Sænska dagblaðið Expressen greinir frá því á vef sínum að boðaðar kosningar,sem áttu að fara fram 22. mars 2015, verði ekki haldnar. Búið er að boða til blaðamannafundar klukkan 10:30 þar sem Stefan Löfven forsætisráðherra, og leiðtogi Jafnaðarmanna í Svíþjóð, mun tilkynna um þetta. Með honum á fundinum verða forsvarsmenn sænsku borgaraflokkanna, sem sitja ekki í ríkisstjórn.
Löfven hafði boðað til kosninga fyrr í desembermánuði í kjölfar þess að minnihlutastjórn undir hans forsæti mistókst að koma fyrsta fjárlagafrumvarpi sínu í gegnum þingið, en hún tók við völdum í kjölfar þingkosninga sem fóru fram í september síðastliðnum.
Skoðannakannanir bentu til þess að Svíþjoðademókratar, flokkur þjóðernissinna sem vill herða mjög innflytjendalöggjöf landsins, myndi styrkja sig mjög ef kosið yrði aftur í mars. Flokkurinn vann stórsigur í síðustu kosningum þegar hann fékk 12,9 prósent atkvæða, sem er það mesta sem hann hefur nokkru sinni hlotið.
Undanfarna daga hafa ríkisstjórnarflokkarnir í Svíþjóð átt í viðræðum við borgaraflokkanna í landinu um stuðning við að koma fjárlagafrumvarpinu í gegnum sænska þingið. Fulltrúar þeirra verða með Löfven á blaðamannafundinum á eftir.