Arnar Þór Ingólfsson

„Allir eiga skilið að vera með hreinan kodda undir höfðinu“

Viðbragð Póllands við einni stærstu flóttamannabylgju frá seinna stríði hefur verið borið uppi af almenningi og hjálparsamtökum. Katarzyna Skopiec leiðir ein slík samtök. Kjarninn ræddi við hana og Nilofar Ayoubi frá Afganistan í Varsjá á dögunum.

„Amma mín hýsti 39 manns, gyð­inga, á meðan á Hel­för­inni stóð. Þau voru ann­arrar trúar og höfðu aðra siði. En það skipti engu, mann­eskja er mann­eskja,“ segir hin pólska Katarzyna Skopiec í sam­tali við Kjarn­ann. Blaða­maður ræddi við hana og Nilofar Ayou­bi, flótta­konu, frum­kvöðul og mann­rétt­inda­frömuð frá Afganistan, á rólegum veit­inga­stað í úthverfi Var­sjár undir lok mars­mán­að­ar.

Katarzyna stendur ásamt eig­in­manni sínum í stafni fyrir mann­úð­ar­sam­tökin Huma­nosh, sem hafa starfað árum saman við að aðstoða flótta­fólk í Pól­landi. Sam­tökin eru stofnuð í minn­ingu ömmu hennar og afa, Słöwu og Isydor Wołos­i­ański sem földu 39 gyð­inga í kjall­ar­anum hjá sér í heila 22 mán­uði á meðan nas­istar voru með Pól­land á sínu valdi í síð­ari heimst­styrj­öld.

Á und­an­förnum þremur árum hefur starf­semi sam­tak­anna farið vax­andi og Katarzyna og sam­starfs­fólk hennar hafa helst unnið að mál­efnum flótta­fólks frá Bela­rús, fólks sem hefur flúið ofsóknir Alex­and­ers Lúk­asjenkós – síð­asta ein­ræð­is­herr­ans í Evr­ópu.

Einnig vinna sam­tökin með flótta­fólki frá öðrum ríkj­um, eins og Nilof­ar, eig­in­manni hennar og þremur börn­um, sem komust til Var­sjár í fyrra eftir að talí­banar náðu völdum í Afganist­an. Vest­rænir fjöl­miðlar fjöll­uðu um flótta hennar og fjöl­skyldu hennar til Pól­lands í fyrra, en hún var á svörtum lista talí­bana, ver­andi kona sem átti fyr­ir­tæki og vann að kven- og mann­rétt­inda­bar­áttu. Nú leggur hún sjálf Úkra­ínu­mönnum í Pól­landi lið og vinnur meðal ann­ars með sam­tökum Katarzynu.

Fyrir rúmum tveimur árum opn­uðu Huma­nosh fyrsta skýlið fyrir ofsótta Hví­trússa og hefur síðan þá hýst yfir 500 manns í athvörfum í Var­sjá og suð­ur­hluta Pól­lands; boðið upp á tíma­bundna griða­staði þar sem flótta­fólk getur dvalið og komið sér á fætur á meðan það leitar atvinnu, var­an­legs dval­ar­staðar og skóla­vistar fyrir börn­in.

Að aðstoða um 600 Úkra­ínu­menn frá degi til dags

Fyrir rúmum mán­uði umturn­að­ist svo starf­semi sam­tak­anna, er inn­rás Rússa í Úkra­ínu sendi af stað hol­skeflu fólks, aðal­lega kvenna og barna yfir landa­mærin til Pól­lands og ann­arra landamæra­ríkja.

„Núna frá því að stríðið braust út höfum við end­ur­skipu­lagt skýlið okk­ar, til þess að geta tekið á móti fleira fólki. Þar geta nú 25 dvalið í einu. Svo opn­uðum við líka annað skýli, þar sem einnig geta dvalið 25 flótta­menn. Skýl­unum er stýrt af kon­um, bæði frá Bela­rús og Úkra­ín­u,“ segir Katarzyna í sam­tali við Kjarn­ann.

Hún býr í Var­sjá en starf­semi sam­tak­anna er þó að mestu í suð­ur­hluta Pól­lands. Alls segir hún að sam­tökin séu þar að aðstoða um 600 manns í dag. „Þau eru í mis­mun­andi hús­um, en við önn­umst þau að mestu. Við færum þeim mat, veitum þeim aðstoð í sam­skiptum við yfir­völd og gefum þeim ráð um hvað skuli ger­a,“ segir Katarzyna.

Sjálf var hún með alls sex flótta­menn inni á heim­ili sínu þegar blaða­maður ræddi við hana undir lok mars, fjögur sem nýlega höfðu komið frá Úkra­ínu og tvær afganskar stúlkur að auki.

Katarzyna segir að fyrstu dag­arnir eftir að flótta­fólk tók að streyma til Pól­lands hafi verið erf­ið­ir, en fjöldi sjálf­boða­liða á vegum sam­taka hennar var starf­andi í grennd við landa­mær­in.

„Við buðum fram aðstoð í Premyzl og á landa­mær­unum og þetta var mjög erfitt og mjög pirr­andi, því það var engin aðstoð og engar upp­lýs­ingar í upp­hafi. Fólk var að bíða klukku­stundum saman eftir rútum og var að stíga upp í rútur án nokk­urra skíl­ríkja og án þess að vita nokkuð hvert það væri að fara. Það var ískalt, en við komum með mat­ar­að­stoð og reyndum að hjálpa yfir­völdum í landamæra­bæj­un­um,“ segir Katarzyna.

Þrótt­ur­inn gæti fjarað út

Hún sagði það hafa verið ótrú­legt að sjá hvernig fólk skipu­lagði sig undir eins, til þess að takast á flótta­mannaflaum­inn. „Fólk tók saman höndum og það var magnað að sjá sam­taka­mátt pólsku þjóð­ar­inn­ar. En nú er staðan aðeins farin að versna. Flótta­fólk er fast í húsum ein­hvers ókunn­ugs fólks og það er þreyt­andi að búa með ein­hverjum sem þú þekkir ekki,“ segir Katarzyna og á þá við að það sé bæði þreyt­andi fyrir þá sem hafa boðið fram gist­ingu og flótta­fólkið sjálft.

„Þú hefur séð fjölda flótta­fólks­ins á lest­ar­stöðv­unum hérna í Var­sjá,“ segir Nilof­ar. „Þetta er eins í Kraká, og í Szczecin. Í öllum hornum Pól­lands er fólk að hýsa flótta­fólk. Og andi góð­gerða svífur yfir vötn­um,“ segir hún.

„En við erum kannski ekki góð í að veita stöðuga hjálp yfir lengri tíma,“ ­segir Katarzyna og Nilofar segir að það sé eins alls staðar í Evr­ópu.

Nilofar Ayoubi ræðir við blaðamann Kjarnans í Varsjá á dögunum.
Mynd: Katarzyna Skopiec

„Þegar það er stríð ein­hvers­staðar þá er allt blásið upp og umræðan er á þá leið að fólk ætli að hjálpa, taka við flótta­mönn­um. En svo fjarar áhug­inn út. Og það sama finnst mér vera að ger­ast með Úkra­ínu. Það verða færri og færri og færri fréttir og færri fylgj­ast með tíst­unum hans Zel­en­skís [Úkra­ínu­for­seta] og þau fá minni við­brögð,“ segir Nilof­ar.

Telur þörf á betri upp­lýs­ingum um ferðir til ann­arra ríkja

Sam­tök Katarzynu voru undir lok mars að fá afhent stórt atvinnu­hús­næði í mið­borg Var­sjár, sem þau ætla að breyta í mót­töku­mið­stöð fyrir Úkra­ínu­menn, þar sem boðið verður upp á mat, sál­fræði­að­stoð og aðstoð af ýmsu tagi. Meðal ann­ars verða veitt ráð um hvernig kom­ast megi áfram til ann­arra ríkja og hvað geti beðið fólks þar, en Katarzyna segir að flótta­fólk frá Úkra­ínu sé margt hvert smeykt við að setj­ast upp í rútur til fjar­lægra landa.

Hún telur líka að upp­lýs­inga­flæði til Úkra­ínu­manna um hvernig sé hægt að kom­ast annað og hvað geti beðið á áfanga­stað sé ábóta­vant, þrátt fyrir að fjöldi evr­ópskra hjálp­ar­sam­taka vinni að því að flytja fólk frá Pól­landi og til ann­arra landa, eins og Kjarn­inn fjall­aði nýlega um.

„Fyrir nokkrum dögum síðan sagði vinur minn við mig að ann­ars vegar væru sumir Úkra­ínu­menn að fara aftur yfir landa­mærin bara vegna þess að það væri ekki hægt að finna neinn stað hér, en á sama tíma vissi hann til þess að hálf­tóm rúta væri á leið­inni til Nor­egs. Ég held að það sé skortur á upp­lýs­ingum um þetta og ég vil reyna að beita mér í því. Ég held að þetta muni ganga hjá okk­ur,“ segir Katarzyna.

„Á ein­hvern hátt gerum við upp á milli flótta­fólks“

Blaða­maður spurði hvort við­brögð pólsks almenn­ings við komu flótta­fólks frá Úkra­ínu hefðu komið henni á óvart.

„Já! Af því að ég er búin að vera að hjálpa Hví­trússum og það hefur stundum verið erfitt að útskýra fyrir fólki af hverju við þurfum að hjálpa því fólki. En þar er búið að vera að þagga niður í fólki sem mót­mælir stjórn­völd­um, þau hafa verið send í gúlög og drep­in. En það var erfitt að útskýra það fyrir pólsku fólki,“ svarar Katarzyna.

Hún nefnir einnig þá atburða­rás sem fór af stað við landa­mæri Pól­lands og Bela­rús síð­asta haust, er fjöldi flótta­fólks, aðal­lega frá Mið­aust­ur­lönd­um, reyndi að kom­ast yfir til Pól­lands, sem harð­neit­aði þeim inn­göngu og gerir enn. Pólska rík­is­stjórnin hefur meinað bæði læknum og hjálp­ar­sam­tökum að kom­ast að landa­mær­un­um, þar sem koma flótta­mann­anna að landa­mærum Evr­ópu­sam­bands­ins var runnin undan rifjum stjórnar Lúk­asjenkós.

Börn í flóttamannabúðum í Belarús í nóvember. Þar eru enn þúsundir manna sem vilja sækja um vernd í ríkjum Evrópusambandsins, en hafa verið hrakin á brott.
EPA

Þrátt fyrir mann­úð­ar­krís­una sem skap­að­ist og varir enn við landa­mærin í kjöl­far þessa alls segir Katarzyna að það hafi ekki verið mikil samúð á meðal pólsks almenn­ings í garð fólks­ins sem þarna, þó að flestum megi vera ljóst að þær þús­undir sem leit­uðu inn­göngu til Pól­lands séu peð í aðgerðum Lúk­asjenkós. Nýlegar fréttir hafa borist af því að her­menn í Bela­rús hafi neytt flótta­fólk til þess að fara yfir til Úkra­ínu síðan að inn­rás Rússa hófst.

„Á ein­hvern hátt gerum við upp á milli flótta­fólks, þeim sem okkur líkar við og þeim sem okkur líkar ekki við. Mín leið til að hugsa um þetta er sú að mann­eskja sé mann­eskja og að allir eiga skilið að vera með hreinan kodda undir höfð­inu. Öll börn ættu að njóta mennt­unar og vera örugg. Úkra­ínsk, hví­trúss­nesk, afgönsk, sýr­lensk. Þau þurfa það sama og við og við ættum ekki að gera upp á milli fólks,“ segir Katarzyna.

Spurð um fram­tíð­ina, og hvort hún telji að hjálp­semi pólsk almenn­ings muni fara þverr­andi ef stríðið dregst á lang­inn, seg­ist hún óviss. „Hjá sumum kannski, en sumum ekki. Ég held að í öllum málum hér í Pól­landi sé þetta svona 50/50. Von­andi geta þau sem eru áfram um að hjálpa tekið á móti fleira fólki, eða þá að flótta­fólk finni aðrar lausnir,“ segir Katarzyna.

Við ræðum aðeins pólsku rík­is­stjórn­ina, sem Katarzyna telur að muni ekki gera neitt í mál­efnum Úkra­ínu­manna, umfram algjöran lág­marks fram­færslu­stuðn­ing við fólk. Stuðn­ingur stjórn­valda við hjálp­ar­sam­tök sem eru að veita flótta­mönnum lið er í algjöru skötu­líki, segir Katarzyna.

„Ég er búin að vera í tvö og hálft ár að hjálpa fólki frá Bela­rús og hef ekki fengið svo mikið sem penní. Ég hef átt í vand­ræðum með að skaffa mat fyrir flótta­fólkið mitt og þau sögð­ust ætla að hjálpa og ég sótti um en það gerð­ist ekk­ert. Það er engin hjálp frá rík­is­stjórn­inni. Ég held að það trúi því ekki nokkur maður að rík­is­stjórnin muni hjálpa nein­um.“

Flótta­fólk á þó að fá ákveð­inn lág­marks fram­færslu­styrk. „Þau munu fá fram­færslu, en þetta gengur allt rosa­lega hægt. Sumt fólk á bók­aðan tíma hjá hinu opin­bera til þess að skrá sig fyrir fram­færslu og kenni­tölu í maí. Þau geta ekki beðið fram í maí. Þau þurfa ein­falda hluti, skjól, rúm til að sofa í, mat og ein­hvern félags­skap til þess að líða vel. Þess vegna reyni ég að koma eins mörgum fyrir og mögu­legt er heima og í mínum skýl­u­m,“ segir Katarzyna.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiViðtal