Logi Einarsson var kjörinn þingflokksformaður Samfylkingarinnar á fundi þingflokksins í dag, samkvæmt tilkynningu sem hefur borist frá flokknum.
Hann tekur við þingflokksformennskunni af Helgu Völu Helgadóttur sem gegnt hafði stöðunni frá því að þing kom saman eftir alþingiskosningarnar í fyrra.
Kjarninn sagði frá því á föstudag að stefnt væri að því að Logi, sem var formaður Samfylkingarinnar frá 2016 og þar til Kristrún Frostadóttir tók við af honum á landsfundi flokksins undir lok októbermánaðar, tæki við embættinu af Helgu Völu.
Í tilkynningu frá Samfylkingunni er haft eftir Loga að hann sé „þakklátur fyrir traustið“ og að hann muni gera sitt besta við að leggja nýrri forystu flokksins lið.
Að auki kemur þar fram að Þórunn Sveinbjarnardóttir hafi verið kjörin varaformaður þingflokksins og Jóhann Páll Jóhannsson hafi verið kjörinn ritari þingflokksins.