MYND: GAMMA

Árið 2019: Endalok GAMMA

Fjármálafyrirtækið GAMMA var mikið til umfjöllunar í haust vegna þess að hluti sjóða þess reyndust ekki jafn burðugir og áður hafði verið greint frá. Vöxtur GAMMA á þeim rúma áratug sem það var sjálfstætt fyrirtæki var hraður og margir högnuðust vel á viðskiptum sínum við það.

Sumarið 2008, nánar tiltekið í júní, tók til starfa nýtt fjármálafyrirtæki. Því var valið nafnið GAM Management, en hefur aldrei verið þekkt undir öðru nafni en GAMMA. 

Stofnendurnir voru tveir, þeir Gísli Hauksson og Agnar Tómas Möller. Þeir höfðu áður starfað saman í Búnaðarbankanum og Kaupþingi. 

Líklega er vart hægt að velja verri tíma til að stofna nýtt fyrirtæki á fjármálamarkaði, sem ætlaði sér að einbeita sér að sjóðastýringu. GAMMA var skráð hjá fyrirtækjaskrá rúmum fjórum mánuðum áður en nánast allt íslenska bankakerfið hrundi. 

Fókusinn var nokkuð skýr til að byrja með: á skuldabréfamarkaðinn sem stofnendurnir töldu óplægðan akur. MP Banki, sem síðar varð að Kviku, keypti 37 prósent hlut í fyrirtækinu og það fékk starfsleyfi sem rekstrarfélag verðbréfasjóða 20. mars 2009, þegar Ísland var í miðju efnahagslegu öngþveiti og enn átti eftir að komast til botns í endurfjármögnun nýju viðskiptabankanna þriggja. 

Starfsmennirnir hjá GAMMA voru fjórir og allt var mjög smátt í sniðum. Fyrsta heila rekstrarárið voru stofnaðir tveir sjóðir sem áttu samanlagt hreina eign upp á 2,6 milljarða króna í lok árs 2009. Tap af rekstrinum, sem snerist um að rukka umsýsluþóknanir fyrir að annars daglegan rekstur sjóðanna, var 15,3 milljónir króna. 

Fasteignafjárfestingarnar fleyta GAMMA upp á yfirborðið

GAMMA fór hins vegar að vaxa strax á árinu 2010 og á því ári nam hagnaður af rekstri fyrirtækisins 76 milljónum króna. Árið síðar var hagnaðurinn kominn upp í 125,3 milljónir króna. Sjóðirnir í stýringu voru ekki nema sex, þrír verðbréfasjóðir og þrír fagfjárfestasjóðir. Hrein eign þeirra óx hins vegar og var 17,1 milljarður króna í árslok 2011. 

Á því ári varð þó breyting á hjá GAMMA. Þá voru stigin skref inn á markað sem hafði ekki verið fyrirferðamikill hjá fyrirtækinu áður og átti eftir að reynast því ábatasamur en leiða líka til samfélagslegrar úlfúðar í garð þess, fasteignamarkaðinn.

Árið 2011 var Sölvi Blöndal, hagfræðingur sem var þekktastur fyrir að hafa verið trommari og driffjöður hljómsveitarinnar Quarashi, og Ásgeir Jónsson, þá efnahagsráðgjafi GAMMA og lektor við Háskóla Íslands en í dag seðlabankastjóri, beðnir um að skrifa skýrslu um fasteignamarkaðinn á Íslandi. Þar kom fram að húsnæðisverð hefði lækkað mikið árið 2009 og hefði ekki náð sér eftir það. Lítið sem ekkert hafði þá verið byggt af nýju húsnæði á Íslandi frá hruni og von var á risastórum árgöngum á markaðinn. Leiguverð hefði sömuleiðis lækkað eftir hrunið og leiga væri 20 til 30 prósent lægri að raunvirði en hún hafði verið árið 2007. Niðurstaða skýrslunnar var að fyrirsjáanlegur skortur væri á húsnæði og að það væri tækifæri að myndast til að fjárfesta í íbúðarhúsnæði. 

Skýrslan var kynnt fyrir hópi fjárfesta á lokuðum fundi í lok árs 2011. Þeir sáu tækifærin sömuleiðis og tveir fagfjárfestasjóðir, GAMMA: Centrum og GAMMA:  Eclipse, voru settir á laggirnar til að kaupa upp lítið og meðalstórt íbúðarhúsnæði í miðborg Reykjavíkur og grónum hverfum í kringum hana. Það var gert án þess að mikið færi fyrir því. Það lá á að ná að kaupa eins mikið og hægt væri áður en að aðrir rynnu á lyktina. Það tókst vel. 

Veðjuðu rétt en gagnrýndir mjög

Tveimur árum síðar var eftirspurnin eftir leiguhúsnæði orðin margfalt framboðið á slíku. Búið var að stofna leigufélag, sem síðar fékk nafnið Almenna leigufélagið, utan um útleigu íbúðanna sem sjóðirnir sem GAMMA stýrðu höfðu keypt, sem voru nokkur hundruð. Ljóst var á þróun íbúða- og leiguverðs að greiningin sem sett hafði verið fram í lok árs 2011 hafði verið hárrétt. Og hækkanir meira að segja meiri en menn reiknuðu með. Fjárfestar, sem voru meðal annars lífeyrissjóðir, högnuðust vel og hróður GAMMA sem sjóðstýringarfyrirtækis óx. 

En fjárfesting í íbúðarhúsnæði er ekki eins og að fjárfesta í verðbréfum eða atvinnuhúsnæði. Hún getur haft bein áhrif á daglegt líf fólks. Fyrir því fékk GAMMA að finna.

Fyrirtækið var gagnrýnt fyrir að hafa skrúfað upp leiguverð, fyrir að beita þrýstingi á íbúðareigendum í fjölbýlishúsum sem sjóðir þess höfðu keypt sig inn í til að selja og fyrir að vera erfitt í samstarfi við aðra íbúðareigendur þegar kom að viðhaldi.Forsíða Kjarnans 30. janúar 2014. 

Í viðtali við Fréttatímann sáluga sem birt var 22. mars 2013 sagði Svanur Guðmundsson, þá formaður Félags löggiltra leigumiðlara:„ „Þeir eru að búa til bólu sem springur eins og graftarkýli á unglingi. Þeir eru líka eins og unglingar á þessum markaði. Þetta eru bara verðbréfamiðlarar sem eru í öðrum heimi. Það kæmi mér ekkert á óvart að leiguverðið þyrfti að hækka um fimmtíu prósent til að standa undir verði eignanna. Þessir menn eru ekki tengdir inn á hinn almenna borgara.“

Forsvarsmenn GAMMA tóku gagnrýninni illa og töldu hana ómaklega. Þeir bentu á að þeir væru hvorki ráðandi á leigumarkaði og að stóraukin útleiga á íbúðarhúsnæði til ferðamanna í gegnum AirBnB hefði miklu meiri áhrif til hækkunar á leiguverði en umsvif sjóða GAMMA. 

Áfram veginn

Umfjöllunin dró hins vegar ekkert úr vexti GAMMA. Árið 2012 var hagnaður félagsins 225 milljónir króna og ári síðar 182,6 milljónir króna. Stofnendurnir og MP banki voru enn langstærstu eigendurnir en í hópinn hafði bæst Straumnes eignarhaldsfélag, í eigu Ara, Bjargar og Kristínar Fenger. Það gerðist í kjölfar þess að Jón Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri FL Group og eiginmaður Bjargar Fenger, gekk til liðs við GAMMA sumarið 2012 til að stýra sérhæfðum fjárfestingum. Hann hætti störfum þar árið 2016.. 

Auk þess eignuðust lykilstarfsmennirnir Lýður Þór Þorgeirsson, Guðmundur Björnsson og Valdimar Ármann á þessum árum minni hluti. Í árslok 2013 voru ársverkin orðin 14, sjóðirnir í stýringu orðnir 20 (þar af fjórtán fagfjárfestasjóðir) og hrein eign sjóðanna samanlagt um 30,5 milljarðar króna.

Mesti vöxturinn var samt sem áður eftir. Árið 2014 var hagnaðurinn 258,3 milljónir króna og 416,6 milljónir króna árið eftir. Arðgreiðslur urðu gerlegar og samtals voru greiddir úr 300 milljónir króna í slíkan á árunum 2013 og 2014. 100 milljónir króna bættust við árið eftir.  

Þegar þarna var komið við sögu höfðu helstu einstaklingarnir á bak við GAMMA keypt hlut MP banka á rúmar 200 milljónir króna, en það gerðist í byrjun árs 2014. Miðað við þann verðmiða var virði fyrirtækisins um einn milljarður króna. Arðgreiðslurnar dugðu langleiðina fyrir kaupverðinu. 

Þegar komið var inn á árið 2016 voru ársverkin orðin 21, sjóðirnir 33 og eignir í stýringu 112 milljarðar króna. Alls voru 25 þeirra fagfjárfestasjóðir, þar sem oftar en ekki er tekin meiri áhætta í von um meiri hagnað á þeim fjárfestingum sem ráðist var í. Oft skilaði þessi áhættutaka GAMMA, sem hagnaðist áfram sem áður á umsýslu- og árangurstengdum þóknunum auk sem rekstrarfélagið sjálft átti hlutdeildarskírteini í sjóðum, góðum arði. 

Styrktu menningu og vildu einkafjárfesta í innviðafjárfestingu

Það fór að vera völlur á GAMMA þegar fyrirtækið fór að stækka ört. Strax 2011 var til að mynda greint frá því að GAMMA myndi vera aðalstyrktaraðili Sinfóníuhljómsveitar Íslands.GAMMA flutti í stærra húsnæði í Garðastræti í upphafi árs 2014. Þar var útbúið gallerí til að sýna samtímalist, Gallery GAMMA. Síðar gerðist fyrirtækið aðalstyrkaraðili Reykjavíkurskákmótsins og bakhjarl Hins íslenska bókmenntafélags.

Gísli Hauksson tók þátt í að stofna hugveituna Rannsóknarsetur um nýsköpun og hagvöxt árið 2012 ásamt mönnum á borð við Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði, Jónas Sigurgeirsson bókaútgefanda og Jónmund Guðmarsson, þá framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins sem átti síðar eftir að ganga til liðs við GAMMA.

Ári síðar tók hann við sem formaður fjármálaráðs Sjálfstæðisflokksins, stöðu sem hann gegnir enn. Það ráð hefur aðallega það hlutverk að afla fjár fyrir flokkinn.

GAMMA fór líka að gera umfangsmiklar greiningar á sviðum sem fyrirtækið hafði ekki verið á áður og birta þær opinberlega í formi skýrslna. Árið 2013 var gefin út skýrsla um mögulega lagningu sæstrengs til Íslands og áhrifa þess á íslensk heimili og komist að þeirri niðurstöðu að nær öruggt væri að hann myndi auka þjóðhagslegan ábata Íslendinga.

Þremur árum síðar gaf GAMMA út stóra skýrslu um innviðafjárfestingar þar sem hvatt var til þess að hleypa einkafjárfestum að slíkum. Heildar­umfang verkefna sem nefnd voru í skýrslu GAMMA og voru talin henta í einkafjármögnun nam ríflega 900 milljörðum króna. Meðal fleiri verkefna sem þar voru nefnd var mögulegur sæstrengur, gagnaflutningsfyrirtæki, orkufyrirtæki og lest milli Keflavíkur og Reykjavíkur.

GAMMA vann líka að beinni þátttöku í skilgreindum innviðaverkefnum. Sjóður fyrirtækisins samdi meðal annars um að fjármagna hina umdeildu Hvalárvirkjun og GAMMA myndaði um tíma vinnuhóp með lögfræðistofunni LEX til að skoða byggingu Sundabrautar í einkaframkvæmd.

Á því ári varð methagnaður bókfærður, alls 846 milljónir króna. GAMMA hafði haft alls rúma tvö milljarða króna í þóknanatekjur. Þær höfðu tvöfaldast á milli ára. Arðgreiðslan nam 300 milljónum króna, en hluthöfunum hafði fjölgað nokkuð þegar hér var komið við sögu. Þeir Jónmundur Guðmarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins sem hafði þá hafið störf hjá GAMMA, og Ragnar Jónasson, metsöluhöfundur sem hafði verið ráðinn yfirlögfræðingur GAMMA á árinu 2015, voru báðir komnir í hluthafahópinn. Gísli og Agnar voru enn langstærstir þar, með sitt hvorn 31 prósent hlutinn. 

Tækifærin í haftalosun reyndust dýr

Frá árinu 2015 og fram á vorið 2017 voru stiginn stærstu skrefin í átt að afnámi fjármagnshaftanna sem sett höfðu verið upp eftir hrunið. Þegar þeim var lyft gátu innlendir fagfjárfestar, sérstaklega lífeyrissjóðir, loks leitað út fyrir landsteinana eftir fjárfestingu. 

Lífeyrissjóðirnir þurfa enda að finna fjáfestingartækifæri fyrir á annað hundrað milljarða króna á hverju ári og voru komnir upp í topp í þátttöku í flestum verkefnum á Íslandi. Raunar var staðan orðin þannig að þeir sem stóðu fyrir verkefnunum, á vettvangi ýmissa fjármálafyrirtækja, vissu að margir lífeyrissjóðir þyrftu líklega að taka þátt í þeim vegna þess að þeir hefðu úr fáum öðrum tækifærum að moða. Flóki Hall­dórs­son, þáverandi fram­kvæmda­stjóri ­sjóð­stýr­ing­ar­fyr­ir­tæk­is­ins Stefnis sem er í eigu Arion banka, orðaði stöðuna ágætlega á fundi sem haldinn var í maí 206. Þar sagði að ef lífeyrissjóðirkæmust ekki  út úr höftum fljótlega þá verði þeir farnir að kaupa „sjón­vörp og þvotta­vél­ar“ eftir nokkur miss­eri. Allir aðrir fjár­fest­inga­kostir verð­i ­upp­urn­ir. 

GAMMA, og fleiri í íslenskum fjármálaheimi, ætluðu að vera tilbúnir fyrir þessa breytingu. Sumarið 2015 hafði fyrirtækið fengið heimild til að hefja starfsemi í London og á fyrstu mánuðum ársins 2017, þegar höftin voru að mestu afnumin, opnaði GAMMA líka skrifstofur í New York og Sviss. 

Gísli Hauksson, annar stofnandi GAMMA, fór að einbeita sér að starfsemi fyrirtækisins erlendis síðustu árin sem hann starfaði fyrir það.
Mynd: Skipan.is

Samhliða þessum áherslubreytingum var skipulagi GAMMA breytt. Í febrúar 2017 var greint frá því að Gísli Hauksson, sem hafði þá flutt til London, myndi hætta sem forstjóri og gerast stjórnarformaður. Auk þess ætlaði hann að stýra uppbyggingu á starfsemi GAMMA í New York og London. Valdimar Ármann settist í forstjórastólinn. Lýður Þór hætti störfum en Ingvi Hrafn Ósk­ars­son kom inn sem fram­kvæmda­stjóri sér­hæfðra fjár­fest­inga og fyr­ir­tækja­verk­efna. 

Í lok árs 2017 virtist allt enn í blóma. Hagnaðurinn var 626 milljónir króna á árinu. Þóknanagreiðslurnar sem höfðu verið innheimtar voru áfram rúmlega tveir milljarðar króna og alls voru heilir 137 milljarðar króna í stýringu. Ekki slæmur árangur hjá fyrirtæki sem hafði stýrt 2,6 milljörðum króna níu árum áður. Arðgreiðslurnar ákveðnar 300 milljónir króna. Engar slíkar voru hins vegar á endanum greiddar út á árinu 2018.

Það voru erfiðleikar fram undan.

Dýrt að starfa í útlöndum

Erlenda starfsemin reyndist afar kostnaðarsöm. Fréttablaðið greindi frá því að rekstrarkostnaður GAMMA hefði aukist um 65 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 vegna þeirra. Á árinu í heild jókst hann um 32 prósent og nam tæplega 1,4 milljarði króna. 

Í mars 2018 var tilkynnt um að Gísli myndi alfarið hætta störfum fyrir GAMMA, en myndi vera áfram stærsti hluthafi félagsins. Í tilkynningu sagði að hann myndi nú einbeita sér að eigin fjárfestingum og fjölskyldu sinnar, stjórnarsetu í fyrirtækjum og verkefnum á sviði menningarmála. Fyrirtækið væri í góðum höndum samstarfsmanna til margra ára „og veit ég að GAMMA verður áfram í fremstu röð fjár­mála­fyr­ir­tækja.“

Mánuði áður hafði skrifstofunni í Sviss verið lokað, innan við ári eftir að hún var opnuð. Mikil umræða átti sér stað milli aðila á fjármálamarkaði að allt væri ekki eins og það ætti að vera hjá GAMMA og ljóst var að fyrirtækið ætlaði sér að reyna að einbeita sér meira að sjóðstýringu, en minna á mikilli áhættufjárfestingu líkt og verið hafði árin á undan, og hafði gefist vel.

Í júní í fyrra barst tilkynning til Kauphallar Íslands um að viljayfirlýsing hefði verið undirrituð um kaup bankans á öllu hlutafé í GAMMA. Kaupverðið átti að vera tæplega 3,8 milljarðar króna, og greiðast með annars vegar reiðufé og hins vegar hlutafé í Kviku. „Tilteknar eignir“ yrðu hins vegar undanskildar. Þar var um að ræða meðal annars starfsmannaleiguna Elju, sem er einn stærsti leikandinn á þeim markaði hérlendis, og verktakastarfsemi sem meðal annars leigði sumum þeirra starfsmönnum sem Elja flutti inn húsnæði. Stærsti eigandi Elju í dag eru Arnar Hauksson, bróðir Gísla, en hann hafði áður starfað hjá GAMMA. Auk þess eru Pétur Árni Jónsson, framkvæmdastjóri Heildar fasteignafélags sem rekið var að GAMMA og aðaleigandi Viðskiptablaðsins, og Jón Einar Eyjólfsson á meðal eigenda. 

Fengu lán hjá Stoðum

Í september keyptu tveir sjóðir í stýringu hjá GAMMA skuldabréf í frægu skuldabréfaútboði WOW air, sem þá háði dauðastríð, fyrir tvær milljónir evra. Flugfélagið fór síðan í þrot í mars síðastliðnum og litlar sem engar líkur eru taldar á því að nokkuð fáist upp í 138 milljarða króna almennar kröfur í búið. Viðræðurnar við Kviku stóðu enn yfir á þessum tíma og ljóst að eitthvað var ekki í lagi í lausafjárstöðu GAMMA. Haustið 2018 lánaði fjárfestingafélagið Stoðir GAMMA einn milljarð króna gegn því að fá 15 prósent vexti fyrir viðvikið. Stjórnarformaður Stoða er í dag Jón Sigurðsson, sem starfaði, líkt og áður sagði, um tíma hjá GAMMA og eiginkona hans var á meðal eigenda fyrirtækisins. 

Þegar tilkynnt var að saman hefði náðst um kaup Kviku á GAMMA hafði verðmiðinn lækkað verulega. Nú var samanlagt verð sagt 2,4 milljarðar króna en ekkert átti lengur að greiðast með hlutafé í Kviku. Eigendur GAMMA áttu að fá 839 milljónir króna í reiðufé en restina í hlutdeildarskírteinum í sjóðum GAMMA og í formi árangurstengdra greiðslna sem áttu að „greiðast þegar langtímakröfur á sjóði GAMMA innheimtast.“

Ármann Þorvaldsson, þáverandi forstjóri Kviku, sagði í tilkynningu að það væri „mikill fengur fyrir Kviku að fá góðan hóp til liðs við sig.“ Gísli Hauksson sagði að það fælust mikil „tækifæri í þeirri breytingu að kaupverðið sé greitt að hluta til í hlutdeildarskírteinum sjóða félagsins auk þess sem hluthafar munu njóta góðs af áframhaldandi góðum rekstri sjóðanna.“

Þegar ársreikningurinn fyrir 2018 var birtur sást betur glitta í hina breyttu stöðu. Þóknannagreiðslur höfðu dregist verulega saman, úr rúmlega tveimur milljörðum króna í 1,3 milljarð króna. Tekjur GAMMA í heild minnkuðu um rúmlega 800 milljónir króna, eða um rúmlega þriðjung. Rekstrarkostnaður hafði hins vegar aukist. 

Alls tapaði GAMMA 268 milljónum króna í fyrra. Það var í fyrsta sinn frá árinu 2009 sem tap hafði orðið á rekstrinum. 

Kaupverðið lækkar hratt

Eftirlitsaðilar samþykktu samruna Kviku og GAMMA í mars 2019 og í kjölfarið fengu Stoðir 150 millj­­óna króna þóknunina sína fyrir að veita GAMMA lán sem var að fullu greitt upp í byrjun mars 2019, eða strax eftir að Kvika banki hafði gengið formlega frá kaupunum á GAMMA. Skrifstofu GAMMA í New York var lokað og skrifstofunni í London rennt inn í Kviku Securities.

Áfram var þó kvittur um að ekki væri allt eins og af hefði verið látið hjá GAMMA. Í hálfsársuppgjöri Kviku banka fyrir árið 2019 kom til að mynda skýrt fram að áhyggjur voru af stöðu sjóða í stýringu hjá GAMMA. 

Um mitt þetta ár hafði Kvika einungis greitt tæplega 1,4 milljarð króna af kaupverðinu. Auk þess er greint frá því í hálfsársuppgjöri Kviku að 200 milljónir króna af kaupverðinu myndu verða lagðar inn á svokallaðan escrow-reikning til að mæta mögulegum kröfum sem Kvika banki gæti gert vegna kaupanna næstu þrjú árin eftir að kaupin voru frágengin. Ef slíkar kröfur myndast ekki á tímabilinu verður fjárhæðin greidd út til fyrrverandi eigenda GAMMA. 

Vegna þess að stór hluti kaupverðs Kviku banka á GAMMA er bundinn í árangurstengdum þóknunum þá liggur áhættan á því að eignir GAMMA súrni hjá fyrrverandi eigendum félagsins, ekki bankanum. 

Súrir sjóðir

Í lok júní var greint frá því að tveimur fjárfestingarsjóðum félagsins, GAMMA: Total Return Fund og GAMMA: Global, hefði verið lokað og sjóðsfélögum tilkynnt að við slit þeirra yrðu þeim fjármunum sem myndu fást við sölu eigna ráðstafað til hlutdeildarskírteinishafa. Skömmu áður en að ofangreindum tveimur sjóðum var lokað þá var fjórum sjóðum GAMMA rennt saman við sjóði Júpíters, sem er líka í eigu Kviku banka. 

Í byrjun september 2019 var svo greint frá því að stjórn Kviku banka hefði ákveðið að sameina alla eigna- og sjóða­­stýr­ing­­ar­­starf­­semi sam­­stæð­unn­­ar í eitt dótturfélag. GAMMA yrði þá ekki lengur til sem sjálfstæð eining þegar fram liðu stundir. Samhliða þeirri tilkynningu var greint frá því að Valdimar Ármann myndi hætta sem forstjóri GAMMA.

Í lok þess mánaðar kom stóri skellurinn. Greint var frá því, með tilkynningu til Kauphallar, að tveir sjóðir í stýringu GAMMA væru í mun verra standi en gert hafði verið ráð fyrir. Um var að ræða sjóði í efsta lagi áhættu sem gæti mögulega skilað mikilli ávöxtun, og fjárfestar í þeim áttu að vita að þeir væru að taka þátt í verkefnum sem gætu súrnað. Það kom hins vegar flestum í opna skjöldu þegar annar sjóðurinn var færður niður að nánast öllu leyti, og hinn að miklu leyti.

 Fagfjárfestar sjá fram á umtalsvert tap vegna þessa, en þó er um litlar upphæðir að ræða t.d. þegar horft er á heildareignir lífeyrissjóðakerfisins. Hægt er að lesa ítarlega umfjöllun um sjóðina hér að neðan.

Eigið fé sem þurrkaðist út

Í lok september sendi Kvika banki frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands þar sem greint var frá því að tveir fag­fjár­festa­sjóð­ir, Novus og Anglia, hefðu verið í mun verra ásig­komu­lagi en gert hafði verið ráð fyrir og að skráð gengi þeirra hefði verið lækkað sem því nem­ur. Kjarninn greindi síðar frá því að Novus, sem á fasteignafélagið Upphaf, hafi verið með 4,4 milljarða króna í bókfært eigið fé um síðustu áramót en að það hafi nánast þurrkast út, og væri nú metið á 42 milljónir króna. Í einblöðungi sem sendur var út til hlutdeildarskírteinishafa kom fram að raunveruleg framvinda verkefnisins hafi verið ofmetin.

Novus hafði ráðist í skuldabréfaútboð í sumar og náð sér í 2,7 milljarða króna á mjög háum vöxtum. Ljóst er að þeir sem keyptu í því útboði voru mátulega tortryggnir gagnvart getu sjóðsins til að standa við fyrirheit um að borga þeim til baka á 15 prósent vöxtum eftir tvö ár, þar sem þeir tóku veð í fjölmörgum eignum, meðal annars öllu hlutafé í Upphafi fasteignafélagi, Upphafi fasteignum og fjórum öðrum félögum. Auk þess voru ýmsar fjárkröfum settar að veði og hlutdeildarskírteini í eigu Upphafs í Almenna leigufélaginu eignarhaldssjóði. Þeir voru því með belti og axlabönd, eins og það er kallað.

Hlutdeildarskírteinishafar töpuðu hins vegar umtalsverðu. Novus hafði þegar greitt út 850 milljónir króna í arð en ljóst var að milljarðar sem lagðir höfðu verið inn myndu ekki endurheimtast. Á meðal þeirra sem færðu niður eignir vegna þessa voru tryggingafélögin TM, VÍS og Sjóvá, sem töpuðu samtals 610 milljónum króna. Auk þess höfðu lífeyrissjóðir og einkafjárfestar lagt sjóðnum til fé.

Til að Upphaf geti klárað þau verkefni sem það er með í gangi, en félagið er að byggja á þriðja hundrað íbúðir á höfuðborgarsvæðinu, vantaði milljarð króna í viðbót. Í byrjun viku samþykktu skuldabréfaeigendurnir sem keypt höfðu útgáfuna í sumar að breyta skilmálum hennar og lækka vexti hennar niður í sex prósent. Þá samþykktu þeir að leggja Upphafi til milljarðinn sem upp á vantar samkvæmt nýjustu greiningu svo hægt sé að hámarka endurheimtir. Kvika banki lagði sjálfur til helming þeirrar upphæðar. Í tilkynningu sem GAMMA sendi frá sér vegna þessa kom fram að stjórn fyrirtækisins liti þá stöðu sem upp væri komin mjög alvarlegum augum og að Fjármálaeftirlitið hefði verið upplýst um stöðu sjóðsins. Auk þess hefði stjórnin áðið Grant Thornton sem óháða sér­fræð­inga til þess að fara yfir mál­efni Novus og Upp­hafs. „Á grund­velli nið­ur­stöðu úttektar þeirra verður lagt mat á hvaða frek­ari aðgerða verður gripið til að upp­lýsa um mál­ið. Jafn­framt munu stjórn­endur vinna með hag­höfum að frek­ari upp­lýs­inga­öflun og verður fundur eig­enda sjóðs­ins boð­aður innan skamm­s.“ Á meðal þess sem verið er að skoða er hvort að greiðslur hafi runnið frá Upphafi til félaga sem tengjast fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins, starfsmannaleigunnar Elju, í eigu bróður fyrrverandi forstjóra GAMMA, og verkfræðistofunnar Ferils, samkvæmt frétt Fréttablaðsins.

Hinn sjóðurinn sem var færður niður, GAMMA: Anglia, var stofnaður sumarið 2017. Um var að ræða fast­eigna­sjóð í London sem átti að fjár­festa í hinum ýmsu verk­efn­um. Í frétt Við­skipta­blaðs­ins frá þeim tíma var haft eftir Gísla Hauks­syni að frá­bær tíma­punktur væri fyrir Íslend­inga til að fjár­festa erlend­is. Ákveðið hefði verið að setja sjóð­inn á lagg­irnar í kjöl­far frétta um aflétt­ingu hafta á Íslandi og að umfang hans væri fimm milljarðar króna. Þeir sem settu fé í sjóð­inn voru íslenskir einstaklingar, tryggingafélag og lífeyrissjóðir.

Gengi þess sjóðs, sem fyrir lá að fylgdi mikil áhætta en líka mikil hagnaðarvon ef forsendur hefðu gengið upp, var fært niður úr 105 í 55.

Endalokin

GAMMA er vart til lengur, nema að nafninu til. Í nóvember var tilkynnt að fyr­ir­tækið myndi flytja starf­semi sína úr Garða­stræti 37 og í Katrín­ar­tún 2, eða turn­inn í Borg­ar­túni. Þar var starf­semin að fullu sam­einuð Kviku.

Nær allir lykilstarfsmenn GAMMA eru horfnir frá, margir með yfirlýsingum um að þeir hafi verið fyrir nokkru ákveðið að breyta til, og hefðu alls ekki verið reknir. Hinn góði hópur sem forstjóri Kviku hlakkaði til við að fá til liðs við bankann þegar hann keypti GAMMA er orðinn ansi þunnur, raunar teljandi á fingrum annarrar handar. Helst ber að nefna að Agnar Tómas Möller, annar stofnandi GAMMA er forstöðumaður skuldabréfamarkaða hjá Júpíter, dótturfélagi Kviku, og Jónmund Guðmarsson, sem starfar innan eignastýringar Kviku. 

Á heimasíðu GAMMA eru nú taldir upp níu starfsmenn. Þar af eru fimm sem voru færðir yfir frá Kviku á þessu ári. Auk þeirra er einn starfsmaður í móttöku, lögfræðingur, fjármálastjóri og einn af gömlu eigendunum, Guðmundur Björnsson. 

Fullvissa Gísla Haukssonar þegar hann kvaddi GAMMA, um að fyrirtækið sem hann stofnaði rétt fyrir hrun myndi áfram verða í fremstu röð fjármálafyrirtækja, virðist ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. 

Fyrirtækið GAMMA, sem flaug hátt, stækkaði ört, skilaði mörgum viðskiptavinum sínum arðsemi um tíma, hafði umtalsverð áhrif á íslenskt samfélag með atferli sínu, var gagnrýnt harkalega en hafði hagnast um samtals tæpa 2,5 milljarða króna á áratug og greitt eigendum sínum um 700 milljónir króna í arð, virðist hafa ratað á lokametra tilvistar sinnar á liðnu ári. Að minnsta kosti þeirrar tilvistar sem var. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar