Sigurður Ingi Friðleifsson, sviðsstjóri loftslagsmála, orkuskipta og nýsköpunar hjá Orkustofnun, segir okkur hafa tvö ár „til að rífa þetta í gang“, stefna á toppinn í nýskráningum nýorkubíla í stað þess að sætta okkur við silfrið. Með því að setja markið á að allir nýir fólks- og bílaleigubílar sem komi á íslenskar götur árið 2030 gangi fyrir nýorku (rafmagni, vetni o.s.frv.) megi ná þeim loftslagsmarkmiðum sem sett eru fram í aðgerðaáætlunum stjórnvalda. Nýtt orkuskiptalíkan Orkustofnunar hrundi næstum því er spár um fjölgun bílaleigubíla á næstum árum var færð inn. „Við verðum að fara í þessa átt,“ segir Sigurður með áherslu, um nauðsyn þess að rafvæða bílaleigubílaflotann, „ef við ætlum að ná þessum markmiðum“.
Orkuskiptalíkan Orkustofnunar var kynnt á fundi í Grósku í vikunni. Líkanið er gagnvirkt tól sem eykur gagnsæi og aðgengi að upplýsingum um framtíðina. Líkanið nær til orkuskipta jarðefnaeldsneytis yfir í nýja orkugjafa og hvaða áhrif það hefur á raforkuþörf. Orkuskiptalíkanið má því nota sem verkfæri í áætlanagerð út frá stillanlegum forsendum sem geta rímað við markmið, stefnu og skuldbindingar Íslands í orku- og loftslagsmálum.
„Þetta er hörkulíkan,“ sagði Sigurður Ingi, er hann tók til máls á kynningarfundinum. „Þetta er nýja Play Station fyrir ykkur til að leika með og taka réttar ákvarðanir.“
Hann sagði að þótt það væri eflaust aldrei jafn flókið og nú að spá fyrir um framtíðina væri það að hluta tilkomið vegna þess að „við getum í dag haft miklu meiri áhrif á framtíðina en við gátum áður fyrr.“
Í erindi sínu beindi hann sjónum sínum að vegasamgöngum, „því þar erum við í miðri á, þar eru mestu möguleikarnir og þar getum við gert ótrúlegar umbreytingar fyrir 2030“.
Hann brá því næst upp á skjáinn mynd af spá um orkunotkun bifreiða til ársins 2040. „Óttist þið eigi þó að orkuþörf sé að hrynja,“ sagði hann um það sem myndin sýndi. „Þetta er fegurðin í rafvæðingu samgangna.“ Með henni minnkar orkuþörf, þ.e.a.s. orkueiningum sem þarf í samgöngur mun fækka í framtíðinni „sem eitt og sér ætti að hvetja ykkur til að rafvæða sem allra mest“.
Sú grunnspá sem er lögð til grundvallar í orkuskiptalíkaninu gerir ráð fyrir að árið 2030 nemi olíunotkun bifreiða 223 þúsund tonnum olíuígilda eða um 79 prósentum af heildarorkuþörf samgangna. Slík olíunotkun mun valda losun koltvísýrings upp á 681 þúsund tonn, um 11 prósentum minna en árið 2005. Það er ekki nóg til að ná markmiðum Íslands í loftslagsmálum.
Ferðamennirnir: Hið villta hross
Sú mikla aukning í losun frá vegaumferð sem orðið hefur síðustu ár skýrist að miklu leyti af gríðarlegri fjölgun ferðamanna. Ferðir þeirra um landið eru „mjög eldsneytisdrifnar“ því þeir fara flestir um á bílaleigubílum eða hópferðabílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. En nú er stefnt að því að ná losuninni niður „og ná tökum á þessu villta hrossi“, svo gripið sé til samlíkingar sem Sigurður notaði.
Samkvæmt núverandi aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum, sem þarfnast orðið uppfærslu, er áætlað að losun frá samgöngum á landi verði 615 þúsund tonn árið 2030 en hún var 776 þúsund árið 2005. Þess er því vænst, samkvæmt áætluninni, að hún dragist saman um 161 þúsund tonn á þessu tímabili.
En, benti Sigurður á, þar sem losunin í vegasamgöngum hefur aukist frá árinu 2005 í 950 þúsund tonn þarf samdrátturinn að vera mun meiri en búist var við eða 355 þúsund tonn í stað 161 þúsunda. Og miðað við grunnspá líkansins verður losun frá vegasamgöngum 681 þúsund tonn árið 2030, og verkefnið því orðið miklu stærra.
„Menn þurfa ekki að vera miklir stærðfræðisnillingar til að sjá að það er ekki 615 þúsund tonn.“ Þannig að miðað við markmið þá er þegar komið stórt og án frekari aðgerða óbrúað gat. „Áætlunin dugar ekki til. Og hvað gerum við þá? Þá þarf að herða tökin.“
Til að rannsaka hvað til þarf svo loftslagsmarkmiðin náist kemur orkuskiptalíkanið að góðum þörfum. Í því er hægt að breyta margvíslegum forsendum og sjá hvaða áhrif það hefur á lokaniðurstöðuna.
Sigurður Ingi kynnti því næst til sögunnar það sem hann kallar „norsku leiðina“. Norðmenn eru eins og frægt er orðið fremstir meðal þjóða þegar kemur að nýskráningum nýorkubíla. Þeir hafa nú sett sér þau markmið að allir nýskráðir fólksbílar árið 2025 verði nýorkubílar. Það sama gildir um alla bílaleigubíla og sendiferðabíla. Norðmenn stefna ennfremur að því að árið 2030 gangi helmingur nýskráðra hópferða- og vöruflutningabíla fyrir nýorku.
Ef Norðmenn geta þetta ...
Noregur er veðurfarslega á svipuðum slóðum og Ísland, benti Sigurður á, það ætti því að vera jafn erfitt að fara í orkuskipti þar og hér. „Þannig að ég veit ekki af hverju við ættum ekki að geta gert þetta líka,“ sagði hann um nýskráningarmarkmið Norðmanna.
Það eru tvö ár þar til árið 2025 gengur í garð, „við höfum tvö ár til að rífa þetta í gang, innviði og annað. Til að markaðssetja rafbílinn sem bílaleigubíl. Við verðum að fara í þessa átt ef við ætlum að ná þessum markmiðum“.
Svo stórtækir eru í bílaleigubílar þegar kemur að hlutdeild í losun, svo „rosalega þykkir“, líkt og Sigurður orðaði það, að þegar tölur um þá voru settar inn í líkanið miðað við spá Ferðamálastofu í ferðamannafjölda til næstu ára, „þá nánast hrundi líkanið“. Þetta segir hann sýna vel hversu mikla áherslu þurfi að setja á þá í tengslum við loftslagsmarkmiðin.
Silfrið ekki nóg
En er norska leiðin raunhæf?
Í Noregi er nýskráningarhlutfall rafbíla komið í 80 prósent. Og séu tengiltvinnbílar teknir með er hlutfallið komið í 90 prósent. „Ég myndi segja að það væri einhver raunhæfni í því,“ sagði Sigurður. „Við státum okkur af silfurverðlaunum, sem ég er orðinn hundleiður á. Ég stefni alltaf á gullið. Það eru þannig séð engar tæknilegar hindranir í vegi fyrir því að við getum náð sama marki og Norðmenn.“
Hann benti á að ívilnanir fyrir rafbíla í Noregi eru ekki meiri en á Íslandi en að álögur á jarðefnaeldsneyti væru þó eitthvað hærri.
Ívilnanir eru fjárfestingar
Það er algjör „no brainer“ að fá sér rafbíl hvað varðar allan rekstrarkostnað slíkrar bifreiðar miðað við brunabíla, sagði Sigurður. „Rafbíllinn borgar sig á öllum sviðum.“ Að auki fáum við einnig mikið sem samfélag með því að rafbílavæðast. „Við fáum aukið orkuöryggi, minni heilsuspillandi mengun, við náum loftslagsskuldbindingum okkar og svo mætti áfram telja.“ Ekki sé óeðlilegt að borga fyrir slíkan samfélagsávinning með ívilnunum. „Ívilnanir eru fjárfestingar, sérstaklega þegar kemur að orkuskiptum.“
Norska leiðin skilar okkur í mark
En hvað myndi það þýða fyrir losunarmarkmið okkar að fara norsku leiðina? Svarið er: Með henni náum við markmiðum okkar og rúmlega það. „Málið leyst. Það þarf ekkert að ræða það frekar.“
Sigurður fjallaði einnig um annan mjög góðan kost sem stendur til boða: Breyttar ferðavenjur. Í líkaninu er hægt að breyta forsendum og sjá hvaða áhrif það hefur á loftslagsmarkmið okkar að fækka bílum eða fækka eknum kílómetrum. Síðari kosturinn er að hans mati líklegri til að raungerast. Fólk sé líklegra til að nota bílinn minna en að eiga hann alls ekki.
Breyttar ferðavenjur; að vinna heima, nota strætó, hjóla eða ganga í vinnuna, eru „hagkvæmasti, skilvirkasti, ódýrasti og besti kosturinn í orkuskiptum. Gleymum því aldrei þegar við erum að skoða flotta rafbíla.“