Einn er lífshættulega slasaður eftir að hafa orðið fyrir byssuskoti lögregluþjóns, í mótmælum í borginni Ferguson í Missouri í Bandaríkjunum í nótt. Mótmælin voru í tilefni af því að eitt ár er liðið frá því að hvítur lögreglumaður í borginni skaut ungan, svartan mann til bana, Michael Brown að nafni. Brown var óvopnaður þegar lögreglan skaut hann.
Í umfjöllun New York Times segir að mótmælin í gærdag og nótt hafi lengst af farið friðsamlega fram. Skothvellir heyrðust þegar leið á kvöldið. Á sama tíma voru fjölmiðlar að taka viðtal við lögreglustjórann í Ferguson, þar sem hann tjáði sig um mótmælin en þurfti að stoppa vegna skothvella.
Óhugananlegt myndband var birt á Twitter þar sem maðurinn sem var skotinn af lögreglunni liggur hreyfingarlaus á jörðinni. Í umfjöllun New York Times segir að lögreglan hafi á endanum komið manninum til aðstoðar og virtist sem hann væri með meðvitund þegar hann var færður inn í sjúkrabíl. Maðurinn liggur nú þungt haldinn á sjúkrahúsi, samkvæmt frétt New York Times.
— Search4Swag (@search4swag) August 10, 2015
Dauði Michael Browns fyrir ári síðan markaði upphafi mikilla mótmæla í Bandaríkjunum, í Ferguson og víðar, þar sem mótmælendur hafa barist fyrir réttindum svartra borgara og gegn lögregluofbeldi, meðal annars undir yfirskriftinni „Líf svartra skiptir máli“. Ástandið í Ferguson var sérstaklega eldfimt í nóvember á síðasta ári, þegar tilkynnt var um þá ákvörðun kviðdóms að lögreglumaðurinn sem skaut Brown yrði ekki ákærður fyrir manndráp. Í kjölfarið brutust út mótmæli og óeirðir í Ferguson sem stóðu í marga daga. Á þeim tíma var víðar mótmælt í Bandaríkjunum, meðal annars í New York borg og Chicago.