Lilja D. Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra segir að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson efnahags- og fjármálaráðherra hafi einnig haft áhyggjur af framkvæmd sölu ríkisins á hlut í Íslandsbanka í mars síðastliðnum. Hún segir jafnframt að Bjarni sé nú þegar farinn að bera ábyrgð á málinu með því að óska eftir því að Ríkisendurskoðun skoði málið.
Þetta kom fram í máli hennar í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag. Halldóra Mogensen þingflokksformaður Pírata spurði hana hvort hinir ráðherrarnir hefðu tekið hana alvarlega þegar hún viðraði áhyggjur sínar á fundum ráðherranefndar um efnahagsmál.
Halldóra hóf fyrirspurn sína á því að segja að umræðan um ábyrgð og traust hefði verið hávær síðustu daga. Ábyrgð í stjórnmálum væri grundvöllur trausts og traust almennings væri forsenda stöðugleika.
„Traustið er límið sem heldur samfélaginu saman. Þetta held ég að hæstvirtur ráðherra viti vel og henni sé umhugað um að traust ríki um störf hennar og ríkisstjórnarinnar. En þrátt fyrir þetta þá virðast stjórnarliðarnir flestir staðráðnir í því að firra fjármálaráðherra ábyrgð, ábyrgð sem maður hefði haldið að ætti að vera veigamikið atriði í máli þar sem traust almennings er í húfi. Í kjölfar bankasölunnar kom þó í ljós að ekki hefði ríkt einhugur innan ríkisstjórnarinnar um fyrirkomulag útboðsins,“ sagði hún.
Rifjaði Halldóra upp að Lilja hefði sagt í fjölmiðlaviðtölum að á fundi ráðherranefndar um efnahagsmál hefði hún gagnrýnt fyrirkomulagið, til dæmis á þeim forsendum að gæði framtíðareigna ættu að fá forgang fram yfir verð og að vanda ætti sérstaklega til verka í ljósi hrunsins.
„Viðskiptaráðherra virðist hafa verið sannspá því afar margt fór úrskeiðis við þessa sölu. Við seldum bröskurum með vafasama fortíð bréfin á afslætti, innherjar og starfsmenn Íslandsbanka fengu aðgang að viðskiptunum, söluaðilar fengu sjálfir að kaupa, faðir fjármálaráðherra tók þátt og svo mætti lengi telja,“ sagði Halldóra og bætti því við að aðfinnslur sem viðskiptaráðherra flaggaði í ráðherranefndinni væru mikilvægar, sérstaklega í ljósi þess að ráðherranefndinni væri ætlað að vera vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins.
„Aðkoma og athugasemdir viðskiptaráðherra hljóta því að vega þungt í allri ákvarðanatöku,“ sagði hún og spurði hvernig Katrín og Bjarni hefðu brugðist við gagnrýnum sjónarmiðum Lilju í ráðherranefndinni. „Voru þau tekin alvarlega? Hvers vegna var ekki tekið mark á réttmætum áhyggjum og forspá viðskiptaráðherra?“ spurði hún.
Mikilvægt að vanda sig – og huga að mikilvægi traustsins
Lilja svaraði og sagði að hún væri henni hjartanlega sammála um traustið. „Traust er líklega eitt mikilvægasta og mesta hreyfiafl samfélaga, það er ef ekki er traust er mjög erfitt að vinna að framfaramálum. Þetta á við um að það þarf að ríkja traust innan ríkisstjórna, það þarf að vera traust hér inni í þingsal og það þarf að ríkja gott traust svo við getum unnið saman. Við getum líka litið til þeirra samfélaga þar sem ríkir lítið traust. Þeim gengur bara frekar illa.“
Þannig væri það hárrétt hjá Halldóru að traustið væri afar mikilvægt.
„Ég get upplýst þingið um að þau höfðu líka þessar áhyggjur. Það var þannig að það kemur tillaga frá Bankasýslu ríkisins um að þessi aðferð sé til þess fallin að hámarka verð á þessari eign og þessi aðferð sé sú sem sé alls staðar beitt um allan heim. Ég verð bara að viðurkenna það að ég hafði ákveðnar efasemdir um þetta, sérstaklega í ljósi þess að hér varð risastórt fjármálahrun og traustið í íslensku samfélagi fór. Það er gríðarlega alvarlegt og þúsundir fjölskyldna misstu heimili sín og áttu um mjög sárt að binda. Þess vegna var afskaplega mikilvægt að við myndum vanda okkur og huga að mikilvægi traustsins,“ sagði Lilja.
Hvernig á fjármálaráðherra að axla ábyrgð?
Halldóra kom aftur í pontu og sagði að það væri áhugavert að heyra viðskiptaráðherra segja að fjármálaráðherra hefði deilt áhyggjum hennar af því ferli sem var ákveðið að fara í.
„Þessi tillaga Bankasýslunnar, það var ákveðið að fara þá leið þrátt fyrir áhyggjur allra sem sitja í þessum hóp, þessari ráðherranefnd um efnahagsmál. Nú voru fleiri en ein tillaga. Það hlýtur að sæta furðu að ákvörðun hafi verið tekin um að fara þessa leið á meðan allir þrír ráðherrarnir höfðu áhyggjur af því og niðurstöðunni af því,“ sagði hún og vísaði í viðtal við Morgunblaðið þar sem Lilja benti „réttilega á“ að pólitíska ábyrgðin lægi væntanlega hjá þeim stjórnmálamönnum sem ákvarðanirnar tóku, að ekki væri hægt að skella skuldinni alfarið á stjórnendur Bankasýslunnar.
Halldóra spurði Lilju hvernig fjármálaráðherra, sem hefði valið að fara þessa leið þrátt fyrir áhyggjur sínar og annarra ráðherra sem sátu í ráðherranefnd, bæri að axla ábyrgð á niðurstöðunni af sínum ákvörðunum.
„Við öll tökum þetta auðvitað til okkar“
Ráðherrann svaraði í annað sinn og sagði að sú umræða sem hefði átt sér stað í þingsal og hjá stjórnarandstöðunni, og þau sterku viðbrögð sem væru við þessari sölu, væri einmitt dæmi um það hversu upplýst íslenskt samfélag væri og að ráðherranefndin hefði jafnvel vanmetið hversu stutt væri frá fjármálahruninu.
„Ég tel að við öll tökum þetta auðvitað til okkar,“ sagði hún.
Hún sagði að fjármála- og efnahagsráðherra væri þegar byrjaður að axla ábyrgð með því að óska eftir því að Ríkisendurskoðun skoði málið. „Við sjáum að Seðlabanki Íslands fer strax inn í málið og er að skoða hvort eitthvað hafi farið úrskeiðis er varðar sölu og einstaka aðila. Það hvarflar ekki að mér að fara eitthvað nánar út í það fyrr en ég sé hvað kemur út úr þeirri rannsókn.“