Menntunarkröfur lögreglumanna og rannsakenda á Íslandi eru afar lágar og rannsóknarlögreglumenn telja sjálfir ríka ástæðu til að bæta nám, þjálfun og fræðslu hvað varðar rannsóknir nauðgunar- og kynferðisbrota.
Þetta kemur fram í rannsókn þar sem viðhorf og reynsla fagaðila sem koma að meðferð nauðgunarmála var skoðuð. Hildur Fjóla Antonsdóttir, mann- og kynjafræðingur, vann rannsóknina á vegum Eddu-öndvegisseturs og í samstarfi við innanríkisráðuneytið.
Tekin voru viðtöl við 26 manns sem starfa innan kerfisins. Talað var við sex sérfræðinga á sviði heilbrigðis- og félagsmála sem gefa álit fyrir dómi, sex rannsóknarlögreglumenn, fimm réttargæslumenn og verjendur, fjóra ákærendur og fimm dómara.
Stóla á eigið hyggjuvit og reynslu
Rannsóknarlögreglumennirnir sögðust helst stóla á sitt eigið hyggjuvit og reynslu við rannsóknir. Þeir hafi ekki fengið sérstök tækifæri til sérþjálfunar. „ [...] þú þarft bara algjörlega að bjarga þér sjálfur og þar gerast mistökin, þar fara hlutirnir úrskeiðis,” er til að mynda haft eftir einum rannsóknarlögreglumanni í skýrslunni.
Grunnnámskeið fyrir rannsóknarlögreglumenn eru yfirleitt haldin á hverju ári. Það eru fjögurra vikna námskeið þar sem einum og hálfum degi er varið sérstaklega í ofbeldis- og kynferðisbrot auk þess sem nemendur fá kynningu frá Neyðarmóttöku fyrir þolendur kynferðisbrota. Þá hafa verið haldin sérnámskeið þar sem áhersla hefur verið lögð á kynferðisbrot, en fram kom í viðtölum að ekki hafi verið nægjanlega mikið af slíkum námskeiðum í boði. Þó kemur fram í skýrslunni að eftir að viðtölin voru tekin hafi verið haldið tveggja vikna sérnámskeið um rannsóknir kynferðisbrota.
„Þannig að það er eitthvað sem mér finnst vanta mjög mikið, það er tækifæri til menntunar á þessu sviði. Það er fullt af námskeiðum í boði erlendis, eingöngu erlendis. Ég hef beðið um að fara á hin ýmsu námskeið, en það er bara ekkert í boði út af fjárskorti,“ segir rannsóknarlögreglumaður jafnframt í skýrslunni.
„Þetta snýr bara að þá þessum einstaka lögreglumanni, hvað gerir hann sjálfur, hvað skilur hann af því sem hann er að gera og hvernig vinnur hann með það,“ segir rannsóknarlögreglumaður einnig.
Niðurstaða viðmælenda og skýrslunnar er þó sú að gæði rannsókna hafi aukist á síðustu árum. Flestir eru til að mynda sammála um að með tilkomu sérstakrar kynferðisbrotadeildar hafi orðið til hópur rannsóknarlögreglumanna sem hafi öðlast mikla reynslu af rannsóknum. Munur á gæðum rannsókna fari frekar eftir einstökum rannsóknarlögreglumönnum en lögregluembættum.
Kynnt fyrir innanríkisráðherra
Í rannsókn Hildar Fjólu eru taldir upp ýmsir fleiri ágallar á meðferð nauðgunarmála innan réttarvörslukerfisins og lagðar fram tillögur til úrbóta á þeim. Rannsóknin hefur verið kynnt fyrir Ólöfu Nordal innanríkisráðherra og mun hún nú fara yfir tillögurnar og meta þær.