Nærri þrír af hverjum tíu fullorðnum landsmönnum telja sig hafa verið bitna af lúsmýi á Íslandi í sumar. Það eru tvöfalt fleiri en fyrir þremur árum. Fleiri íbúar landsbyggðarinnar en höfuðborgarsvæðisins telja sig hafa verið bitna af lúsmýi og mest er aukningin á Norðurlandi.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í nýjum þjóðarpúlsi Gallup þar sem upplifum landsmanna af lúsmý þetta sumarið er tekin saman.
Lúsmý, sem sækir í mannablóð, nam hér land sumarið 2015 og er orðinn órjúfanlegur hluti af sumarleyfum landsmanna. Í frétt sem birtist á vef Náttúrufræðistofnunar í lok júní 2015 sagði meðal annars:
„Undarleg atvik urðu um síðastliðna helgi þegar lúsmý tók að herja á íbúa sumarhúsa beggja vegna Hvalfjarðar. Ekki er vitað til að slíkar atlögur hafi átt sér stað áður hér á landi. Lúsmý er ætt örsmárra mýflugna sem langflest sjúga blóð úr öðrum dýrum, allt frá skordýrum til mannskepna. Þeir sem fyrir atlögunum urðu voru flestir illa útleiknir.“
Tvöfalt fleiri telja sig hafa verið bitna í sumar en sumarið 2019
Samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar telja 29 prósent fullorðinna landsmanna sig hafa verið bitna af lúsmýi í sumar eða um tvöfalt fleiri en þegar spurt var fyrir þremur árum. Þá var hlutfallið 14 prósent.
Aukningin er mest á Norðurlandi. Ef dreifingin er skoðuð eftir kjördæmum má sjá að hlutfall þeirra se, telja sig hafa verið bitna af lúsmýi hækkar um 28 prósentustig í Norðvesturkjördæmi og 25 prósentustig í Norðausturkjördæmi.
Úr einu prósenti í 26 prósent
Fyrir þremur árum taldi aðeins eitt prósent íbúa í Norðausturkjördæmi sig hafa verið bitinn af lúsmýi en nú er hlutfallið 26 prósent. Á sama tíma hefur þeim sem telja sig hafa verið bitnir í Norðvesturkjördæmi fjölgað úr átta prósentum í 36 prósent.
Hlutfallið hefur í raun aukist í öllum landshlutum. Þannig hefur þeim sem telja sig hafa verið bitnir af lúsmýi í Suðurkjördæmi aukist úr 16 prósentum í 36 prósent. Aukningin nemur níu prósentum í Suðvesturkjördæmi og tíu prósentustig á höfuðborgarsvæðinu.
Þó sumarið sé búið og langt í næsta skammt af lúsmýarbitum er ágætt að viðhalda þekkingunni á vágestinum og hvernig bregðast má við honum.
Niðurstöður könnunarinnar byggja á netkönnun sem Gallup gerði dagana 1. til 11. september. Heildarúrtakið var 1.694 og þátttökuhlutfall var 49,6 prósent.