Þungvopnaður maður, sem var yfirbugaður í lest á leið frá Amsterdam til Parísar í gærkvöldi, er 26 ára gamall og frá Marokkó. Hann hefur tengsl við róttæka íslamista, hefur ferðast til Sýrlands og lögregla þekkti til hans.
Bernard Cazeneuve, innanríkisráðherra Frakklands, greindi frá því í dag að árásarmaðurinn hefði þessi tengsl. Hann sagði þó að ekki væri búið að bera endanlega kennsl á árásarmanninn, en að nafnið sem hann hefur gefið upp væri nafn manns sem spænsk yfirvöld hefðu varað frönsk yfirvöld við fyrir rúmu ári síðan, í febrúar 2014.
Franskir og spænskir fjölmiðlar hafa nafngreint manninn og sagt hann heita Ayoub El-Kahzzani. Hann er sagður hafa búið í Frakklandi, á Spáni og í Belgíu.
Maðurinn hóf skothríð um borð í lestinni en var fljótt yfirbugaður af öðrum farþegum, þar á meðal tveimur bandarískum hermönnum sem voru í fríi. Þeir hafa hlotið mikið lof fyrir hugrekkið sem þeir þykja hafa sýnt. Bæði forsetar Frakklands og Bandaríkjanna hafa lofað hermennina, sem og forsætisráðherra Bretlands. Hér að neðan má sjá myndband úr lestinni, en það var bandaríska sjónvarpsstöðin CNN sem sýndi það fyrst.
Maðurinn var sem fyrr segir þungvopnaður. Hann var með Kalashnikov riffil, sjálfvirka skammbyssu og hníf.