Stefán Ólafsson, sérfræðingur í vinnumarkaðs- og lífskjararannsóknum hjá Eflingu, segir að vaxtahækkun Seðlabankans á alla með vaxtaberandi skuldir sé einstaklega ómarkviss aðgerð, ef markmiðið sé að fækka kaupendum íbúða og létta þar með þrýstingi af verðhækkunum á húsnæðismarkaði.
„Það er ómarkvisst vegna þess að einungis lítill hluti íbúðareigenda á hverjum tíma er að fara í íbúðaskipti. Vaxtahækkun á þá er einungis aukin greiðslubyrði eða kjaraskerðing, sem hefur engin áhrif á húsnæðismarkaðinn. Þetta er svolítið eins og að fara á skriðdreka til rjúpnaveiða. Heilu svæðin eru sprengd upp til að ná til nokkurra rjúpna!“ skrifar Stefán í færslu á Facebook í dag.
Hann segir aðgerðir Seðlabankans auk þess engin áhrif hafa á innflutta verðbólgu, sem sé ásamt misheppnaðri hagstjórn húsnæðismála innanlands helsti verðbólguvaldurinn á Íslandi. Aðgerðirnar telur hann að komi frekar til með að auka á vandann sem fylgir innfluttri verðbólgu, með aukinni greiðslubyrði heimila og fyrirtækja.
Segir að við munum sjá sprengingu í leiguverði
Einnig segir Stefán þá leið sem Seðlabankinn hefur valið vera óréttláta, því hún bitni „fyrst og fremst á ungu og tekjulágu fólki“ sem sé sérstaklega háð skuldsetningu til að geta keypt sér íbúð, en í þessu samhengi er hann einnig að ræða um þær aðgerðir sem kynntar voru af fjármálastöðugleikanefnd í síðustu viku, um aukin skilyrði greiðslumats og lægri hámarksskuldsetningu fyrstu kaupenda.
„En fólk með mikla kaupgetu finnur ekki mikið fyrir þessum aðgerðum og mun ekki láta þær stoppa sig í að skipta um íbúðarhúsnæði, sem er sennilega það sem hefur mest áhrif til að þrýsta verði upp,“ skrifar Stefán.
Hann segir að með því „loka ungu og tekjulágu fólki leið inn á íbúðamarkaðinn“ sé þessum hópi „þrýst út á leigumarkaðinn, þar sem greiðslubyrðin er meiri en af kaupum á hóflegri íbúð“ og fullyrðir að í framhaldinu munum við sjá „sprengingu í leiguverði“.
„Seðlabankastjóri nefnir þetta reyndar í nýlegu viðtali og viðurkennir takmörkuð áhrif vaxtahækkunarinnar og hinna sérstöku úrræða - um leið og hann fullyrðir digurbarkalega að tæki Seðlabankans virki og að þeim verði beitt af enn meiri hörku ef verðbólgan eykst enn meira.
Þannig að ef afleiðingar innrásarinnar í Úkraínu verða enn meiri fyrir heimshagkerfið en orðið er þá mun Seðlabanki Íslands bæta við þær þrengingar með enn meiri skuldabyrði heimila og fyrirtækja á Íslandi!“ skrifar Stefán, sem segir þetta í senn ómarkvisst, óskynsamlegt og óréttlátt.
„Væri ekki nærtækara að hamla kaupum fjárfesta á mörgum íbúðum til að leigja út og braska með? Ætti ekki frekar að hægja á íbúðaskiptum tekjuhærri hópa? Takmarka fé í umferð?
Auðvitað þarf aukið framboð íbúða til að leysa vandann endanlega, en það tekur tíma. Fleira mætti þó gera á framboðshlið húsnæðismálanna til að flýta fyrir auknum byggingum. Ástandið á sennilega eftir að versna enn frekar áður en það batnar,“ skrifar Stefán Ólafsson.