Lífeyrissjóðir landsins lánuðu alls 5,9 milljarða króna í ný óverðtryggð húsnæðislán til sjóðsfélaga, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, í febrúar síðastliðnum. Það er næst hæsta upphæð sem þeir hafa lánað í óverðtryggð húsnæðislán á einum mánuði. Eina skiptið sem útlánin voru hærri var í október 2019, þegar lífeyrissjóðir landsins lánuðu samtals um 7,1 milljarð króna í óverðtryggð húsnæðislán.
Óverðtryggðu lánin rúmlega tvöfölduðust milli janúar og febrúarmánaða.
Á saman tíma heldur niðurgreiðsla verðtryggðra lána lífeyrissjóða áfram. Alls lækkaði eign þeirra í slíkum lánum um 2,6 milljarða króna í febrúar.
Lífeyrissjóðirnir, sem bjóða nú margir hverjir upp á betri vaxtakjör en stóru viðskiptabankarnir, lánuðu alls út 500 ný útlán í febrúar. Það er mesta magn útlána sem þeir hafa lánað frá því í nóvember 2020.
Bankarnir stórjuku markaðshlutdeild sína í faraldrinum
Bankarnir tóku yfir íslenska íbúðarlánamarkaðinn eftir að kórónuveirufaraldurinn skall á. Það sem gerði þeim það kleift voru aðgerðir Seðlabanka Íslands, sem lækkaði stýrivexti niður í 0,75 prósent og afnam tímabundið hinn svokallaða sveiflujöfnunarauka, og ríkisstjórn Íslands, sem lækkaði bankaskatt þannig að tekjur ríkissjóðs af honum rýrnuðu um sex milljarða króna á ári.
Þessi miklu útlánavöxtur myndaði grunninn að gríðarlegum hagnaði bankanna þriggja í fyrra, sem samtals var 81,2 milljarðar króna. Hann hafði líka mikil ruðningsáhrif á húsnæðisverð sem hefur hækkað um tugi prósenta á skömmum tíma.
Kerfislega mikilvægu bankarnir þrír lánuðu minna í íbúðalán umfram upp- og umframgreiðslur í febrúar 2022 en þeir höfðu gert frá því fyrir faraldur. Ný útlán voru samt sem áður 9,6 milljarðar króna þannig að þeir eru enn að bæta við markaðshlutdeild sína. Til samanburðar voru þeir að lána á fimmta tug milljarða króna á mánuði í ný útlán að frádregnum upp- og umframgreiðslum þegar best lét á kórónuveirutímabilinu.
Lífeyrissjóðirnir snúa aftur
Viðsnúningur hefur verið á útlánum lífeyrissjóðanna til sjóðsfélaga sinna vegna íbúðarkaupa frá því seint á síðasta ári. Frá júnímánuði árið 2020 og út október í fyrra, alls í 16 mánuði, þá voru upp- eða umframgreiðslur lána sjóðanna meiri en ný útlán. Alls voru greidd upp lán fyrir 66,7 milljarða króna umfram ný lán, jafnt verðtryggð og óverðtryggð, á tímabilinu. Frá byrjun nóvember og út febrúarmánuð lánuðu lífeyrissjóðirnir hins vegar 8,5 milljarð króna meira en upp- og umframgreiðslur.
Þar skiptir sennilega mestu að Lífeyrissjóður verzlunarmanna, næst stærsti lífeyrissjóður landsins, ákvað í haust að stofna nýjan lánaflokk sjóðsfélagalána og lánar nú óverðtryggð lán til íbúðarkaupa með breytilegum vöxtum.
Um er að ræða þá tegund lána sem notið hefur mestra vinsælda hjá íslenskum húsnæðiskaupendum síðastliðin ár. Vextirnir eru nú mun betri en þeir bestu sem bankarnir bjóða upp á og þeir hækka ekki jafn skarpt og hjá bönkunum, sem elta hverja tilkynnta stýrivaxtahækkun. Frá því að nýi lánaflokkurinn var tilkynntur í október í fyrra hafa vextir einungis verið hækkaðir einu sinni, og sú hækkun tók gildi í febrúar 2022.
Sem stendur eru vextir á breytilegum óverðtryggðum vöxtum hjá Lífeyrissjóði verzlunarmanna 4,13 prósent á grunnláni á meðan að þeir eru 4,7 prósent hjá Landsbankanum, sem hefur verið allra banka stórtækastur á íbúðalánamarkaði undanfarin tvö ár. Breytilegir óverðtryggðir vextir Lífeyrissjóðs verzlunarmanna munu fara upp í 4,32 prósent 1. maí næstkomandi.
Lífeyrissjóðirnir njóta þess fram yfir banka að bera engan kostnað vegna fjármögnunar. Bankar þurfa að fá lánaða peninga, annað hvort hjá viðskiptavinum sínum í formi innlána eða frá fjárfestum með skuldabréfaútgáfu, og greiða vexti af því fé. Lífeyrissjóðir eru áskrifendur að fé almennings sem flæðir inn í hirslur þeirra um hver áramót án vaxta, þótt krafa sé gerð um að þeir ávaxti það fé. Það gefur sjóðunum tækifæri á að bjóða upp á betri viðskiptakjör.