Ljósleiðaraáskriftir á Íslandi fóru í fyrsta sinn yfir eitt hundrað þúsund á fyrri hluta ársins 2021. Þær voru alls 101.744 í lok júní síðastliðins og hefur fjölgað um 21 þúsund á tveimur árum, eða 26 prósent. Alls eru 72 prósent allra internettenginga hérlendis nú í gegnum ljósleiðara.
Á sama tíma hefur ADSL-tengingum fækkað umtalsvert og sú leið í internettenginum virðist á undanhaldi. Frá miðju ári 2019 hefur þeim fækkað um næstum þriðjung og voru 38.311 um mitt ár 2021.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýrri tölfræði skýrslu Fjarskiptastofu sem áður hét Póst- og fjarskiptastofnun, um fjarskiptamarkaðinn sem sýnir stöðuna um mitt ár 2021.
Nova bætt mest við sig
Síminn er það fjarskiptafyrirtæki sem er með mesta markaðshlutdeild á internetmarkaði, eða 44,8 prósent. Fjöldi internetviðskipta fyrirtækisins dróst hins vegar saman milli ára um rúmlega 2.500 manns og hlutdeildin minnkaði um 2,4 prósentustig.
Vodafone, sem tilheyrir Sýn-samstæðunni, hefur líka tapað viðskiptavinum og markaðshlutdeild á undanförnum tveimur árum. Um mitt ár 2019 var markaðshlutdeild þess fyrirtækis 32,1 prósent á internetmarkaðnum en er nú 27,4 prósent. Alls hefur viðskiptavinum Vodafone fækkað um 5.637 á tveimur árum.
Nova hefur bætt við sig á þessu tímabili og fjölgað áskrifendum að internetþjónustu hjá sér um 48 prósent frá miðju ári 2019. Þeir eru nú 22.133 og markaðshlutdeild fyrirtækisins er 15,6 prósent.
Aðrir leikendur á markaðnum eru með 2,8 prósent markaðshlutdeild.
Þeim fækkar sem leigja myndlykil til að horfa á sjónvarp
Fjöldi þeirra sem er með sjónvarp yfir IP-net, sem er það sjónvarp sem miðlað er í gegnum ADSL- eða ljósleiðaratengingar í myndlykla sem leigðir eru af fjarskiptafyrirtækjum, hefur fækkað umtalsvert á undanförnum árum samhliða því að streymisveitur á borð við Netflix, Amazon Prime, Viaplay og Disney+ hófu innreið sína inn á íslenskan sjónvarpsmarkað. Hægt er að horfa á slíkar í gegnum öpp á sjónvarpi og öðrum tækjum án þess að myndlykil þurfi til.
Tvö fyrirtæki bjóða upp á myndlykla til að horfa á sjónvarp yfir IP-net, Síminn og Vodafone, sem er hluti af Sýnarsamstæðunni. Um mitt ár 2017 voru 103.205 áskrifendur að sjónvarpi yfir IP-net. Í lok júní síðastliðins var sá fjöldi kominn niður í 88.289 og hafði þeim sem velja þá leið til að miðla sjónvarpi fækkað um 14,5 prósent á fjórum árum.
Síminn, sem rekur sjónvarpsþjónustuna Sjónvarp Símans, hefur þó styrkt stöðu sína á þeim tíma og er nú með 64,3 prósent markaðshlutdeild í sjónvarpi yfir IP-net. Það er rúmlega tíu prósentustigum meiri hlutdeild en fyrirtækið var með fyrir fjórum árum. Að sama skapi hefur áskrifendum þó einungis fjölgað um 897 á tímabilinu, eða um 1,6 prósent.
Við bætist að Sýn keypti 365 miðla á árinu 2017, en síðarnefnd fyrirtækið var með 5.914 áskrifendur að sjónvarpi yfir IP-net um mitt það ár. Þegar sá fjöldi er tekin með í reikninginn hefur áskrifendum Vodafone fækkað um þriðjung. Markaðshlutdeild Vodafone er nú 35,7 prósent.
Sjónvarpsþjónusta skilar 75 prósent af tekjuaukningu
Í skýrslu Fjarskiptastofu er einnig fjallað um heildartekjur af fjarskiptastarfsemi. Í þeirri samantekt kemur í ljós að þær hafa aukist umtalsvert á síðustu fjórum árum.
Á fyrri hluta ársins 2017 voru heildartekjur fyrirtækja af fjarskiptastarfsemi hérlendis 27,5 milljarðar króna. Þær voru 34,8 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2021, eða 7,3 milljörðum krónum meiri.
Þar munar langmestu um auknar tekjur af sjónvarpsþjónustu. Þær voru 1,9 milljarðar króna á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 en 7,4 milljarðar króna á sama tímabili í ár. Því er 75 prósent af tekjuaukningunni tilkominn vegna nýrra tekna af sjónvarpsþjónustu. Vert er að taka fram að í millitíðinni keypti Sýn fjölda ljósvakamiðla af 365 miðlum og Síminn hefur bætt verulega í þá þjónustu sem hann selur undir hatti Sjónvarps Símans.