Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og Hilda Jana Gísladóttir bæjarfulltrúi á Akureyri og formaður Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra leiða lista Samfylkingarinnar í Norðausturkjördæmi til kosninga í haust. Í þriðja sæti listans er Eydís Ásbjörnsdóttir, framhaldsskólakennari og bæjarfulltrúi í Fjarðabyggð.
Listinn var samhljóða samþykktur á fundi kjördæmisráðs Samfylkingarinnar í kvöld, samkvæmt tilkynningu á vef flokksins. Logi og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir eru í dag þingmenn flokksins í kjördæminu en Albertína ákvað að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi þingsetu. Hún skipar eitt af neðstu sætum listans.
Á vef Samfylkingarinnar er haft eftir Loga að han sé stoltur af því að leiða áfram listann í kjördæminu. Hann telur það listanum til tekna að efstu fjórir frambjóðendur hafi allir bakgrunn úr sveitarstjórn.
„Öll höfum við setið í sveitarstjórnum og þekkjum vel mikilvægi nærþjónustunnar og nauðsyn þess að auka samvinnu og traust milli ríkis og sveitarfélaga. Ég hlakka til kosningabaráttunnar með þessum góða hópi,“ er haft eftir Loga.
Efstu sæti á listanum:
- Logi Einarsson, Akureyri- Alþingismaður og formaður Samfylkingarinnar
- Hilda Jana Gísladóttir, Akureyri- Bæjarfulltrúi og formaður SSNE
- Eydís Ásbjörnsdóttir, Eskifirði- Framhaldskólakennari og bæjarfulltrúi
- Kjartan Páll Þórarinsson, Húsavík- Íþrótta- og tómstundafulltrúi
- Margrét Benediktsdóttir, Akureyri- Háskólanemi
- Sigurður Vopni Vatnsdal, Vopnafirði- Deildarstjóri á leikskóla
- Ísak Már Jóhannesson, Akureyri- Umhverfisfræðingur
- Lilja Guðný Jóhannesdóttir, Neskaupstað- Skólameistari
Eins og Kjarninn fjallaði um yfir páskana mælist Samfylkingin í nýjustu könnunum MMR með umtalsvert meira fylgi á Norðurlandi en fyrir kosningarnar 2017, eða tæp 18 prósent. Í sambærilegum könnunum MMR fyrir tæpum fjórum árum var fylgið í landshlutanum að mælast í tæpum 10 prósentustigum. Á Austurlandi hafa hartnær 13 prósent þeirra sem taka afstöðu sagst ætla að kjósa Samfylkinguna – fyrir kosningarnar 2017 voru það rúm 8 prósent.