Lífeyrissjóðir landsins lánuðu 39,6 milljarða króna í ný óverðtryggð íbúðalán, að frádregnum upp- og umframgreiðslum, frá nóvember 2021 og út maí síðastliðinn. Til samanburðar lánuðu lífeyrissjóðirnir samtals um 20 milljarða króna í slík lán frá byrjun apríl 2020, þegar kórónuveirufaraldurinn var að skella á af fullum krafti, og út september 2021, eða á eins og hálfs árs tímabili.
Þetta má lesa úr nýbirtum tölum Seðlabanka Íslands um útlán lífeyrissjóða.
Samhliða skarpri stýrivaxtahækkun Seðlabanka Íslands á undanförnum mánuðum, þar sem vextirnir hafa hækkað upp í 4,75 prósent, hafa helstu lífeyrissjóðir verið að hækka sína útlánavexti. Þeir eru þó enn umtalsvert lægri en sambærilegir óverðtryggðir vextir sem bjóðast hjá bönkum. Lægstu vextirnir bjóðast nú hjá Brú lífeyrissjóði, 5,2 prósent. Til samanburðar eru lægstu vextir banka hjá Landsbankanum, 6,43 prósent.
Aukningin öll í óvertryggðum lánum
Viðsnúningur hefur verið á öllum útlánum lífeyrissjóðanna til sjóðsfélaga sinna vegna íbúðarkaupa frá því seint á síðasta ári. Frá júnímánuði árið 2020 og út október í fyrra, alls í 16 mánuði, þá voru upp- eða umframgreiðslur lána sjóðanna meiri en ný útlán. Alls voru greidd upp lán fyrir 66,7 milljarða króna umfram ný lán, jafnt verðtryggð og óverðtryggð, á tímabilinu. Frá byrjun nóvember og út maímánuð lánuðu lífeyrissjóðirnir hins vegar 22,7 milljarða króna meira en upp- og umframgreiðslur.
Um er að ræða þá tegund lána sem notið hefur mestra vinsælda hjá íslenskum húsnæðiskaupendum síðastliðin ár.
Uppistaðan í þessari útlánaaukningu hefur því verið í óverðtryggðum lánum. Á sama tíma og ný óverðtryggð lán hafa námu 39,6 milljörðum króna frá byrjun nóvember í fyrra og út maí í ár þá drógust verðtryggð lán lífeyrissjóða saman um 16,9 milljarða króna.
Bankarnir stóraukið markaðshlutdeild sína
Á meðan að á kórónuveirufaraldrinum stóð stórjuku bankarnir markaðshlutdeild sína á íbúðalánamarkaði.
Frá mars 2020 og fram út maí síðastliðinn jukust hrein ný útlán Landsbankans, Íslandsbanka og Arion banka, með veði í íbúð, gríðarlega. Markaðshlutdeild bankanna í öllum útistandandi lánum til íbúðarkaupa hefur vaxið úr 55 í meira en 70 prósent.
Samtals lánuðu bankarnir þrír 664 milljarða króna með veði í íbúðarhúsnæði á tímabilinu, að frádregnum upp- og umframgreiðslum. Í maí námu útlánin 17 milljörðum króna.
Þessi miklu útlánavöxtur myndaði grunninn að gríðarlegum hagnaði bankanna þriggja í fyrra, sem samtals var 81,2 milljarðar króna. Hann hafði líka mikil ruðningsáhrif á húsnæðisverð sem hefur hækkað um tugi prósenta á skömmum tíma.
Greiðslubyrði rokið upp
Á meðan að á faraldrinum stóð þrefölduðust óverðtryggð húsnæðislán viðskiptabankanna, fóru úr 370 milljörðum króna í 1.090 milljarða króna.
Fyrir vikið hafa allir landsmennirnir sem tóku óverðtryggðu lánin með breytilegu vöxtunum séð greiðslubyrði sína stóraukast.
Í nýlegri Hagsjá Landsbankans er tekið dæmi af 40 milljóna króna láni á lægstu óverðtryggðu vöxtum. Vaxtabyrði þeirra hefur hækkað um 98 þúsund krónur frá því í maí í fyrra. Landsbankinn býst við því að vextir haldi áfram að hækka og að vaxtabyrðin muni aukast um 25 þúsund krónur í viðbót á þessu ári. Þá hefur hún farið úr 110 þúsund krónum á mánuði i 233 þúsund krónur á mánuði.