Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytisins hafi lekið minnisblaði um nafngreinda hælisleitendur í nóvember í fyrra. Fréttastjóri mbl.is þarf hins vegar ekki að skýra frá því hver það var sem lak umræddu minnisblaði til miðilsins. Þetta kemur fram í dómi Hæstaréttar sem felldur var síðastliðinn mánudag.
Málið sem rekið var fyrir Hæstarétti snérist um að lögreglan vildi að Sunna Ósk Logadóttir, fréttastjóri mbl.is, myndi upplýsa um hver það var sem kom umræddu minnisblaði til miðilsins, en hann er annar tveggja fjölmiðla sem birti fréttir úr því. Hinn var Fréttablaðið. Sunna Ósk neitaði að upplýsa um heimildarmanninn og því fór málið fyrir dómstóla.
Réttur fjölmiðla til verndun heimildarmanna varinn
Í dómnum segir að lögreglan hafi rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytisins hafi látið tveimur fjölmiðlum í té óformlegt minnisblað með persónuupplýsingum um þrjá nafngreinda einstaklinga og því brotið gegn almennum hegningarlögum. Síðan segir orðrétt:
„ Annar þessara fjölmiðla er netmiðillinn mbl.is þar sem varnaraðili starfar sem fréttastjóri. Krefst lögregla þess að hún skýri frá því fyrir dómi hver hafi ritað frétt, sem birt var á mbl.is og byggði á minnisblaði innanríkisráðuneytis, um mál eins þeirra sem þar var nefndur og sótt hafði um hæli sem flóttamaður hér á landi, en mál hans var þá til meðferðar hjá ráðuneytinu. Ennfremur með hvaða hætti netmiðillinn hafi komist yfir minnisblaðið og frá hverjum það hafi borist. Varnaraðili hefur neitað að svara þessum spurningum og borið fyrir sig a. lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, þar sem kveðið er á um að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut á að svara spurningum um hver sé höfundur eða heimildarmaður að grein eða frásögn sem hefur birst án þess að hann væri nafngreindur, ef vitnið ber ábyrgð að lögum á efni sem birtist opinberlega eða það hefur öðlast vitneskju um höfund eða heimildarmann í starfi hjá ábyrgðarmanni“.
Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að forsenda þess að fjölmiðlar geti rækt hlutverk sitt er að þeir geti aflað upplýsinga um mál sem hafa þýðingu fyrir almenning og miðlað þeim án afskipta annara. „Einn þáttur í þessu sjálfstæði fjölmiðla er að þeir geti tekið við slíkum upplýsingum í trúnaði án þess að þurfa að gera grein fyrir hvaðan eða frá hverjum þær stafi. Frá þeirri meginreglu verður því aðeins vikið að í húfi séu mjög veigamiklir almannahagsmunir sem vega augljóslega þyngra en hagsmunir fjölmiðla af því að halda trúnaði við heimildarmenn sína.“ Hæstiréttur telur þá almannahagsmuni ekki vera undir í þessu máli.
Dómstólinn telur málið samt sem áður mjög alvarlegt. „Það að koma slíkum upplýsingum [minniblaðinu] á framfæri við fjölmiðla gerir ætlað brot á þagnarskyldu enn alvarlegra. Ef brotið hefur verið framið í ávinningsskyni getur það varðað allt að þriggja ára fangelsi, sbr. síðari málslið 1. mgr. 136. gr. almennra hegningarlaga, en í athugasemdum með ákvæðinu kemur fram að hinn óréttmæti ávinningur þurfi ekki að vera fjárhagslegs eðlis“.
Rannsökuðu tölvur og farsíma hinna grunuðu
Með dómi Hæstaréttar fylgir einnig úrskurður héraðsdóms í sama máli. Þar kemur skýrt fram af hverju lögreglan telur sig hafa rökstuddan grun um að ákveðinn starfsmaður innanríkisráðuneytisins hafi lekið minnisblaðinu. Alls höfðu átta einstaklingar vitneskju um tilurð minnisblaðsins: skrifstofustjóri, þrír lögfræðingar ráðuneytisins, ráðuneytisstjóri, Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra og tveir pólitískir aðstoðarmenn hennar. Í héraðsdómnum segir að lögreglan hafi falað upplýsinga um farsímanotkun starfsmannanna og rannsakað tvær fartölvur auk allra inn- og úthringinga úr borðsímum ráðuneytisins eftir klukkan 17 þann 13. nóvember, daginn sem minnisblaðið lak. Nöfn þeirra starfsmanna sem eiga í hlut hafa verið tekin út úr dómnum en þar segir að „ Samkvæmt greinargerð sóknaraðila voru helstu niðurstöður þessara aðgerða lögreglu þær að B hafi átti rúmlega tveggja mínútna símtal við [...] Vísis, [...], 19. nóvember 2013 kl. 18:40, og þrjú styttri símtöl við hann síðar sama kvöld. Þá hafi B einnig átt rúmlega tveggja mínútna símtal 20. nóvember kl. 9:46 við [...] Morgunblaðsins, [...], en eins og áður segi hafi mbl.is birt kl. 10:55 frétt á vef sínum þar sem fram komi að vefmiðilinn hafi undir höndum óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins. Í kjölfar þessara upplýsinga hafi lögregla tekið skýrslu af [...] Vísis og [...] Morgunblaðsins sem báðir hafi borið m.a. fyrir sig a-lið 2. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008.
Í greinargerð sóknaraðila er enn fremur gerð grein fyrir niðurstöðu rannsóknar á persónulegri tölvu B. Þar hafi komið í ljós að [...] hafi vistað umrætt minnisblað í tölvu sinni og opnað það tvívegis 19. nóvember kl. 18:46 og 22:20. Þá hafi mátt sjá að þegar skjalinu hafi verið lokað hafi tölvan spurt „Do you want to save changes youmade to [A]“. Hafi B verið [...] að nýju 10. maí sl., en sóknaraðili kveður [...] hafa í fyrri yfirheyrslu sagt mjög ákveðið að [...] hafi bara opnað umræddan tölvupóst og ekkert átt neitt frekar við skjalið og eytt því. Fram kemur í greinargerð sóknaraðila að B hafi gefið litlar skýringar á þessu misræmi. Þá hafi B ekki getað útskýrt hvers vegna þær tímasetningar, sem [...] hafi verið að vinna með skjalið, væru mjög í námunda við tímasetningar á símasamskiptum hans við [...] Vísis (18:40 og 22:43). Í sömu yfirheyrslu hafi lögregla fengið heimild til þess að skoða tölvupósta B á umræddu tímabili en ekkert marktækt hafi verið að sjá þar sem tengdist málinu. Hins vegar hafi mátt sjá í tölvu B ummerki um að B hafi gert leit að umræddu skjali í tölvunni. Aðspurður hvers vegna B hafi þurft að leita sérstaklega að skjalinu, þar sem það hafi verið vistað á skjáborði tölvunnar (desktop), hafi [...]svarað að B hafi verið jafn [...] og allir aðrir yfir þessu máli og viljað sjá hvort eitthvað væri inni í tölvu sinni sem ekki ætti að vera þar. Þá getur sóknaraðili þess að skjalið hafi ekki verið í tölvu B, enda hafi [...] skýrt frá því að hann hefði eytt því.
Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að í ljósi alls þessa hafi hún rökstuddan grun um að starfsmaður innanríkisráðuneytisins hafi látið fjölmiðla hafa hið óformlega minnisblað og þar með brotið gegn þagnarskylduákvæði 18. gr. laga um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna nr. 70/1996 og 136. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Það sé enn fremur mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lögregla hafi í rannsókn sinni leitað allra þeirra leiða sem færar séu til þess að upplýsa mál þetta."