Lögreglan í Vestmannaeyjum birti í dag frétt á heimasíðu sinni þar sem hún fór yfir þau mál sem komu upp hjá henni á meðan að á Þjóðhátíð í Eyjum stóð um helgina. Það er að segja öll þau mál sem snúast ekki um kynferðisbrot, en lögreglan í Vestmannaeyjum var búin að ákveða það í aðdraganda Þjóðhátíðar að upplýsa ekki um slíkt brot, að eigin sögn til að vernda þolendur fyrir umfjöllun fjölmiðla.
Ákvörðunin hefur verið harðlega gagnrýnd og í morgun bættist Björt Ólafsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, í hóp þeirra sem það gera. Björt sagði í stöðuuppfærslu á Facebook að afstaða lögreglustjórans í Vestmannaeyjum um að tjá sig ekki um kynferðisbrot sé "algjört rugl". Í lok færslu sinnar spurði Björt: „Er betur hægt að réttlæta Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum ef að fréttir af nauðgunum eru þurkaðar út svo allir góðborgaranir geti komið sér heim hressir eftir magnaða helgi og halda áfram að lifa í lukkunar velstandi ófavitandi hvað gekk á í næsta tjaldi?
Já nei, sorry. Allir nema þolandinn að kynferðisofbeldinu auðvitað sem að lögreglustjórinn í Eyjum og fagaðilarnir allir, færa skömmina svo smekklega aftur á silfurfati, einan og yfirgefin til að bera.“
Ekkert minnst á kynferðisbrot
Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri í Vestmannaeyjum, sendi í síðustu viku út bréf til allra viðbragðsaðila sem tengjast Þjóðhátíð í Eyjum og brýndi fyrir þeim að upplýsa fjölmiðla ekki um kynferðisbrot sem upp koma á Þjóðhátíð um helgina. Í bréfinu, og í viðtölum eftir að það var sent, sagði Páley að þessar aðgerðir væru til að vernda þolendur kynferðisbrota fyrir umfjöllun.
Þrátt fyrir mikla gagnrýni kvikaði Páley hins vegar hvergi frá upprunalegri afstöðu sinni og ekkert hefur verið upplýst um hvort kynferðisbrot hafi komið upp á Þjóðhátíð í ár.
Það breyttist ekkert í frétt sem lögreglan í Vestmannaeyjum birti fyrr í dag þar sem starfsemi hennar á Þjóðhátíð er gerð, að mestu, upp. Í fréttinni er greint frá því að töluverður erill hafi verið hjá henni vegna ölvunarútkalla og að um tíma hafi allar fangageymslur verið fullar. Einn hafi gist í fangageymslum vegna líkamsárásar en viðkomandi skallaði konu í andlitið í Herjólfsdal. Þá hafi komið upp um 70 fíkniefnamál á hátíðinni og að í stærsta málinu hafi aðili verið handtekinn með á fimmta tug gramma af amfetamíni og kókaíni á sér.
Í lok fréttarinnar segir: "Það er mat lögreglunnar í Vestmannaeyjum að Þjóðhátíð Vestmannaeyja 2015 hafi farið vel fram miðað við þann fjölda sem hingað kom að skemmta sér."