Lífskjarasamningurinn mun halda gildi sínu þar til hann rennur út þann 1. nóvember 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu sem Alþýðusamband Íslands (ASÍ) sendi frá sér í dag.
Samninganefnd Alþýðusambands Íslands og framkvæmdastjórn Samtaka atvinnulífsins hittust á fundi í dag um framhald lífskjarasamningsins en bregðist forsendur getur hvor aðili sagt honum upp fyrir klukkan 16:00 þann 30. september næstkomandi.
Í tilkynningunni segir að lífskjarasamningurinn hvíli á forsendum sem ekki hafi fullkomlega staðist þar sem stjórnvöld hafi ekki efnt öll fyrirheit í yfirlýsingu sinni þann 4. apríl 2019.
Á fundi aðila kom fram vilji af beggja hálfu til þess að samningar standi og halda þeir því gildi sínu þar til þeir renna út á næsta ári.
Mikilvægt að ríkisstjórnin vinni sér aftur inn traust
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR segir í samtali við Kjarnann að forsendubresturinn sem varð í endurskoðuninni hafi nánast eingöngu snúið að vanefndum stjórnvalda.
„Báðir aðilar voru sammála um það en það var tekin ákvörðun um það að standa við samninginn. Við munum síðan reyna eftir fremsta megi að klára þau mál sem eftir standa við næstu ríkisstjórn hvort sem hún verði sú sama eða einhver önnur.
Af því að það er gríðarlega mikilvægt fyrir sitjandi ríkisstjórn að vinna aftur það traust sem hún hefur tapað gagnvart aðilum vinnumarkaðarins. Þú getur ekki farið í þríhliða samkomulag við aðila sem hefur þverbrotið allt sem hann hefur sagst ætla að gera og lofað,“ segir hann.
Engin stemning að fara í átök
Ragnar Þór segir að þessi niðurstaða hafi verið fyrirsjáanleg og að „engin stemning“ hafi verið hvorki hjá atvinnulífinu né almenningi að fara í átök við þessar aðstæður. „Þannig að þetta er ákveðinn léttir. Það er lítið eftir af samningnum, það er ekki eftir nema ár af honum þannig að við getum notað þann tíma vel. Við erum að fá hækkun núna um áramótin og mögulegan hagvaxtarauka, þannig að það á töluvert mikið eftir að koma úr samningnum. Þetta var því mjög ánægjuleg niðurstaða.“
Hann segist vera mjög feginn að ekki verið drama í kringum þessa ákvörðun „eins og oft hefur verið í kringum verkalýðshreyfinguna og aðila vinnumarkaðarins“.
„Mér er mjög létt. Það var ágætis hljóð í fólki á fundinum í dag og mikill vilji til að fara að hefja vinnu við næstu samninga mjög fljótlega. Þannig að þetta er held ég bara mjög ánægjuleg niðurstaða fyrir samfélagið og þjóðina.“