi til allra sjóðsfélaga sem hafa ekki lagt fram slíka ósk. Kostnaður vegna þeirra sendinga er um 200 milljónir króna á ári.
Nú hefur verið lagt fram frumvarp um breytingar á lögum um lífeyrissjóði. Einn angi þeirra breytinga er að sjóðunum verði gert heimilt að birta sjóðsfélögum upplýsingar rafrænt en að þeir geti áfram sem áður óskað eftir því að fá upplýsingar og yfirlit send á pappír. Verði frumvarpið samþykkt þá munu sjóðsfélagar því þurfa að biðja um pappírssendingarnar, í stað þess að óska sérstaklega eftir að þeim verði hætt. Ef enginn óskar eftir að fá upplýsingar og yfirlit á pappír þá spara lífeyrissjóðirnir því um 200 milljónir króna á ári, en í lok síðasta árs voru greiðendur í samtryggingardeild sjóðanna 223.654 talsins.
Umtalsverð jákvæð umhverfisáhrif fylgja þessu einnig, enda þurfa sjóðirnir ekki að kaupa gríðarlegt magn af pappír til að prenta út og senda.
Ekki fallist á tillögu um að rukka fyrir pappírinn
Frumvarpið var lagt fram á síðasta þingi í lítillega breyttri mynd en náði ekki fram að ganga. Þá bárust hins vegar fjölmargar umsagnir um það. Ein slík kom frá Arion banka. Í henni var lagt til að heimild yrði bætt við til gjaldtöku fyrir þá sem vildu áfram frá iðgjaldayfirlit og upplýsingar á pappírsformi,s em myndi taka gildi þremur árum eftir að heimild til rafrænnar birtingar yrði lögfest.
Innleiða lögbundna skyldu um frekari upplýsingagjöf
Í nýja frumvarpinu er líka lagt til að lífeyrissjóðum verði skylt að upplýsa sjóðfélaga um helstu réttindi sem felast í aðild að sjóðnum og um skipulag hans og stefnu. „Betri skilningur sjóðfélaga á lífeyrissjóðakerfinu er til þess fallinn að þeir taki upplýstari ákvarðanir um lífeyrissparnað sinn, þar sem það er mögulegt. Lífeyrissparnaður er ein af stærstu eignum hvers Íslendings og samfélagið allt hefur gagn af aukinni þekkingu á lífeyriskerfinu.“
Þá séu líkur á að sú upplýsingagjöf sem lögð sé til leiði til þess að Ísland verði hæst í öllum þeim þremur flokkum sem alþjóðleg úttekt Mercer á lífeyrissjóðkerfum nær til, þ.e. sjálfbærni, nægjanleika og heilinda. „Ísland var í fyrsta sæti í tveimur fyrrnefndu flokkunum árið 2021, en í sjöunda sæti þegar kom að heilindum, að miklu leyti vegna þess að upplýsingagjöf til nýrra sjóðfélaga skorti.“