Mynd: Bára Huld Beck

Kaupendalistinn sem gerði allt vitlaust í íslensku samfélagi

Á miðvikudag var, eftir dúk og disk, birtur listi yfir þá 207 aðila sem fengu að kaupa í Íslandsbanka í lokuðu útboði þar sem afsláttur var veittur á almenningseign. Á listanum er að finna föður ráðherrans sem seldi hlutina í bankanum, útgerðarmenn, hrunverja, fólk í virkum lögreglurannsóknum, starfsmenn söluráðgjafa og ýmsa sem engum datt í hug að væru flokkaðir sem „fagfjárfestar“. Stjórnsýsluúttekt verður framkvæmd á sölunni en ákall er um skipun rannsóknarnefndar.

Þegar lokað útboð á 22,5 pró­sent hlut íslenska rík­is­ins í Íslands­banka var yfir­staðið þann 22. mars síð­ast­lið­inn skrif­aði Banka­sýsla rík­is­ins Bjarna Bene­dikts­syni, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, bréf. Í því sagði að sölu­ráð­gjafar stofn­un­ar­inn­ar, sem ráðnir höfðu verið án útboðs til að finna kaup­endur að hlutn­um, hefðu fengið 150 til 200 íslenska og erlenda fjár­festa til að skrá sig fyrir hlutum fyrir sam­tals meira en 100 millj­arða króna. Lagt var til að selja þessum hópi fyrir 52,65 millj­arða króna með 2,25 pró­senta afslætti frá mark­aðs­verði, sem gerir frá­vik upp á 4,1 pró­sent. 

Því liggur fyr­ir, sam­kvæmt bréf­inu sem birt var opin­ber­lega á vef stjórn­ar­ráðs­ins í gær, að umfram­eft­ir­spurn var að minnsta kosti tvö­föld. Banka­sýslan óskaði eftir því að fá heim­ild frá Bjarna til að ganga frá sölu á hlutnum á grund­velli þess­arar nið­ur­stöðu. Undir bréfið skrifar öll stjórn stofn­un­ar­inn­ar: Lárus Blön­dal stjórn­ar­for­mað­ur, Mar­grét Krist­manns­dóttir vara­for­maður stjórnar og Vil­hjálmur Bjarna­son með­stjórn­andi. Bjarni svar­aði sam­dæg­urs og í stuttu bréfi veitti hann Banka­sýsl­unni heim­ild til að ganga frá söl­unn­i. 

Hæfnin skil­greind af sölu­ráð­gjöf­unum

Leiðin sem var valin til að selja hlut­inn kall­ast til­boðs­leið. Hún er fram­kvæmd á nokkrum klukku­tímum og ákveðið var að ein­blína á það sem kallað var „hæfir fjár­fest­ar“. Síðar hefur verið vísað í að þar sé um að ræða þá sem skil­grein­ast sem fagjár­festar sam­kvæmt lög­um. Til þess þarf að upp­fylla tvö af þremur skil­yrð­um: að hafa átt ákveðið mörg við­skipti á árs­fjórð­ungi, að fjár­­­­­mála­­­gern­ingar þeirra og inn­­i­­­stæður væru sam­an­lagt virði 500 þús­und evra (um 70 milljón króna) eða meira eða að fjár­­­­­festir hafi gegnt eða gegni, í að minnsta eitt ár, stöðu í fjár­­­­­mála­­­geir­­­anum sem krefst þekk­ingar á fyr­ir­hug­uðum við­­­skiptum eða þjón­ust­u.

Rök­semd­ar­færslan fyrir því að fara þessa leið var meðal ann­ars sú að það myndi spara kostn­að. Ekki þyrfti að ráð­ast í útboðs­lýs­ingu til að upp­fylla upp­lýs­inga­skil­yrði fyrir almenna fjár­festa, venju­legt fólk. Bara þeir sem hefðu óskil­greindan betri skiln­ingi á því sem þeir væru að kaupa, var boðið að vera með. 

700 millj­ónir fyrir að selja hlut á nokkrum klukku­tímum

Síðar kom í ljós að kaup­end­urnir sem fengu að taka þátt í til­boð­inu voru alls 207 tals­ins og að 85 pró­sent þeirra voru inn­lend­ir. Hlut­irnir voru seldir á nokkrum klukku­tímum og ráð­gjaf­arnir sem valdir voru til að sjá um útboðið fá um 700 millj­ónir króna frá rík­inu fyrir að hafa selt hlut­inn til þessa hóps. 

Tvær grímur runnu á marga þegar kom í ljós að margir þess­ara aðila voru ekki það sem kalla mætti stofn­ana­fjár­festar sem hefðu burði til að styðja við bank­ann til lengri tíma né voru að kaupa í því magni að nauð­syn­legt væri að velja þá til þátt­töku í lok­uðu útboði umfram almenna fjár­festa. Tor­tryggni vakn­aði strax og til­kynn­ingar um kaup stjórn­enda og stjórn­ar­manna Íslands­banka, eða aðila sem tengd­ust þeim, voru birtar í Kaup­höll til að mæta til­kynn­ing­ar­skyldu um inn­herj­a­við­skipti. Þar voru ein­stak­lingar að kaupa fyrir nokkrar millj­ónir króna. Þrýst­ingur var settur á að fá frek­ari upp­lýs­ingar um hverjir hafi fengið að kaupa og við hvert skref sem var stigið í að opin­bera það vökn­uðu fleiri spurn­ing­ar. 

Þeir sem keyptu fyrir minna en 30 millj­ónir króna voru 59 tals­ins. Þeir sem keyptu fyrir minna en 50 millj­ónir voru 79. Alls 167 aðilar keyptu fyrir 300 millj­ónir króna eða minna. Sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem Kjarn­inn hefur aflað er ljóst að sumir þeirra sem sölu­ráð­gjaf­arnir flokk­uðu sem fag­fjár­festa eru ekki skil­greindir sem slíkir í öðrum fjár­mála­fyr­ir­tækj­um. Í því birt­ist það vanda­mál að fyr­ir­tæki í verð­bréfa­miðlun eru með það hlut­verk sam­kvæmt lögum að meta sjálf hvort við­skipta­vinir þeirra upp­fylli skil­yrði þess að telj­ast slík­ur. 

Þá liggur fyrir að margir, bæði inn­lendir og erlend­ir, fag­fjár­festar fengu ekki boð um að vera með þrátt fyrir að sumir þeirra hafi leitað beint eftir því. Hefur Kjarn­inn til að mynda undir höndum tölvu­póst­sam­skipti milli aðila og Banka­sýsl­unnar þar sem leitað var eftir því að stór alþjóð­legur fjár­fest­ing­ar­sjóður fengi að taka þátt í útboð­inu 22. mars. Engin svör bár­ust. Umræddur aðili sem sendi póst­inn er ekki á meðal þeirra sölu­ráð­gjafa sem valdir voru til að sjá um útboð­ið.

Óvar­legt og athuga­semdir

Þrýst­ingur jókst á að birta list­ann yfir þá sem fengu að kaupa. Um rík­is­eign væri að ræða og nauð­syn­legt gegn­sæi þyrfti til svo almenn­ingur treysti því að rétt hefði verið staðið að mál­u­m. 

Fjár­mála- og efna­hags­ráðu­neytið lét loks undan þrýst­ingi og sendi bréf á Banka­sýsl­una 30. mars, átta dögum eftir að salan var frá­geng­in, og bar um lista yfir þá sem keyptu. Banka­sýslan svar­aði sex dögum síðar. Í bréfi hennar sagði að hún hefði leitað lög­fræði­ráð­gjafar hjá LOGOS um hvort stofn­un­inni væri heim­ilt að afhenda eða birta opin­ber­lega upp­lýs­ingar um kaup­end­ur. „Þar kemur meðal ann­ars fram álit þess efnis að vegna laga­á­kvæða um þagn­ar­skyldu væri óvar­legt að nafn­greina kaup­endur í útboð­inu án skrif­legs sam­þykkis við­kom­and­i.“ 

Lárus Blöndal, stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins.
Mynd: Skjáskot/Dagmál

Banka­sýsla rík­is­ins leit­aði jafn­framt eftir afstöðu Íslands­banka til máls­ins, en fyr­ir­tækja­ráð­gjöf og mark­aðsvið­skipti bank­ans gegndu hlut­verki umsjón­ar­að­ila og önn­uð­ust upp­gjör við­skipt­anna. „Þar kemur meðal ann­ars fram að vegna laga­á­kvæða um þagn­ar­skyldu myndi bank­inn gera athuga­semdir við birt­ingu upp­lýs­inga um kaup­endur úr hópi við­skipta­vina bank­ans nema að fengnu sam­þykki þeirra.“

Banka­sýslan komst að þeirri nið­ur­stöður að opin­ber birt­ing á kaup­enda­list­anum væri á skjön við við­teknar venjur á alþjóð­legum mörk­uð­um. „Ein­dregið er mælt gegn slíkri birt­ingu og látið að því liggja að frá­vik frá mark­aðs­fram­kvæmd að þessu leyti kynni að hafa nei­kvæð áhrif á sölu­með­ferð í tengslum við eft­ir­stæðan hlut íslenska rík­is­ins í Íslands­banka.“

Í ljósi alls ofan­greinds taldi Banka­sýsla rík­is­ins sér ekki heim­ilt að birta opin­ber­lega þær upp­lýs­ingar sem ráðu­neytið hefur óskað eft­ir. Rík­is­stjórn­in, undir gríð­ar­legum þrýst­ingi, ákvað hins vegar að birta list­ann á mið­viku­dag eftir að fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra hafði lagt sjálf­stætt mat á hvort það væri lög­legt eða ekki.

Sá veru­leiki sem þar birt­ist hefur leitt til þess að Alþingi var tekið í gísl­ingu í lok vik­unnar vegna krafna stjórn­ar­and­stöðu um að skipuð yrði rann­sókn­ar­nefnd til að fara yfir söl­una. Stjórn­ar­liðar hafa meira að segja gagn­rýnt söl­una. Rík­is­end­ur­skoðun var ræst út til að gera stjórn­sýslu­út­tekt á henni og fyrr­ver­andi nefnd­ar­maður í rann­sókn­ar­nefnd Alþingis um banka­hrunið hefur stigið fram, sagt söl­una ólög­lega og kraf­ist þess að við­skipt­unum verði rift. 

Útgerðin fyr­ir­ferða­mikil

Það var ýmis­legt sem vakti athygli á list­anum yfir kaup­end­ur. Eitt af því er að aðilar sem hafa hagn­ast á útgerð eru fyr­ir­ferða­miklir á meðal þeirra. 

Þar má nefna eign­­ar­halds­­­fé­lagið Stein ehf., sem er í eigu Þor­­steins Más Bald­vins­­sonar for­­stjóra Sam­herja og Helgu S. Guð­­munds­dótt­­ur, fyrr­ver­andi eig­in­­konu hans, sem keypti hluta­bréf í lok­aða útboð­inu fyrir 296,3 millj­­ónir króna. 

Félög sem Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri Samherja, og Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, eiga í keyptu í útboðinu.
Mynd: Samherji

Í Eign­ar­halds­fé­lag­inu Stein​​i er meðal ann­ars 43,48 pró­­sent eign fyrr­ver­andi hjón­anna í Sam­herja Hold­ing ehf., sem heldur utan um erlenda eign Sam­herj­a­sam­stæð­unnar og hlut hennar í Eim­skip. Á meðal eigna sem eru vistaðar inni í Sam­herja Hold­ing er Namib­­íu­­starf­­semi Sam­herja, sem er til umfangs­­mik­illar rann­­sóknar hér­­­lendis vegna meintra mút­u­greiðslna, pen­inga­þvættis og skatta­snið­­göng­u. Þor­steinn Már er með stöðu sak­born­ings í þeirri rann­sókn.

Eign­ar­halds­fé­lagið Steinn átti  hreina bók­­færða eign upp á 61,7 millj­­arða króna í lok árs 2020. 

Kjálka­nes ehf., næst stærsti eig­andi Síld­ar­vinnsl­unnar með 17,44 pró­sent eign­ar­hlut og á meðal stærstu eig­enda Sjó­vár, keypti í Íslands­banka fyrir um 110 millj­ónir króna. Félagið er í Björg­­­­ólfs Jóhanns­­­­son­­­­ar, fyrr­ver­andi for­­­­stjóra Sam­herja, og fólks sem teng­ist honum fjöl­­­­skyld­u­­­­bönd­­­­um. Um er að ræða sama hóp og á útgerð­ar­fyr­ir­tækið Gjög­ur. 

For­stjóri Síld­ar­vinnsl­unn­ar, Gunn­þór Ingva­son, keypti einnig hlut í bank­an­um, bæði í eigin nafni fyrir 2,2 millj­ónir króna og í gegnum félagið Hraun­lón, sem hann á 60 pró­sent hlut í, fyrir 4,5 millj­ónir króna. Gunn­þór og tveir félagar hans í fram­kvæmda­stjórn Síld­ar­vinnsl­unnar urðu sterk­efn­aðir nán­ast yfir nóttu þegar fyr­ir­tækið var sett á markað í fyrra. Í aðdrag­anda þess höfðu þeir keypt félagið Hraun­lón, sem átti hlut í Síld­ar­vinnsl­unni, á 640 millj­ónir króna. Þeir seldu 37 pró­sent þess hlutar í útboð­inu og fengu fyrir 608 millj­ónir króna. Eft­ir­stand­andi hlutur þeirra er met­inn á um 1,6 millj­arð króna.

Stærstu eig­endur Morg­un­blaðs­ins keyptu

Fjár­fest­inga­fé­lagið Krist­inn ehf., í eigu Guð­bjargar Matth­í­as­dóttur og fjöl­skyldu, fékk líka að kaupa nokkuð stóran hlut í Íslands­banka, eða fyrir 468 millj­ónir króna. Guð­björg er stærsti eig­andi Ísfé­lags Vest­manna­eyja og hefur fært út kví­arnar í ótengda geira á und­an­förnum árum. Á meðal þeirra eigna sem fjöl­skylda hennar hefur fjár­fest í er ÍSAM og Árvak­ur, útgáfu­fé­lag Morg­un­blaðs­ins, en félög Guð­bjargar og tengdra aðila eru stærstu eig­end­ur þess og hafa lagt útgáfu­fé­lag­inu til umtals­vert fé á liðnum árum til að mæta miklum tap­rekstri. Þau eru auk þess umsvifa­mikil á fast­eigna­mark­aði og eiga meðal ann­ars Korpu­torg auk fjöl­margra verð­mætra fast­eigna í Skeif­unni.

Guðbjörg Matthíasdóttir og fjölskylda hennar eiga meðal annars Ísfélag Vestmannaeyja og eru stærstu eigendur útgáfufélags Morgunblaðsins.
Mynd: Bára Huld Beck

Stál­­skip, í eigu eigu hjón­anna Guð­rúnar Lár­us­dóttur og Ágústs Sig­­urðs­­sonar og þriggja barna þeirra, keypti fyrir um 225 millj­ónir króna í lok­aða útboð­inu. Stál­­skip var stofnað sem útvegs­­fyr­ir­tæki árið 1970 en seldi fryst­i­­tog­ar­ann sinn og allan kvóta árið 2014. Í kjöl­farið var því breytt í fjár­­­fest­inga­­fé­lag.

Félagið Jakob Val­geir keypti hlut í Íslands­banka fyrir 936 millj­ónir króna í lok­aða útboð­inu. Fyrir átti það hlut í bank­anum sem er met­inn á um tvo millj­arða króna. Þetta félag var áður í eigu útgerða­manns­ins Jak­obs Val­geirs Flosa­son­ar, en meiri­hluta­eig­andi er nú skráður eig­in­kona hans, Björg Hildur Daða­dótt­ir, með 68,9 pró­sent hlut í útgerð­inni. Aðrir skráðir eig­endur eru tveir bræður Jak­obs Val­geirs.

Faðir fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra þurfti að kaupa

Jakob Val­geir og Þor­steinn Már tengj­ast líka öðrum hópi sem á list­anum sem fékk að kaupa og hefur vakið eft­ir­tekt: Þeim sem voru fyr­ir­ferða­miklir í eig­enda- eða við­skipta­manna­hópi gömlu bank­anna fyrir hrun. 

Jakob Val­geir var á sínum tíma stjórn­ar­for­maður og hlut­hafi félags sem fékk nafnið Stím ehf. Það félag var búið til til að kaupa hluti í Glitni banka og FL Group, stærsta eig­anda Glitnis banka, seint á árinu 2007 fyrir 24,8 millj­arða króna á þávirði. Glitn­ir, sem er fyr­ir­renn­ari Íslands­banka, lán­aði Stím að mestu fyrir kaup­un­um. Þegar Stím var gert upp feng­ust ein­ungis 15 millj­ónir króna upp í um 24 millj­arða króna kröf­ur. 

Þor­­steinn Már var svo stjórn­­­ar­­for­­maður Glitnis banka, fyr­ir­renn­­ara Íslands­­­banka, þegar sá banki fór í þrot haustið 2008.

Það eru fleiri með tengsl við fallna banka sem er að finna á list­anum yfir þá sem fengu að kaupa. Bene­dikt Sveins­son, faðir Bjarna Bene­dikts­son­ar, átti um tíma umtals­vert af hluta­bréfum í Glitni og var leystur undan sjálf­skuld­ar­á­byrðum Glitnis á lánum til félags síns Haf­silf­urs þann 29. sept­em­ber 2008, sama dag og til­kynnt var að íslenska ríkið ætl­aði sér að eign­ast 75 pró­sent hlut í Glitni vegna bágrar stöðu hans. Nokkrum dögum síðar varð Glitnir gjald­þrota. Bene­dikt keypti hlut í Íslands­banka í mars í gegnum sama félag, Haf­silf­ur. 

Fyrr­ver­andi stór­leik­endur í banka­kerfi sem hrundi

Einnig var þar að finna félög í eigu fjár­­­festa sem komu að banka­­rekstri hér­­­lendis á árunum fyrir fjár­­­mála­hrun­ið, þegar bank­­arnir urðu gjald­­þrota og voru þjóð­nýtt­­ir. Þeirra á meðal var fjár­­­fest­ing­­ar­­fé­lagið SKEL, en stjórn­­­ar­­for­­maður félags­­ins, Jón Ásgeir Jóhann­es­­son, kom að félögum sem voru á meðal stærstu hlut­hafa Glitnis banka, for­vera Íslands­­­banka, þegar hann féll í októ­ber 2008. Eitt þeirra félaga, FL Group, heitir í dag Stoðir og er stýrt af Jóni Sig­­urðs­­syni. Hann var for­­stjóri FL Group fyrir banka­hrun og sat sem vara­­for­­maður stjórnar Glitn­­is. Stoðir er einnig á meðal kaup­enda í Íslands­­­banka. Á meðal stórra hlut­hafa í FL Group fyrir banka­hrun­ið, og stórra lán­tak­enda hjá Glitni, voru félög í eigu Pálma Har­alds­son­ar. Félag hans, Sól­völl­ur, keypti í Íslands­banka fyrir 225 millj­ónir króna.

Þá keyptu félög í eigu bræðr­anna Lýðs og Ágústs Guð­munds­sona, sem oft­­ast eru kenndir við Bakka­vör, einnig fyrir mörg hund­ruð millj­­ónir króna í útboði 22. mars, en þeir voru stærstu eig­endur Kaup­­þings áður en sá banki hrundi 2008. Lýður var dæmdur til fang­els­is­vistar eftir banka­hrun­ið. Félag í eigu Sig­urðar Val­týs­son­ar, sem starfar fyrir bræð­urna, keypti einnig hlut.

Bræðurnir Lýður og Ágúst Guðmundssynir stýrðu Exista fyrir bankahrun og komu meðal annars fyrir í Panamaskjölunum.
Mynd: Kjarninn

Félagið Lyf og Heilsa hf., sem keypti í lok­aða útboð­inu fyrir rúmum tveimur vik­um, er í eigu Jóns Hilm­­­ars Karls­­­son­­ar. Faðir hans, Karl Wern­er­s­­­son, átti áður félagið en seldi syni sínum það áður en hann varð gjald­­­þrota. Þrotabú Karls höfð­aði í kjöl­farið nokk­ur rift­un­­­­ar­­­­mál þar sem talið var að eign­um hefði verið komið und­an kröf­u­höf­um, meðal ann­­­­ars með því að eign­um Karls væri komið yfir til Jóns Hilm­­­­­­­ars. Karl var aðal­­­eig­andi fjár­­­­­fest­ing­­­ar­­­fé­lags­ins Milestone fyrir banka­hrun, sem var um tíma á meðal stærstu eig­enda Glitn­­­is. Hann hefur setið í fang­elsi fyrir alvar­­leg efna­hags­brot tengd hrun­inu.

Erlendir skamm­tíma­sjóðir sem virð­ast þegar byrj­aðir að selja

Á meðal þeirra sem voru valdir til að kaupa í lok­aða útboð­inu voru líka erlendir sjóðir sem höfðu líka keypt í almenna útboð­inu í fyrra­sum­­­ar. Sex þeirra sem keyptu í bank­­anum í aðdrag­anda skrán­ingar í maí í fyrra seldu bréfin sem þeim var úthlutað innan þriggja daga eftir skrán­ingu með umtals­verðum hagn­aði, en sölu­and­virðið var um fjórir millj­­arðar króna. Á meðal þess­­ara sex voru sjóðir Sil­ver Point Capital, Fiera Capital, Lans­downe Partners og Key Squ­are Partners.

Þrátt fyrir að þessir sjóðir hafi selt sig nán­­ast strax út úr Íslands­­­banka þegar þeir gátu eftir síð­­asta útboð þótti til­­hlýð­i­­legt að bjóða þeim þátt­­töku í lok­aða útboð­inu og veita þeim afslátt af kaup­verði. Sil­ver Point keypti fyrir rúm­­lega 1,3 millj­­arða króna, Lands­down Partners fyrir næstum 556 millj­­ónir króna, Fiera Capi­tal fyrir 468 millj­­ónir króna og KeySqu­are Partners fyrir 409,5 millj­­ónir króna. Sam­tals keyptu þessir fjórir sjóðir því fyrir rúm­­lega 2,7 millj­­arða króna í lok­aða útboð­inu og fengu í stað­inn 5,2 pró­­sent hlut í Íslands­­­banka.

Auk þess var sjóður í stýr­ingu banda­ríska sjóð­­stýr­ing­­ar­­fyr­ir­tæk­is­ins RWC Asset Mana­gement val­inn sem einn horn­­steins­fjár­­­fest­anna í Íslands­­­banka í aðdrag­anda almenna útboðs­ins í fyrra. Sá sjóður fékk þá að kaupa 1,54 pró­­sent hlut á 2,4 millj­­arða króna. Hann hafði selt þorra eignar sinnar um síð­­­ustu ára­­mót og leyst um leið út umtals­verðan hagn­að. Sjóður í stýr­ingu RWC Asset Mana­gement fékk að kaupa hluti fyrir tæp­­lega tvo millj­­arða króna. 

Sam­kvæmt upp­lýs­ingum sem teknar hafa verið saman fyrir Kjarn­ann var velta með bréf í Íslands­banka marg­föld dag­ana eftir útboðið miðað við með­al­við­skipti á dag á árinu fyrir útboð­ið. Það bendir til þess að margir sem keyptu í útboð­inu hafi selt sig niður strax fyrstu dag­anna eftir það. Heim­ildir Kjarn­ans herma að þar sem meðal ann­ars um að ræða erlenda sjóð­i. 

Starfs­menn sölu­ráð­gjafa keyptu

Þá sýnir list­inn að starfs­menn eða makar hjá hluta þeirra fyr­ir­tækja sem voru ráðnir til að finna kaup­endur keyptu sjálfir í útboð­inu. Stærsti eig­andi Íslenskra verð­bréfa er félagið Björg Capi­tal ehf. sem á 50 pró­sent hlut. Þor­björg Stef­áns­dótt­ir, eig­in­kona Jóhann M. Ólafs­sonar fram­kvæmda­stjóra Íslenskra verð­bréfa, er eig­andi Bjargar Capital, sem keypti fyrir 22,5 millj­ónir króna í útboð­inu. Á meðal ann­arra eig­enda Íslenskra verð­bréfa er félag í eigu Sam­herja og Kjálka­nes, í eigu sömu aðila og eiga útgerð­ina Gjög­ur. 

Íslandsbanki var á meðal umsjónaraðila í útboði á hlutum í bankanum sjálfum.
Mynd: Íslandsbanki

Fyr­ir­tækja­ráð­gjöf og verð­bréfa­miðlun Íslands­banka voru á meðal umsjón­ar­að­ila útboðs­ins. Tveir starfs­menn verð­bréfa­miðl­unar bank­ans, Ómar Özcan sem keypti fyrir 27 millj­ónir króna, og Geir Oddur Ólafs­son sem keypti minnst allra þeirra sem voru sam­þykkt­ir, eða fyrir rúm­lega 1,1 milljón króna, tóku þátt í útboð­inu. Þá keypti Brynjólfur Stef­áns­son, sjóðs­stjóri hjá Íslands­sjóð­um, sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tækis í eigu Íslands­banka, fyrir 4,5 millj­ónir króna, Guð­mundur Magnús Daða­son, sem starfar í gjald­eyr­is­miðlum bank­ans, keypti fyrir 5,5 millj­ónir króna og Ásmundur Tryggva­son, sem er fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tækja- og fjár­fest­inga­sviðs, keypti fyrir 11 millj­ónir króna. Þá keypti Ari Dan­í­els­­­son, stjórn­­­­­ar­­­maður í Íslands­­­­­banka, fyrir 55 millj­­­ónir króna, og Rík­­­harður Daða­­­son, sam­býl­is­­­maður Eddu Her­­­manns­dóttur mark­aðs- og sam­­­skipta­­­stjóra bank­ans, keypti fyrir tæpar 27 millj­­­ónir króna.

Inn­herji greindi svo frá því í gær að for­stöðu­maður eigna­stýr­ingar Festu líf­eyr­is­sjóðs, Baldur Snorra­son, hafi sjálfur keypt hlut í Íslands­banka sam­hliða líf­eyr­is­sjóðnum sem hann starfar fyr­ir, en hann keypti fyrir tæpan millj­arð króna. 

Grun­aður um að hafa rýrt eignir Íslands­banka en fékk að kaupa

Þórður Már Jóhann­es­son, fyrr­ver­andi stjórn­ar­for­maður Fest­is, keypti fyrir meira en 100 millj­ónir króna í útboð­inu. Hann þurfti að segja af sér stjórn­ar­for­mennsku í Festi fyrr á árinu vegna meints kyn­­ferð­is­brots hans og tveggja ann­­arra manna gagn­vart konu haustið 2020. Kon­an, Vítalía Laz­areva, kærði menn­ina til lög­reglu fyrir skemmst­u. 

Kári Þór Guð­jóns­son, sem á einka­hluta­fé­lagið Nolt, keypti fyrir um 45 millj­ónir króna í útboð­inu. Hann er með stöðu sak­born­ings í hinu svo­kall­aða Skelj­ungs­máli ásamt fimm öðrum ein­stak­ling­um. Einn hinna er Einar Örn Ólafs­son, stór hlut­hafi í Stoðum sem keypti líka í Íslands­banka. Kári og Einar unnu saman í fyr­ir­tækja­ráð­gjöf Íslands­banka og eru grun­aðir um að hafa mis­­­notað aðstöðu sína til að koma eignum út úr banka á und­ir­verði að hafa nýtt sam­eig­in­­­legar eignir Skelj­ungs og bank­ans til að greiða fyrir kaup í félag­inu, að hafa vilj­andi rýrt eignir Íslands­­­­­banka og að hafa gert með sér sam­komu­lag sem tryggði hvorum þeirra yfir 800 millj­­­ónir króna fyrir þeirra aðkomu að mál­inu.

Þórður Már Jóhannesson var nýverið kærður til lögreglu. Tvö félög í hans eigu keyptu hlut í Íslandsbanka.
Mynd: Festi

Ýmis önnur nöfn hafa einnig vakið athygli þar sem þau hafa hingað til ekki verið tengd við fag­fjár­fest­ing­ar. Má þar nefna að félagið Ban­ana­lýð­veld­ið, í eigu uppi­stand­ar­ans og athafna­manns­ins Björns Braga Arn­ars­son­ar, fékk að kaupa fyrir 17,6 millj­ónir króna, upp­ljóstr­ar­inn Hall­dór Krist­manns­son fékk að kaupa fyrir 69,4 millj­ónir króna og félag í eigu Sölva Blön­dal, tón­list­ar­út­gef­anda og –manns, keypti fyrir tæpar níu millj­ónir króna.

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar