Mynd: GAMMA

Fyrrverandi starfsmaður GAMMA fór í mál til að fá bónusinn sinn ... og vann

Fjármálafyrirtækið GAMMA fór með himinskautunum um tíma, en féll með látum á árinu 2019 og er ekki til í sömu mynd lengur. Starfsmenn þess áttu þá inni kaupauka sem stjórn félagsins ákvað að borga ekki, enda fjarað undan tekjum GAMMA og umtalsvert tap á rekstrinum síðustu árin. Einn starfsmaðurinn sætti sig ekki við þetta og fór í mál. Héraðsdómur úrskurðaði honum í hag fyrr í þessum mánuði.

Hér­aðs­dómur Reykja­víkur hefur kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að fyrr­ver­andi starfs­maður fjár­mála­fyr­ir­tæk­is­ins GAMMA eigi að fá greiddar kaupauka­greiðslur sem sam­þykktar voru seint á árinu 2018 og snemma árs 2019 og voru grund­vall­aðar á afkomu fyr­ir­tæk­is­ins á árunum 2017 og 2018. 

Stjórn GAMMA ákvað fyrir einu og hálfu ári að aft­ur­kalla greiðsl­urnar í ljósi þess að úttekt hafði sýnt að greiðsl­urnar höfðu verið ákvarð­aðar á röngum for­send­um. Staða GAMMA hefði ein­fald­lega verið verri en látið var uppi. Þessi rök héldu hins vegar ekki fyrir dómi.

GAMMA skil­aði umtals­verðum hagn­aði á fyrra árinu sem kaupauk­arnir voru grund­vall­aðir á, 2017, en hann var sam­tals 626 millj­ónir króna á því ári. Þóknana­greiðsl­urnar sem höfðu verið inn­­heimtar voru áfram rúm­­lega tveir millj­­arðar króna og alls voru heilir 137 millj­­arðar króna í stýr­ingu. Á grund­velli þessa árang­urs voru ekki bara greiddir út bónusar til starfs­manna, heldur 300 millj­óna króna arð­greiðsla til eig­enda, sem sumir hverjir voru líka starfs­menn. 

Strax á árinu 2018 fóru að birt­ast merki um erf­ið­leika hjá GAMMA. Gísli Hauks­son, sem hafði veitt fyr­ir­tæk­inu for­ystu frá upp­hafi og var stærsti hlut­hafi þess, steig alfarið til hliðar og fok­dýrri erlendri starf­semi var lokað í skref­um. 

Tekjur dróg­ust hratt saman en kostn­aður að sama skapi ekki eins mikið og þurft hefði. Sam­tals tap­aði GAMMA 584 millj­­ónum króna á árunum 2018 og 2019.

Upp­haf varð upp­hafið að enda­lok­unum

Þegar árs­­reikn­ing­­ur­inn fyrir 2018 var birtur sást betur glitta í hina breyttu stöðu. Þókn­anna­greiðslur höfðu dreg­ist veru­­lega sam­an, úr rúm­­lega tveimur millj­­örðum króna í 1,3 millj­­arð króna. Tekjur GAMMA í heild minn­k­uðu um rúm­­lega 800 millj­­ónir króna, eða um rúm­­lega þriðj­ung. Rekstr­­ar­­kostn­aður hafði hins vegar auk­ist. 

Staðan var enn verri í árs­lok 2019. Kostn­aður vegna launa og launa­tengdra gjalda var alls um 90 pró­­sent af hreinum rekstr­­ar­­tekjum GAMMA á því ári og öll rekstr­­ar­­gjöld voru um 380 millj­­ónum krónum hærri en hreinar rekstr­­ar­­tekj­­ur. 

Í augum almenn­ings var upp­hafið að enda­lokum GAMMA þegar greint var frá miklum brota­lömum í rekstri fast­eigna­fé­lags­ins Upp­hafs, sem var í eigu sjóðs í stýr­ingu GAMMA sem kall­að­ist GAMMA Novus. Við end­ur­mat eigna sjóðs­ins var eigið fé hans fært úr 4,4 millj­örðum króna niður í nán­ast ekki neitt. Úttekt á starf­semi hans leiddi til þess að greiðslur til fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóra Upp­hafs voru kærðar til emb­ættis hér­aðs­sak­sókn­ara á árinu 2020. Líf­eyr­is­sjóðir og aðrir fjár­festar töp­uðu háum fjár­hæðum á því að fjár­festa í GAMMA Novus.

GAMMA er ekki lengur til í þeirri mynd sem það var á þessum árum. Kvika banki keypti fyr­ir­tækið og sam­ein­aði það inn í sína sjóð­stýr­ingu. Upp­haf­lega ætl­aði Kvika að greiða 3,8 millj­arða króna fyrir GAMMA. Í byrjun árs 2020 var verð­mið­inn fyrir GAMMA kom­inn niður í 2,1 millj­arð króna vegna þess að yfir­lega hafði sýnt að eign­irnar sem verið var að kaupa voru mun súr­ari en áður talið var. 

Ný stjórn aft­ur­kall­aði kaupauka­greiðsl­urnar

Stjórn GAMMA tók breyt­ingum sum­arið 2020. Kvika banki setti inn sitt fólk. Hún ákvað í sept­em­ber það ár að aft­ur­kalla kaupauka­greiðslur upp á tugi millj­óna króna til ell­efu fyrr­ver­andi starfs­manna fjár­mála­fyr­ir­tæk­is­ins. Samn­ing­arnir voru sam­þykktir seint á árinu 2018 og snemma árs 2019 og voru grund­vall­aðir á góðri afkomu GAMMA á árunum 2017 og 2018. Auk þess krafð­ist stjórnin þess að tveir starfs­mann­anna, Ingvi Hrafn Ósk­ars­son og Valdi­mar Ármann, myndu end­ur­greiða kaupauka sem þeir höfðu þegar fengið greidda út. 

Í frétt Mark­að­ar­ins um mál­ið, sem birt var 20. sept­em­ber 2020, kom fram að á meðal þeirra fyrr­ver­andi starfs­manna GAMMA sem áttu ekki að fá kaupauka sína greidda væru lyk­il­starfs­menn innan GAMMA, þeir Agnar Tómas Möller og Jón­mundur Guð­mars­son. 

Einn þeirra sem fékk ekki kaupauk­ann sinn greiddan út hafði hætt störfum hjá GAMMA snemma árs 2019. Hann fékk, líkt og aðr­ir, bréf þann 17. sept­em­ber 2020 þar sem þiggj­endum kaupaukanna var til­kynnt um að þeir væru aft­ur­kall­að­ir. Í bréf­inu kom fram að ákvörðun um kaupauka­greiðslur hefðu verið „tekin á grund­velli rekstr­ar­ár­ang­urs félags­ins á árunum 2017 og 2018“. 

Gæti haft for­dæm­is­gildi

Síðar í bréf­inu sagði að óháð úttekt á starf­semi GAMMA hefði m.a. leitt í ljós að „að­ferða­fræði við mat á afkomu félags­ins hafi ekki verið for­svar­an­leg og mati á virði eigna sjóða var ábóta­vant“. Þá sagði að vegna þessa og ann­arra atvika hefði ákvörðun um kaupauka árin 2018 og 2019 verið byggð á röngum for­send­um. Fjár­hags­staða og afkoma félags­ins á tíma­bil­inu sem kaupaukar hefðu verið veittir fyrir hefði ein­fald­lega verið mun verri en fyr­ir­liggj­andi upp­lýs­ingar hefðu gefið til kynna. 

Gísli Hauksson, annar stofnandi GAMMA og lengi stærsti hluthafi fyrirtækisins. Hann hætti alfarið störfum fyrir það 2018, þegar farið var að halla verulega undan fæti.
Mynd: Skipan.is

Umræddur maður mót­mælti þessu og fór fram á að GAMMA, sem þá hafði runnið inn í Kviku, myndi greiða sér kaupauk­ann. Og fór í mál þegar því var neitað á ný. 

Hér­aðs­dómur Reykja­víkur komst að þeirri nið­ur­stöðu 11. mars síð­ast­lið­inn að GAMMA ætti að greiða mann­inum kaupaukann, alls 1,2 millj­ónir króna, auk drátt­ar­vaxta. Í nið­ur­stöð­unni segir meðal ann­ars: „Stefndi  hef­ur  í  mál­inu  ekki  fært  fram  við­hlít­andi  rök  fyr­ir  því  að  til­skil­inni frammi­stöðu stefn­anda eða við­skipta­ein­ingar hans hafi ekki verið náð þannig að rétt hafi verið að hafna greiðslu eft­ir­stöðva kaupaukans. Stefndi hefur raunar ekki upp­lýst á neinn hátt hver þau við­mið voru og hvernig þeim var, að hans mati, ekki náð. Af þessu verður stefndi að bera hall­ann.“

Mað­ur­inn sem stefndi er ekki nefndur í dómnum en miðað við umfang kaupauka­greiðsl­urnar er ljóst að hann hefur verið á meðal þeirra úr hóp starfs­manna GAMMA sem hafði áunnið sér einna lægstu greiðsl­urn­ar. 

Við­mæl­endur Kjarn­ans segja að dóm­ur­inn sé tal­inn hafa for­dæm­is­gildi og á grund­velli hans gætu að minnsta kosti ein­hverjir aðrir fyrr­ver­andi starfs­menn GAMMA, sem áttu að fá stærri kaupauka, sótt hann.  GAMMA er, líkt og áður sagði vart til leng­­ur, nema að nafn­inu til. Fyr­ir­tækið var flutt úr höf­uð­stöðvum sínum í nóv­em­ber 2019 og þeir sjóðir þess sem enn eru í rekstri hafa verið inn­lim­aðir í rekstur Kviku banka. 

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar