Óflokkað

Vinna að því alla daga að koma Úkraínumönnum frá Póllandi

Pólskur sjálfboðaliði sem vinnur með sænskum samtökum að því að skipuleggja ferðir flóttafólks frá Varsjá til Svíþjóðar segir Pólland ekki geta hýst alla sem þar eru í dag á öruggan hátt. Koma þurfi fólki í burtu svo Pólland hafi pláss fyrir aðra stóra bylgju flóttafólks frá Úkraínu, ef stríðsátökin versna enn. Sænsku samtökin eru bara ein af mörgum sem eru starfandi í Varsjá þessa dagana að því að koma úkraínsku flóttafólki til annarra ríkja Evrópu.

Þegar flótta­fólk frá Úkra­ínu kemur inn á lest­ar­stöðvar í stærstu borgum Pól­lands bíða þeirra skilti, þar sem þeim er tjáð að tæki­færin í Pól­landi bíði þeirra fremur í litlum borgum en þeim sem stærri eru.

„Smærri borgir í Pól­landi veita meiri mögu­leika á því að fá hús­næði, lægri fram­færslu­kostnað og auknar líkur á því að fá starf. Stórar borgir í Pól­landi eru þegar ofsetn­ar. Ekki vera hrædd við að fara til minni bæja: þeir eru frið­sæl­ir, með góða inn­viði og henta vel,“ segir á skilti við afgreiðsl­una á lest­ar­stöð í aust­ur­hluta Var­sjár, sem blaða­maður Kjarn­ans heim­sótti á dög­un­um.

Þar, rétt eins og á lest­ar­stöð­inni í mið­borg­inni, er nokkuð stöð­ugur straumur flótta­fólks frá Úkra­ínu að koma frá suð­ur­hluta lands­ins. Mörg þeirra hafa litla hug­mynd um hvert væri best að leita í fram­hald­inu, en í grunn­inn má segja að flótta­fólkið frá Úkra­ínu skipt­ist í tvo hópa.

Ann­ars vegar eru það þau sem eiga ein­hver tengsl í Pól­landi eða öðrum lönd­um, fjöl­skyldu eða vini sem hægt er að dvelja hjá um hríð, og svo þau sem búa ekki við þann munað og eru komin út í algjöra óvissu. Og þurfa aðstoð.

Hve lengi end­ist vel­vilji almenn­ings?

Í Var­sjá rétt eins og flestum borgum og bæjum Pól­lands opn­aði sam­fé­lagið arma sína við upp­haf inn­rásar Rússa í Úkra­ína og fjöl­margir íbúar tóku fólk á flótta inn á heim­ili sín. En það kom­ast ekki allir fyrir inni á heim­ilum og í höf­uð­borg­inni er búið að koma upp all­nokkrum mið­stöðvum þar sem flótta­fólk getur dvalið tíma­bund­ið.

Heima­menn sem Kjarn­inn ræddi við í Var­sjá síð­ustu vik­una segja flestir að þeir sem á annað borð hafi ætlað sér að hjálpa til og taka inn flótta­fólk séu nú þegar búnir að því, auk þess sem margir hafi álitið að það að hýsa flótta­fólkið inni á heim­ilum yrði tíma­bund­ið.

Lítil merki eru þó um að pólska rík­is­stjórn­in, sem á und­an­förnum árum hefur verið afar andsnúin því að taka á móti flótta­fólki, sé reiðu­búin undir það sem margir ótt­ast að sé framundan – að tíma­bundin og eft­ir­tekt­ar­verð bylgja góð­vildar hund­ruða þús­unda almennra borg­ara í garð flótta­fólks frá Úkra­ínu fjari smám saman út.

Og hvað ef átökin í Úkra­ínu harðna enn og fleiri flótta­menn þurfa á skjóli að halda?

Hjálp­ar­sam­tök víða að úr Evr­ópu eru að reyna að létta undir með Pól­verjum og hjálpa fólki áleiðis til ann­arra ríkja, sum í nánu sam­starfi við sveit­ar­fé­lög í sínum heima­lönd­um. Kjarn­inn ræddi við full­trúa nokk­urra slíkra sam­taka í Var­sjá á dög­un­um.

Fólk þreyt­ist á að gista með þús­undum ann­arra

Ein stærsta mið­stöðin sem sett hefur verið upp fyrir flótta­fólk í Var­sjá er í ráð­stefnu­mið­stöð­inni PTAK Expo, sem liggur sunnan við borg­ina. Þar eru all­nokkrar risa­stórar bygg­ing­ar, hver um sig álíka stór og Korpu­torg. Tvær þeirra hafa und­an­farnar vikur verið helg­aðar mót­töku flótta­fólks frá Úkra­ínu og tíma­bund­inni gisti­að­stöðu fyrir allt að tíu þús­und manns verið vippað upp.

Nótt­ina áður en blaða­maður Kjarn­ans heim­sótti mið­stöð­ina höfðu um fjögur þús­und manns, aðal­lega konur og börn, gist á þessum stað. Búið er að koma upp bráða­birgð­ar­útu­stöð í hluta einnar bygg­ing­ar­inn­ar, þar sem sam­tök sem skipu­leggja rútu­ferðir til ann­arra ríkja í Evr­ópu voru búin að koma upp skrán­ing­ar­bás­um. Hinir ýmsu þjóð­fánar blöstu við á skjáum á veggj­unum – sá danski, eist­neski, spænski og franski auk ann­arra.

Lucie, sjálfboðaliði á vegum franskra samtaka sem skipuleggja rútuferðir frá Varsjá.
Arnar Þór Ingólfsson
Franskur sjálfboðaliði afmarkar brottfararsvæði fyrir þau sem höfðu skráð sig í rútu sem átti að halda beina leið til borgarinnar Tours.
Arnar Þór Ingólfsson

Blaða­maður gaf sig á tal við sjálf­boða­liða frá frönskum sam­tökum sem voru að störfum við að skrá fólk í rútu sem stefndi til borg­ar­innar Tours í Frakk­landi, en borg­ar­yf­ir­völd þar hafa lýst sig til­búin til þess að taka á móti fólki beint frá Var­sjá. „Þar bíða þeirra stuðn­ings­fjöl­skyldur og borg­ar­yf­ir­völd munu veita þeim aðstoð sál­fræð­inga, og félags­ráð­gjafa, frönsku­nám­skeið fyrir börnin og síðan mun sveit­ar­fé­lagið útvega þeim íbúðir til lengri tíma,“ sagði Lucie, franskur sjálf­boða­liði sem búsett er í Var­sjá, við blaða­mann.

En afhverju er fólk að velja að fara til Frakk­lands? „Það er mis­jafnt, sum hafa ein­hver tengsl og lærðu til dæmis frönsku í skóla og þekkja til tungu­máls­ins, en sumir aðrir eru búnir að vera hérna í tvær vikur að sofa í sal með allt að tíu þús­und öðrum og eru orðin þreytt á því, vilja bara kom­ast eitt­hvert ann­að,“ sagði Lucie.

Flýr til Spánar en for­eldr­arnir ætla til Rúss­lands

Á lest­ar­stöð­inni í mið­borg Var­sjár eru ungir spænskir sjálf­boða­lið­ar, sem flest eru Erasmus-­skiptinemar í borg­inni, búin að sitja frá morgni til kvölds und­an­farnar vikur við að halda utan um skrán­ingu flótta­fólks í rútur til Spánar fyrir hönd spænskra hjálp­ar­sam­taka.

Spænskir sjálfboðaliðar sem standa vaktina í Varsjá.
Arnar Þór Ingólfsson

„Við erum búin að flytja um tvö þús­und manns héð­an,“ sagði Alex, einn sjálf­boða­lið­anna, við Kjarn­ann. Er blaða­maður leit við á lest­ar­stöð­inni á mánu­dags­kvöld var 17 ára strákur frá Úkra­ínu með spænsku ung­menn­un­um.

Hann var búinn að skrá sig í rútu til Spánar dag­inn eft­ir, var einn á ferð og ætl­aði einn spænsku sjálf­boða­lið­anna að skjóta yfir hann skjóls­húsi yfir nótt, í stað þess að beina honum í Expo-mið­stöð­ina með þús­undum ann­arra.

Úkra­ínu­mað­ur­inn ungi var að flýja heim­ili sitt og í reynd for­eldra sína líka, en þau styðja Vla­dimír Pútín og vildu flytja frá Úkra­ínu til Rúss­lands.

Ver­andi sam­kyn­hneigður sá hann ekki bjarta fram­tíð fyrir sjálfan sig í áformum for­eldr­anna um flutn­inga til Rúss­lands Pútíns og kaus að halda til Spán­ar, með ekk­ert nema eina íþrótta­tösku með­ferð­is.

Heild­ar­pakki inn í nýtt líf í Sví­þjóð

Á hót­eli í mið­borg Var­sjár hafa sænsku sam­tökin A Dem­and for Act­ion verið með aðstöðu undir starf­semi sína, en á annað þús­und manns hafa nú þegar fengið far með rútum sam­tak­anna til Sví­þjóð­ar.

Tveir sjálf­boða­liðar sam­tak­anna, Jakub frá Pól­landi og Olena frá Úkra­ínu, ræddu við blaða­mann Kjarn­ans um starfið á laug­ar­dag. „Við erum þegar búin að hjálpa yfir 1.300 manns til Sví­þjóð­ar. Við erum að skipu­leggja ferð­irnar okkar í sam­starfi við sveit­ar­fé­lög og flótta­manna­stofnun Sví­þjóð­ar, svo að þau eru til­búin að taka á móti þeim. Við erum ekki bara að flytja fólk­ið, heldur mætti kalla þetta heild­ar­pakka hjálp­ar, það er það sem þau þurfa,“ segir Jakub.

Olena og Jakub eru sjálfboðaliðar á vegum sænsku samtakanna A Demand for Action.
Arnar Þór Ingólfsson

Hann bætir því við að flest þau sem kjósi að fara til Sví­þjóðar geri það ekki vegna þess að þar eigi þau eigi þar ein­hverjar teng­ing­ar, heldur séu ein­ungis að leita að besta staðnum fyrir sig og fjöl­skyldu sína.

„Í Pól­landi erum við núna að hýsa um tvær millj­ónir flótta­manna. Pól­land ein­fald­lega ræður ekki við þennan fjölda, við þurfum að finna þeim öruggt skjól utan Pól­lands. Þetta var fyrsta bylgjan sem kom hingað og miðað við gang stríðs­ins mun því ekki ljúka fljót­lega. Við verðum að sjá til þess að það sé laust pláss í Pól­landi til þess að við getum tek­ist á við næstu bylgju, sem ég held að því miður muni kom­a,“ segir Jakub.

Olena er frá Úkra­ínu en var þegar komin til Var­sjár í atvinnu­leit þegar inn­rás Rússa hófst. „Þegar stríðið hófst gat ég ekki hugsað um að leita mér að vinnu, mig lang­aði að hjálpa Úkra­ínu­mönnum og land­inu mínu eins mikið og ég gat. Og þess vegna fór ég að vinna með A Dem­and for Act­ion“.

Olena og Jakub segja blaða­manni að þau kjósi að vera með starf­semi sína og skrán­ingar í rútur í ró og næði á hót­el­inu, en ekki í stærri mót­töku­mið­stöðvum flótta­fólks í Var­sjá, þar sem ringul­reið ríki. „Þar er ekki hægt að veita fólki neitt öryggi, við viljum hitta fólk hér, kynna þau fyrir Sví­þjóð og útskýra hvernig allt ferlið þeirra verð­ur,“ segir Jakub.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnArnar Þór Ingólfsson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar