Lilja Alfreðsdóttir, ráðherra viðskipta, ferðamála og menningar, segist ekki hafa verið hlynnt þeirri aðferðafræði sem var beitt við sölu á 22,5 prósent hlut í Íslandsbanka 22. mars síðastliðinn. Hún telur brýnt að í ljósi þeirrar gagnrýni sem sett hefur verið fram á bankasöluna þurfi Ríkisendurskoðun að fara yfir framkvæmd og aðferðir. Einnig kunni að vera rétt að fela fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands að fara yfir málið. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Hún hafi viljað almennt útboð, en ekki að bréfin yrðu seld til valins hóps fjárfesta. Lilja, sem er einn þriggja ráðherra ríkisstjórnar sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, segist hafa komið þeim sjónarmiðum sínum skýrt á framfæri í aðdraganda útboðsins. „Ég hef alltaf talið skynsamlegt að taka lítil og hægfara skref. Hafa vaðið fyrir neðan sig. Ekki einblína á verð, heldur gæði framtíðareigenda. Önnur leið var hins vegar valin og því miður er fátt sem kemur á óvart í þessu máli og hver útkoman varð.“
Lilja segist telja að hægja eigi á einkavæðingu Íslandsbanka, þótt hún sé fylgjandi sölu hans. Aðstæður í efnahagsmálum gefi væntingar um að góð staða ríkissjóðs muni styrkjast hratt, meðal annars vegna uppgangs í ferðaþjónustu í sumar. „Í mínum huga er líka alveg ljóst að Landsbankinn skuli vera áfram í eigu þjóðarinnar. Sala á honum kemur ekki til greina.“
Auk Lilju sitja Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins. Sú nefnd á meðal annars að vera stefnumótandi við uppbyggingu fjármálakerfisins auk þess sem henni er ætlað að vera „vettvangur samráðs og samræmingar við endurskoðun fjármálakerfisins í samræmi við þá áherslu í sáttmála ríkisstjórnar að breið sátt náist um endurskipulagningu fjármálakerfisins á Íslandi“.
Fyrsti ráðherrann til að setja fram jafn skýra gagnrýni
Lilja er fyrsti ráðherra ríkisstjórnarinnar til að stíga fram og gagnrýna söluferlið með jafn afgerandi hætti. Ýmsir stjórnarþingmenn sem sitja ekki í ríkisstjórn hafa þó gert það og um helgina sagði Bjarni Jónsson, þingmaður Vinstri grænna, að hann teldi að forstjóri og stjórn Bankasýslu ríkisins, sem hafði umsjón með sölu á hlut ríkisins í umboði fjármála- og efnahagsráðherra, ætti að víkja til að auðvelda endurheimt á trausti. Jón Gunnar Jónsson, forstjóri Bankasýslunnar, sagði við mbl.is í gær að hann ætli ekki að víkja.
Margþættar aðfinnslur
Salan fór fram 22. mars síðastliðinn. Þá var 22,5 prósent hlutur í Íslandsbanka seldur til 207 fjárfesta (tveimur tilboðum var hafnað) með 2,25 milljarða króna afslætti. Salan fór fram eftir svokallaðri tilboðsleið og einungis þeim sem uppfylla skilyrði laga um að teljast fagfjárfestar fengu að taka þátt. Auk stórra stofnanafjárfesta á borð við lífeyrissjóði, tryggingafélög og verðbréfasjóði er það hópur fjárfestingarfélaga og einstaklinga. Hlutirnir voru seldir á nokkrum klukkutímum og ráðgjafar Bankasýslunnar fengu um 700 milljónir króna greitt fyrir að koma þeim í verð.
Gagnrýnin á ferlið hefur verið margþætt. Í fyrsta lagi töldu margir, meðal annars þingmenn sem sitja í þeim nefndum sem gáfu álit um söluna áður en hún fór fram, að selja ætti einvörðungu til stórra fjárfesta sem hefðu fyrirætlanir um að vera langtímaeigendur að Íslandsbanka. Komið hefur í ljós að svo var ekki, enda keyptu alls 59 fjárfestar fyrir minna en 30 milljónir króna og sá sem keypti fyrir lægstu upphæðina keypti fyrir einungis 1,1 milljón króna. Bent hefur verið á að ekkert hafi kallað á að selja hafi þurfti minni fjárfestum hlut í bankanum með afslætti. Þeir gætu einfaldlega keypt á eftirmarkaði.
Í öðru lagi hafa þóknanagreiðslur til ráðgjafa verið gagnrýndar en einn megintilgangur þess að ráðast í lokað útboð var að spara kostnað. Bankasýslan hefur sagt að kostnaðurinn, um 700 milljónir króna, sé ásættanlegur en því eru ekki allir sammála.
Í þriðja lagi hefur verið gagnrýnt hverjir fengu að kaupa, en listi yfir kaupendur var loks birtur á miðvikudag eftir mikinn þrýsting þar um. Á honum er að finna, meðal annarra, föður fjármálaráðherra, starfsmenn söluráðgjafa útboðsins, fjölmarga aðila sem voru fyrirferðamiklir í bankarekstri fyrir bankahrun, fólk í virkri lögreglurannsókn, útgerðareigendur og einstaklinga sem fáum hafði fyrirfram dottið í hug að teldust vera fagfjárfestar.