Þáverandi lögreglustjóri á Suðurnesjum hringdi í Gísla Frey Valdórsson, fyrrum aðstoðarmann Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, að morgni 20. nóvember 2013. Gísli hringdi sömuleiðis í lögreglustjórann þennan samadag og fékk tölvupóst frá embætti hennar um málefni hælisleitandans Tony Omos. Þetta er fullyrt í DV í dag og sagt að símtölin hafi alls verið þrjú.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir var á þeim tíma lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hún var skipuð í starf lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins af Hönnu Birnu í júlí síðastliðnum án auglýsingar í kjölfar þess að fyrirrennari hennar, Stefán Eiríksson, sagði starfi sínu lausu. Í aðdraganda uppsagnar Stefáns hafði hann orðið fyrir ítrekuðum afskiptum af hendi innanríkisráðherra vegna rannsóknar á lekamálinu.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir var lögreglustjóri á Suðurnesjum. Hún var skipuð lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins í sumar af Hönnu Birnu Kristjánsdóttur.
Gísli Freyr hefur játað að hafa lekið minnisblaði með upplýsingum um Tony Omos til Fréttablaðsins og mbl.is sem birtust í miðlunum þennan saman dag, 20. nóvember. Áður en minnisblaðinu var lekið var búið að bæta upplýsingum við það um Omos. Gísli Freyr var í síðustu viku dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir lekann.
Í DV í dag kemur fram að blaðið reyndi að hafa samband við bæði Sigríði Björn og Gísla Frey til að spyrja þau út í málið í gær í gegnum tölvupóst en að engin svör hefðu borist við spurningum blaðsins þegar það fór í prentun.
Í samtali við RÚV segist Gísli Freyr ekki muna hvort hann hafi rætt um Tony Omos í símtölum sem hann átti við Sigríði að morgni 20. nóvember. Þá segir hann að símtölin hafi verið tvö, ekki þrjú.